EGILL Á KRÍT

Egill Helgason er staddur á Krít í sumarfríi að mér skilst. Ég var þar í sömu erindagjörðum árið 2002. Það var ógleymanleg ferð. Krítverjar eru voða líkir Íslendingum að mínu mati. Þessar eyjaþjóðir passa einhvernvegin saman. Viðmóti Krítarbúa var afar áþekkt því sem maður fær á Laugaveginum eða á Glerártorgi. Lausir við fum og fimbulfab sem einkennir svo oft suðrænar þjóðir. Reyndar sagði kall mér sem átti bílaleigu að íbúar Aþenu væru kolvitlausir. Keyrðu eins og vitleysingar og gjarnan fram af hinum hrikalegu vegum sem einkenna vegakerfið á Krít. Grikkir fara sumsé í frí til Krítar.

Það sem heillaði mig mest varðandi Krít er saga Eyjarinnar. Saga Krítar einkennist af stöðugu viðnámi gegn yfirgangi Tyrkja. Stundum náðist árangur í baráttunni en oftar var þjóðin undirokuð. Eftir mörghundruð ára hernám Tyrkja hillti loks undir betri tið við falla Ottómanska heimsveldisins. Krítverjar voru frjálsir. -Loksins. Árið 1941 réðust hersveitir nasista á Krít í stærstu fallhlífaaðgerð sögunnar. Himinninn fylltist af þýskum sérsveitarmönnum sem þöktu eyjuna eftir kaldhamraðri nákvæmni. Krítverjar voru ekki hrifnir af þessari innrás. Sýndu innrásarhernum öflugt viðnám frá fyrstu stundu. Bændur réðust á þýsku sérsveitarmennina með grjótkasti.. Kritverjar eru stoltir af þessari sögu og ég fór á safn í Chania þar sem sýnd eru vopnin sem Krítverjar notuðu gegn innrásarliði nasista. Grjóthnullingar, kvíslir, axir osfr. -Hárin á mér risu við tilhugsunina um þetta hugrekki. Ég vona að Egill og fjölskylda hans njóti dvalarinnar á Krít eins vel og ég gerði.

Site Footer