ÉG VISSI EKKI AÐ BYSSAN VAR HLAÐIN…

Hann var ekki traustvekjandi Sjálfstæðisþingmaðurinn Ásbjörn Óttarsson í Kastljósinu í gær. Iggldi sig og skældi við spurningar Helga Seljan. Ég held að þetta viðtal marki ákveðin þáttaskil. Ég hef á tilfinningunni að hér eftir muni þingmenn sem eru grillaðir svona eftirminnilega, ekki eiga afturkvæmt í þungavigtarumræður, hverjar sem þær kunna að vera.

Þessi Ásbjörn beinlínis viðurkenndi lögbrot en sagði svo setningu sem ég held að komist í sögubækurnar af ýmsum ástæðum.

„Ég vissi ekki að ég var að brjóta lögin“.

Maður spyr sig: Er þetta virkilega málsvörn? Ég meina: Er þetta boðlegt af þingmanni að halda þessu fram? Ég skil alveg að náungar eins og Lalli Djóns og þessir kallar eru snillingar í allskonar svona afsökunum, -en þingmaður?

„Ég vissi ekki að hámarkshraðinn var 70 km“. Eða „Ég vissi ekki að ég væri að keyra flóttabílinn“. Eða „‘Ég stóð í þeirri trú að þetta væri fullkomnlega löglegt“. Eða. „‘Ég vissi ekki að þessir peningar voru inn á reikningum mínum“…

Kannisti við þetta? Eru þetta ekki einmitt málsvörnin sem að þrjótarnir sem beindu byssu að gagnauga þjóðarinnar, og hleyptu af -halda í frammi?

„Ég vissi ekki að byssan var hlaðin“.

Enn spyr ég: Er þetta boðlegt?

Það var nú meira sem Ásbjörn „ég-viss-ekki“ hélt í frammi. Hann sagði með galopnum augum, ætla að mæta í Kastjósið með lygamæli og láta mæla hvort hann væri að ljúga í beinni útsendingu.

Enn spyr ég: Er þetta boðlegt?

Ég fullyrði að ef þingmaður á hinum Norðurlöndunum héldi svona fram í sjónvarpinu, yrði hann átómatíslkt settur ti hiðar. Ekki af þinginu (það kæmi ekki til þess) heldur af eigin flokki. Þarna er Ásbjörn Óttarsson beinlínis að gefa í skyn að hann sé viðriðin glæp. Og það er ólíðandi að mati kollega hans á Norðurlöndunum. (en hvað vita þeir, þessir gönguskíðandi lúðar…)

Nú skila flestir Íslendingar ekki neitt hvað ég er að fara. Ég skal útskýra málið betur.

það er álitið í löndunum í kringum okkur að meiri hagsmunir séu fyrir því að þingmenn séu óflekkaðir af glæpum og lögbrotum, en að þeir hafi hangandi yfir sér einhvern grun eða óuppgerð mál sem gætu kastað rýð á mannorð þingsins.

Enn skilja sjálfsagt fæstir þetta en ég skal reyna annað áhlaup.

Það er álitið í þingum Norðurlandanna að æra þingsins VERÐI að vera óflekkuð. Ef minnsti grunur sé um hið gagnstæða, er málið gert upp. það rannsakað og afgreitt. Þetta snýst ekki um „sekt“ eða „sakleysi“ heldur um annað. það er álitið að þingmaður sem sífellt er með allskonar kærur eða skandala á hælunum, jafnvel þótt hann sé saklaus af öllu saman, sé óheppilegur því æra þingsins skipti meira máli en að „saklaus“ þingmaður þurfi að víkja.

Ég get ekki gert þetta skýrara og rennur í grun að fæstir fatti hvað ég á við. Ég held að flestir haldi að æra þingsins snúist um að „ekki hafi verið framin nein lögbrot“. Flestir rugla nefnilega saman „sekt“ eða „sakleysi“ og æruverðugleika. Takið eftir að þegar talað er um að útlenskir þingmenn séu alltaf að segja af sér, er það EKKI vegna þess að þeir eru „sekir“, heldur vegna þess að ávirðingin um sektina, varpar rýð á þingið.

