Ekki bara slæmar fréttir


Þau ánægjulegu tíðindi berast nú þess efnis að Björn Bjarnason sé að hætta í pólitík. Þessu ber að fagna. Það er óhætt að segja að stórnmál á Íslandi flytjist upp á æðra plan daginn sem Björn Bjarnason hættir í stjórmálum. Það sama gerðist í rauninni þegar Styrmir hætti sem ritstjóri á Mogganum. Við það jókst hróður íslenskrar blaðamennksu. Nú fá stjórmálin uppreisn æru að einhverju leiti.

Embættisfærslur Björns Bjarnasonar hafa margar hverjar valdið miklum deilum og ber það helst að týna til, lögreglu og -hervæðingu framkvæmdavaldsins. Stofnun leyniþjónustu hefur líka verið mikið hjartansmál hjá Birni og fólki er í fersku minni þegar hann valdi sjálfan sig til þess að dæma um réttmæti þess þegar faðir hans Bjarni Benediktsson lét hlera síma hjá allskonar fólki sem sá taldi andstæðinga sína.

Björn er síðasta kaldastríðsnátttröllið í íslenskum stjórnmálum. Sannur kommúnistabani og fullkomið afsprengi spennuþrunginna eftirstríðsáranna. Ég fæ alltaf á tilfinningunna þegar ég les eitthvað eftir Björn Bjarnason að hann hafi aldrei jafnað sig á þessari spennu því skrif hans einkennast af tortryggni og vænissýki. Það er vonandi að Björn fái hvíld frá stjórmálunum sem hann sannarlega á inni. Þjóðin þarf líka að fá hvíld frá Birni Bjarnasyni. Hún er orðin löngu tímabær.

Mér þykir tilefni til þess að geta inn í eyður komandi daga þegar Björn Bjarnason skellir í lás í Dómsmálaráðuneytinu og skilar lyklunum til frænda síns. Hvað ætli hann hugsi? Hvað ætli hann hugsi þegar hann skellir aftur hurðinni á lúxusbílnum og setur lykilinn í svissinn?

Hugsar hann sem svo að hann og vinir sínir hafi skilað góðu verki? Að uppskeran hafi verið í samræmi við sáninguna? Flokkurinn hefur verið við stjórn í 17 ár og getur ekki skotist undan ábyrgðinni á Hruninu. Ætli Björn leiði hugann við það? Ég held ekki.

Ég er ekki sammála Andrési Jónssyni bloggara sem telur að útganga Björns sé með einhverri reisn. Það er ekki mikil reisn yfir uppskeru þessara 17 ára sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórn. -Landið er í rúst.

Ég held að sú kynslóð Sjálfstæðismanna sem stýrt hefur landinu allan þennan tíma liti öðrum augum á lýðræðið og reglur þess en allur almenningur. Ég held að Haarde, Davíð, Björn og allt þetta lið líti á stjórmálin eins og eitthvað félagsmálastarf í MR. Munið þið ekki eftir orðum Halldórs Blöndal (þáverandi forseti Alþingis!) um að stjórnarskráin væri viðmiðunarplagg.

Ég óska Birni Bjarnasyni góðra stunda á ofur-eftirlaununum sínum og vona að hann fái vænissýki sinni betri farveg í svart/hvítri heimsmynd amerískara bíomynda á borði við Die Hard en á vetvangi stjórmálanna.

2 comments On Ekki bara slæmar fréttir

Comments are closed.

Site Footer