ERFÐAGALLI UMRÆÐUNNAR

Það sem einkennir öðru fremur íslenska þjóðfélagsumræðu er hið tvöfalda eðli hennar. Það er að segja að skoðun, hver sem hún kann að vera, er sett í pólitískt samhengi. Ekki má hafa þessa skoðun á þessu máli, nema að önnur skoðanaknippi fylgi með. Umræðuni er þar með tvístrað og hún nær aldrei að þroskast.

Takið eftir hve orðið „tvístrað“ við hæfi í þessu samengi. Orðið á sifjar sínar til tölunnar tveir.

Á þetta hefur verið bent margoft en það er eins og ekkert breytist. Þetta er hugvilla af verstu sort. Erfðagalli í skoðanamyndun þjóðarinnar. Þessi erfðagalli var reyndar miklu skaðlegri fyrir nokkrum áratugum, en þá keypti fólk í matinn eftir því hvaða stjórnmálaflokk það kaus. Það ók um að bifreiðum eftir því hvaða stjórnmálaflokk það kaus og það var í viðskiptum við banka og tryggingafélög eftir því hvaða stjórnmálaflokk það kaus.

Þetta hefur sem betur fer lagast en tvístrunin er sprell-lifandi í þjóðfélagsumræðunni. Umræðunni segji ég svo enginn fari nú að misskilja.

Ég fann þetta á eigin skinni i gær þegar ég bloggaði um þegar ég fékk hláturskast inn á klósettinu heima hjá mér. Hláturskastið má rekja til þess að ég fattaði að 67% þingflokks Sjálfstæðismanna eru eiginlega bófar og liðið sem er til vara, er með enn skuggalegri feril.

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og tóbak að þessu leiti. Það væri bannað ef það færi á markaðinn í dag.

Ég fékk dúndurtraffík á þessa færslu, yfir 4000 hitt, og athugasemdirnar hrönnuðust inn. Sumar athugasemdirnar vöktu hjá mér þessa pælingu um tvístrun umræðunnar. Í þessum athugasemdum er tekið undir skoðanir mínar en hvatt til þess að ég „taki fyrir“ Samfylkinguna næst, eða þá í beinu framhaldi.

Þarna er hugvillan. Þarna er erfðagalli umræðunnar.

-Þegar ég mótmæli einhverju, þarf ég ekkert endilega að mótmæla einhverju öðru í leiðinni. Það er enginn þversögn í því.

-þegar ég vel A, þarf ég ekkert endilega að vera andstæðingur B.

-Þegar ég er hlynntur aðild að ESB þarf ég ekkert endilega að taka undir skoðanaknippi Samfylkingarinnar allrar. það gerir mig ekkert að aðdáaenda Jarðganga Möllers þótt að við séum sammála með aðildina af ESB.

Erfðagalli umræðunnar virðist vera sá að ein skoðun á einhverju einu atriði er alltaf víkkað út og sett í stórt pólitískt samhengi. Umræðan fer allta að snúast um skoðanaknippi frekar en eina skoðun. Með þessu er TRYGGT að umræðan fer ofan í skotgrafirnar og komist ekkert áfram. Sem er akkúrat þar sem stór hluti þingmanna vill að umræðan sé. Með því skapast skjól fyrir dugleysi þeirra, fákunnáttu og hugleysi.

Stundum birtist erfðagalli umræðunar á þann hátt að ekki er hægt að hafa neina skoðun á neinu, nema að benda á lausnina á vandamálinu sem er til umræðu. Þetta hljómar ágætlega, en stenst ekki skoðun. Hve oft höfum við ekki heyrt digurvaxin þingmann fara möntruna um

„þú segir ákvörðunina vera slæma en þú hefur aldrei bent á eitthvað betra?“

Þarna er hugvillan. Þarna er erfðagallinn.

