ENGUM VAFA UNDIRORPIÐ

Hætt hefur verið við ráðningu Páls Magnússonar í stól forstjórna Bankasýslu ríkisins.  Það kemur mér ekki á óvart.  Þetta mál hefur hangið á framsóknargrænum þræði allt frá því að það komst í fréttirnar.  Forsendur ráðingarinnar voru hæpnar, lög voru glennt út með óþægilegum hætti til þess að falla að Páli Magnússyni.  Horft var framhjá eigendastefnu ríkisins sem varðar fjármálafyrirtæki og gengið var fram hjá hæfari umsækjendum.

Ef aðeins einn þessara þátta væri í ólagi, ætti það að duga til að endurskoða ráðninguna.

Í síðasta bloggi skoðaði ég málsvörn ráðningarinnar og hún heldur ekki vatni.  Efnislega er hún mikið sterkari vitnisburður um hvernig hægt sé að nota yfirlætisfullan kanselístíl til þess að gera ótrúverðuga hluti trúverðuga.

Sé tekin saman í töflu orðabunan sem greinir frá niðurstöðum úr prófum frá Capacent, kemur í ljós að Páll Magnússon var ekkert í fyrsta sæti úr þeim prófum.  -Hann var í öðru sæti!  Þetta hef ég frá áreiðanlegum heimildum.  Rökstuðningnum lýkur á þessum orðum:

Þetta er sérkennileg fullyrðing.  Ráðning Páls Magnússonar er einmitt vafa undirorpin. 6. grein laga um bankasýslu ríkisins er svona. „Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum“.  Það er vafi um hvort Páll uppfylli þessi skilyrði.  Í lögum um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum stendur að miða skuli að því að skapa trúverðugleika og traust á ríkinu sem eiganda þeirra hluta sem Bankasýslan sýslar með.  Ennfremur segir:  Ríkið þarf að vera trúverðugur eigandi fjármálafyrirtækja og hlutverk þess hafið yfir pólitísk afskipti.  Ráðning Páls Magnússonar í embætti Bankasýslu ríkisins setur eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum í annarlegt ljós.

Sú fullyrðing stjórnar Bankasýslu ríkisins að hún telur „engum vafa undirorpið“ að Páll Magnússon uppfylli laga og hæfniskröfur, er í meira lagi furðuleg.  Lyfti maður sér aðeins frá þessum tæknilegu annmörkum á málinu og skoði það í heild sinni er það ósköp einfalt og auðskilið.

Páll Magnússon er alltof tengdur við fólk sem lagði efnahag Íslands í rúst.  En ekki nóg með það. Páll Magnússon vann beinlínis við það að færa Búnaðarbankann í hendurnar á flokksbræðrum sínum í Framsóknarflokknum.  Hann sat á fundum með þessum mönnum og lagði á ráðin um hvernig þessi kapall fléttaðist.  Bara þetta myndi gera Pál óhæfan til að fjalla um öll mál sem tengjast S-hópnum alræmda.  T.d Ólafi Ólafssyni sem nýverið var að fá afskrifaða upphæð sem dygði til að reka allt félagslega kerfi á Íslandi árið 2011.

Jafnvel þótt Páll væri langhæfastur umsækjenda og hefði rúllað upp þessum prófum og brætt stjórnarmenn Bankasýslunnar eins og smjör, væri hann óhæfur vegna tengsla.  Með sömu rökum og stjórn Bankasýlsunnar ræður Pál Magnússon hefði alveg eins verið hægt að ráða Finn Ingólfsson i forstjórastólinn.

Tengsl skipta máli og tíminn skiptir máli.  Það er of stutt síðan Páll vann í embætti Valgerðar Sverrisdóttur við að koma eigum ríkisins í hendurnar á flokksbræðrum þeirra tveggja.  Það er of stutt síðan Páll kom að sölunni á Búnaðarbankanum og Landsbankanum.  Það væri fáránlegt ef að hann ætti AFTUR að fara að selja þá.  Það er ekki trúverðugt en trúverðugleiki er einmitt það sem Ísland þarf sárlega á að halda

-Páll Magnússon er ekki að koma með trúverðugleika inn í Bankasýslu ríksins.

-Það er engum vafa undiropið.

,

Site Footer