Þetta hafa Íslendingar aldrei fattað.

Ásbjörn Óttarsson ætlar s.s að mæta með lygamæli í Kastjósið. Já, hann gæti kannski í leiðinni kennt ungu fólki að búa til „lón“ eða vefja jónu á röngunni. -Það er álíka. Maðurinn er greinilega hinumegin við stakketið.

Já svo beit hann hausinn af skömminni með því að neita að gefa upp nafn endurskoðandans síns. Sá væri nefnilega fallinn frá. Furðulegt þetta með endurskoðendur fjárglæframanna. Þeir virðast detta niður dauðir ellegar fá heilablóðföll í lange baner..

Það VERÐUR að fá nafn þessa meinta endurskoðanda strax því það eru hagsmunir allra Íslendinga að gera þetta mál upp og það vel. Reyndar treysti ég ekki Sjálfstæðismönnum til þess að setja sinnep á pulsuna mína og gæti vel trúað að Ásbjörn þessi væri barasta að skrökva þessu með endurskoðandann. -Þetta er eitt símtal fyrir sniðugan blaðamann.

Svo væri gaman að vita eitt: Ásbjörn þessi viðurkennir s.s lögbrot og endurgreiðir eitthvað sem hann mátti ekki taka plús vexti.

-HEY !!

Má þetta? Er hann „off the hook“? Má ég stela og skila því síðan aftur? Er þetta eins og í gamladaga á leikskólanum? Má maður drepast og taka libni-pillu? Á hvaða andskotans siðferðisstigi er þessi Ásbjörn frá Hellissandi? Hvernig væri að ríkissaksóknari kærði nú þennan skálk og léti einhverja hund-ómerkilega mótmælendur í friði? (kæra einhvern slána fyrir að skyrpa á dyravörð en sleppa þeim sem settu rændu tugum miljarða! -nei þetta er ekki skets úr Montí Pæton) Getur einhver lögfræðimenntaður svarað mér?

Er hægt að kæra þennan Ásbjörn Óttarsson? Því ef enginn ætlar að gera það, þá ætla ég að gera það.

Já og ef þið vissuð það ekki. Ásbjörn þessi Óttarsson er í þingmannanefnd sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

25 comments On ÉG VISSI EKKI AÐ BYSSAN VAR HLAÐIN…

 • Er eðlilegt að játa á sig fjárdrátt og sleppa með það?

 • Það er hægt að nálgast árskýrslu félagsins. Hef ekki trú á að löggiltur endurskoðandi hefði skrifað upp á þetta. Kannski er félagið það lítið að s.k. félagskjörin endurskoðandi dugar til að skrifa upp á reikningana. Sá sem færir bókhaldið ber mestu ábyrgðina í litlum félögum ef stolið er frá eigendum ( stjórninni ? ). Annars er það stjórnin ásamt þeim sem fer með prókúruna.Sem mun vera Ásbjörn og fjölskylda.
  Það sem Ásbjörn sagði hefur verið sígild útgönguleið. Öðrum að kenna, hann er dáinn, hann er hættur hjá félaginu en ég tek ábyrgðina… Sammála þér, er ekki viss um að það dugi lengur.

 • Fullkomlega eðlilegt ef þú ert í FLokkunum sem á stjórnsýsluna og dómstólana. Hví skildu þeir svara fyrir eitthvað sem kemur skrílnum ekkert við.

  Skrifa undir pappíra frá Kína sem þeir skildu ekkert í og makar þeirra eru með milljarð í kúlulán sem koma þeim ekkert við. Þetta eru formaður og varaformaður FLokksins sem 30% kjósenda segjast styðja í skoðanakönnunum. Og það sem meira er, þetta er bara það sem við vitum núna. Það ER meira á leiðnni.

 • Heyr heyr!
  Það gerist ekki miklu einfaldara en þetta. Maðurinn braut lög, skiptir engu þó hann hafi greitt til baka AF ÞVÍ ÞAÐ KOMST UPP UM HANN!

