EKKERT ER SVO ILLT AÐ EI BOÐI GOTT

Þó að ég sé ósáttur við dóm Hæstaréttar um stjórnlagaþing, er ég sáttari við að búa í samfélagi þar sem dómskerfið getur stoppað heila atkvæðagreiðslu vegna formgalla eða hvað á að kalla þetta.

Það er frábært.

Ég er algerlega ósammála þeim sem hnýta nú í dómrarana og segja þá „Davíðsmenn“ eða álíka.  það eru bara 2 dómarar í öllum Hæstarétti sem flokkast sem slíkir. Jón Steinar sem er spilafélagi Davíðs og Ólafur Börkur sem er frændi hans.

Skipan þessara tveggja var  ruddalegasti verknaður Davíðs Oddsonar meðan hann réð lögum og lofum á Íslandi.

Það að veikja tiltrú almennings á Hæstarétti, með vafasömum mannaráðningum, var stórkostleg áras á þjóðfélagssáttmálann. -Þennan ósýnilega þið vitið.

Auðvitað var þessi dómur áfall fyrir ríkisstjórnina og alla þá sem telja það hið mesta þarfaþing að búa til nýja stjórnarskrá án aðkomu stjórnmálamanna.  Viðbrögðin við þessum dómi á að vera auðmykt, ábyrgð og eihverskonar loforð um betrun en ekki að hnýta í dóminn eða dómarana.

Fegurðin við Hæstarétt er nefnilega að fyrir honum eru mál útkljáð og það er algerlega lífsnauðsynlegt fyrir þjóð að hafa slíkan vetvang. Um þetta á að ríkja sátt sem er svo alltumlykjandi að óþarfi er að rita hana í bókfell.  Svona sáttmáli er hluti af því að hópur fólks geti kallað sig þjóð.

– – – En ekkert er svo illt að ei boði gott – – –

Nú skapst frábært tækifæri að kjósa aftur og hafa undirbúninginn góðan.  það þarf nefnilega að gera þetta öðruvísi í þetta skiptið.


Í fyrsta lagi 

þarf kosningin að vera rafræn.  Það er löngu tímabært að nota internetið við svona kosningar.  90% landsmanna skila nú þegar skattinum sínum í gegnum netið og því skyldi ekki vera hægt að kjósa með sama hætti?

Í öðru lagi

þarf Ríkisútvarpið að rífa sig upp á rassgatinu og kynna þetta stærsta mál lýðveldissögunnar með einhverri reisn en ekki sleifarlagi eins og fyrir misheppnuðu kosninguna.

Í þriðja lagi

þarf að fjölga meðmælendum fyrir þá sem vilja bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins.  Það voru alltof margir í framboði síðast og ruglandi einkenndi sum framboðin.

 

-Svo þarf þetta auðvitað að vera SKOTHELT.

Nú er semsagt lag.

Nú skulum við gera þetta og gera þetta vel.

Site Footer