Þegar ég bendi borgaryfirvöldum á hættuleg gatnamót einhversstaðar, þarf ég ekkert að koma með lausnina á vandamálinu! Til þess eru borgaryfirvöld og allt það apparat. Tugir ef ekki hundruðir sérfræðinga í nákvæmlega þessu! -Umferðarmálum

Þegar einhver gagnrýnir stjórnvöld fyrir einhliða atvinnustefnu (álver t.d) , þá þarf sá hinn sami ekki að koma með lausnir á atvinnumálum landsins! Til þess eru tugir ef ekki hundruðir sérfræðinga sem hafa lært fagið í bestu skólum heimsins!.

það er allt í lagi að halda fram skoðun A og bara skoðun A. Skoðun A stendur alveg fyrir sínu og þarf engin skoðana-knippi sér til stuðnins.

Þegar ég gagnrýni Sjálfstæðisflokkinn, gagnrýni ég bara Sjálfstæðisflokkinn. Ég þarf ekkert að gagnrýna Framsókn, Samfylkinguna, Hreyfinguna, Borgarahreyfinguna, Þráinn Bertelson, Völu Matt, Soffíu Hansen eða Barbapabba.

þarna er erfðagallinn. Þarna er hugvillan og ég er handviss að þjóðmálaumræðan á Íslandi tæki þroskastökk þegar fólk fattar þetta.

25 comments On ERFÐAGALLI UMRÆÐUNNAR

 • Góður í dag.

  Kv. Frimmi

 • Fólk mun ekki fatta þetta, hjarðhegðunin er of rík í genum Íslendinga. Spurning hvort að Kári Stef. geti ekki einangrað hjarðhegðunargenið.

 • Fjári er þetta nákvæmlega akkurat það sem er að drepa íslenskt þjóðfélag…
  Við erum að éta okkur innanfrá af því að ef ég gagnrýni A þá er ég átómatískt settur sem aðalkallinn í stuðningsmannahópi B og þar með er öll umræðan í einum hvelli orðin að innihaldslausu engu…

  Og þessvegna er siðferðisvitund okkar núll…

 • Jájá, þetta er alveg hárrétt ábending. Og alveg rótgróinn andskoti. Ég man bara eftir því frá því ég var unglingur (sem er allt of langt síðan) að ef einhver leyfði sér að gagnrýna Bandaríkin og þjóðskipulag þar sögðu Sjallarnir allir sem einn: Jájá, þú ert þá að meina að allt sé svo frábært í Sovét!

 • Góð færsla Teitur.

 • Maður skildi ætla að Íslendingar væru eins og veðrið. þ.e breytilegir en svo er nú öldungis ekki.
  Í huga íslendinga er ekkert grámóskulegt í ætt við veður.
  Þú ert eins og sauður, svartur eða hvítur, ekki grár.

  ég spurði fyrr á tíð hvað með baugsmenn þegar þeir hafa sett allt til andskotans með offjárfestingu – svarið var – af hverju hatar þú þá svona.

  Þá spurði ég hvað með Davíð þegar hann verður búinn að eyðileggja landið með einræði sínu og spillingartöktum. ekki stóð á svari – af hverju ertu svona á móti Davíð.

  Íslendingum virðist frámunað að ræða nokkuð mál út frá einföldum hlutum og staðreyndum

  Hér var líka rekin í tíð DO og HH sú stefna í umræðunni að ef þú hlíðir ekki skilyrðislaust og ert með okkur þá ertu hryðjuverkamaður

 • Heyr heyr.

  Mér finnst einhvernveginn að þetta sama samskiptamynstur sé algengt í dysfúnksjónal fjölskyldum.

 • Takk fyrir þessa ábendingu

 • Bush junior var með þetta:
  "You're either with us, or with the terrorists".

 • Of flott blogg hjá þér Teitur.
  Sjálfur búið í Noregi í 10 af mínum fyrstu fullorðins árum og ég á mjög erfitt með að skilja margt hérna á klakanum. Þú skýrir eðli samfélagins frábærlega og hvernig íslendingar blanda öllu saman og stunda þar sem ég kalla trúarpólitík þar sem engin umræða verður vitræn, staðlar og þær kröfur sem kjósendur gera til alþingismanna og svo framvegis. Mætti stundum halda að við værum ekki Vestur Evrópubúar.

  Simon

 • Jú, jú. Það er erfðagalli að húka tímunum saman í einni og sömu skotgröfinni. Kræst.

 • Enn hittir tu naglann a hofudid 🙂

 • Nánast trúarleg hollusta alls almennings við stjórnmálaflokka er ein af stærstu ráðgátum nútímans.

  Í mínum huga er þetta til marks um hversu illa menntaðir og illa upplýstir Íslendingar eru.

 • Frábæar færsla ens og oftast áður.

  Gott viðhorf sem vonandi fær fólk til að hugsa. Geri þó ráð fyir að 30% þjóðarinnar leggist á skeljarnar fyrir framan líkneski eða mynd af Davíð og veiti honum lotningu sína. Minnug þess að ef þú ert ekki með honum eru á móti honum.

 • Eins og við höfum vanist undanfarið þá hittir þú naglann á höfuðið. Ég held að þetta snúist ekki eingöngu um tvískiptingu í stjórnmálum, heldur almennt þá virðist mér sem við skiptumst í tvo hópa á svo mörgum sviðum.

  Ef ég er á móti því að Reykjavík verði flugvallarstöð, er ég þá á móti landsbyggðinni ?

  Ef ég vil göng fyrir vestan, norðan eða austan, er ég þá á móti höfuðborgarsvæðinu ?

  Ef mér er svarað já við báðum þessum spurningum, vil ég eiga rétt á því að skíra mína hlið málsins, jafnt og ég vil gefa kost á því að heyra rök á móti. EN það er svo erfitt.

  Þetta fer allt í eitthvað skítkast, sem þýðir ekki að við eigum ekki að vinna staðfastlega í því að breyta þessu.

 • Nákvæmlega.

  Þó maður fíli eitt lag þýðir það ekki endilega að mann langi að kaupa geisladiskinn og hafa hann á rípít í öllum græjum heimilisins alla ævi, tilbiðja tónlistarmanninn og allt sem hann hefur nokkurn tíma sent frá sér.

  Það væri bara stjúpid.

 • Flott og rétt skrif,

  Þessi svarthvíta veröld sem er byggð upp á svona umræðum fer að ég held í taugarnar á flestum hugsandi íslendingum.

  Ég tel reyndar að þessi heimskulega umræða sé ekki jafn algeng og hún virðist vera þar sem sanntrúaðir hafa sig einfaldlega meira í frammi en hinn almenni hugsandi borgari og því ætti að vera nokkuð auðvelt að breyta þessu með því að benda á, eins og þú gerir hér, hversu klikkað þetta er og fá fleiri skrif og skoðanir sem snúast um málefni en ekki persónur eða flokka.

  Fjölmiðlar þurfa t.d. að vanda sig meira og hætta að stilla alltaf upp "með" og "móti" fólki úr pólitík og reyna að fá pólitíkusa til að ræða kjarna máls í stað þess að setja á svið morfís keppni.

  Eins er gott að fá fólk sem hefur vit á ákveðnum málefnum til að tjá sig beint í stað þess að kalla alltaf á sömu súru pólitíkusana sem oft hafa mun takmarkaðri þekkingu á þeim málum sem þeir eru að ræða en þeir sem kannski hafa unnið að þeim í langan tíma.

  Þannig fengjum við kannski þær ástæður sem leiddu til ákveðinnar niðurstöðu og gætum vegið þær og metið sjálf í stað þess að fá niðurstöðurnar alltaf matreiddar á borðið, tilbúnar til neyslu, án alls bakgrunns.

  Það er með pólitíkusa eins og marga aðra sem njóta þess að horfa í spegilinn að þeir taka ekki eftir neinum öðrum en sér í speglinum, jafnvel þó að fullt af fólki standi á bak við þá.

  kv, Atli

 • Flottur Teitur. Menn eins og Teit vil ég sjá á Alþingi Íslendinga.
  Rammheiðarlegur.
  Ekki eins og hinir labbakútarnir, montnir og með greindarskort.
  Og ekki eru kellingarnar betri.

  „Teitur for President“

  Haukur Kristinsson

 • En 100 % Samfylkingarfólks er föðurlandshatarar og þú kærir þig kollóttan

 • Þetta er algjörlega málið.
  Erfðagallinn steindrepur umræðuna mörgum sinnum á dag.

  Sjálf hef ég skilgreint sjálfa mig sem pólitískan "kynvilling", einfaldlega af því að ég hef skoðanir á málum, burtséð frá hvaða genategund kýs að eigna sér málefnið.

  Með ósk um að "stökkbreyting" eigi sér nú stað til að útrýma erfðagallanum.

  Kv. Jenný Stefanía

 • Erum við Afríku búar norðursins ? Hörður halldórsson

 • Rétt hjá þér, það er löngu tímabært hérlendis að fara að kenna börnum & unglingum heimspekilega hugsun, svo hægt sé að lyfta umræðunum upp á vitræna plan..!

 • Þetta heggur ansi nærri því að vera kjarni vandans á Íslandi, á svo mörgum sviðum, ekki bara hvað varðar umræðuna og skoðanaknippa-skotgrafirnar.

  Liggur enn dýpra held ég og hefur með inngróna minnimáttarkennd þjóðarsálarinnar, þar sem svart-hvítur hugsanagangur er alltof algengur og í raun afar óheilbrigður. Sprettur af og viðheldur minnimáttarkenndinni.

  Annað hvort ertu með eða á móti.
  Annað hvort erum við langflottust eða ómöguleg og viss um að öðrum finnist ekkert til okkar koma.
  Þurfum sjúklega á utanaðkomandi viðurkenningu að gera, eins og óöruggur unglingur.

  Eins og einhver hér benti á er nefnilega margt líkt með dysfunktional einstaklingi, fjölskyldu og þjóðar!

  Landa

 • Þetta er merkilegt innlegg.
  Í einni færslu óskar þú eftir þroskaðri umræðu og ferð mikinn um hugsanavillur og þess háttar en segir á sama tíma, aðeins ofar: "ég fattaði að 67% þingflokks Sjálfstæðismanna eru eiginlega bófar og liðið sem er til vara, er með enn skuggalegri feril.

  Sjálfstæðisflokkurinn er eins og tóbak að þessu leiti. Það væri bannað ef það færi á markaðinn í dag."
  Tilvitnun líkur.

  Hvernig er hægt, með heilum hug, að óska eftir þroskaðri umræðu en á sama tíma fullyrða annað eins? Ef þér er illa við bófa (líklega ástæða haturs þíns í garð Sjalla) af hverju viltu ekki ræða t.d. þá "bófana" í öðrum flokkum? T.d. Samfylkingunni? Eða er það kannski rökvilla? Hugsanavilla? Er það ekki þroskuð umræða að vera illa við bófa, hvar sem þeir leynast?

  Þetta eru ekkert annað en fordómar hjá þér, svona fullyrðingar um hóp fólks. En kannski líður þér betur á klósettinu þegar þú hlærð.

 • En það eru fleiri spilltir flokkar. Samfylkingin er útúr-spillt en þú nennir ekkert að tala um það. Segir það ekki hversu lélegur þjóðfélagsrýnir þú ert. Það þýðir ekkert að taka þann pól í hæðina að allir séu voða vitlausir og skilji ekkert.

Comments are closed.

Site Footer