  Það á að sækja hann til saka og krefjast afsagnar hans.

  Einfalt!
  Landa

 • Ég held að ríkisskattstjóri verði að rannsaka þessi "mistök" sem tilraun til fjárdráttar. Og hvernig er farið með svona bakfærslur í bókhaldi 2 árum eftir að svikin eru framkvæmd?
  Til þess eru endurskoðendur að ábyrgjast að eftir lögunum sé farið og Ásbjörn getur ekki veitt öðrum sakaupplausn nema hann sé að ljúga þessu og engin endurskoðun hafi farið fram. Þetta þurfa náttúrulega skattayfirvöld að rannsaka líka.
  Og hvernig á að fara með fjármagnstekjuskattinn sem væntanlega var greiddur, verður hann endurgreiddur með vöxtum? Þetta mál er með þeim verri sem maður hefur heyrt um og ekki dugar Ásbirni að segjast vera stikk eins og ónefnd persóna í ónefndu skaupi 🙂

 • Mér dettur í hug bóndinn sem var að keyra í fyrsta sinni í Reykjavík. Fékk vin sinn til að vísa sér leið, sá fór yfir gatnamót á grænu en bóndinn kom svo aðeins á eftir og þá var komið rautt. Lögreglumaður stöðvaði hann og spurði með þjósti, "sástu ekki rauða ljósið maður" bóndinn horfði spyrjandi á lögguna og sagði, "nei, en þú" Lögreglumaðurinn taldi víst að bóndinn væri að gera at í sér, en það var víst ekki, öfugt við Ásbjörn.

  En svona án gríns
  Við erum komin svo út á bjargbrúnina í heiðarlegheitunum að það er skelfilegt.
  Hvað ætli margir verði eftir í þingsalnum þegar svarta skýrslan hefur verið lesin.

 • Endurskoðendur eiga að gera stikkprufur úr bókhaldi, bera t.d. saman hvort greiðsla sem er færð sem arðgreiðsla sé skv. heimild frá stjórn og hafi farið á rétta aðila og að kvittað sé fyrir móttöku.
  Að bensínnótan sé vegna kaupa á olíu á bátinn og stemmi við útgreiðsluna.
  Endurskoðandi á að passa upp á að reikningar séu færðir skv. bókhaldslögum. Honum ber engin skylda til að sjá til þess t.d. að skattar séu greiddir eða viðskiptamönnum yfirhöfuð.Sú ábyrgð er á eigendum og prókúruhafa.
  Brot Ásbjörns er brot á hlutafélagalögum þ.e. hann rak hlutafélagið ekki í samræmi við lög. Endurskoðanda eða bókara verður aldrei kennt um það.
  Ásbjörn er hér að dreifa athyglinni frá málinu, finna sér útgönguleið.

 • Rosalega er þetta flott færsla! Hún er svo sterk að eftir lesturinn líður mér eins og ég sé hafi sigrað fjall og standi á toppi þess. Frábært hvernig þú hamrar á því hvernig búið er að fara með æru þingsins til að vernda skálka af því sauðahúsi sem þingmaðurinn frá Hellissandi kemur af!

 • Rakel!
  Óttar pabbi hans Ásbjörns var einnmitt í sjónvarpi núna í haust fyrir sauði sem hann stríðaldi á brauði. Það fundust ekki sauðir í haust sem höfðu meiri fallþúnga en þeir. Skildi Ásbjörn vera af því sauðahúsi?

 • Ég hef aldrei skilið það hvernig hægt er að dubba upp alla þessa hrosshausa í jakkaföt, húkka á þá bindi og kalla þingmenn.

  Hvað þurfum við marga þjófa (með uppreista æru eða ekki) á þing til að átta okkur á því að það er eitthvað stórkostlegt að uppeldi ráðamanna á íslandi.

  Siðblindir og hrokafullir stjórnmálamenn hafa vaðið á skítugum skónum yfir flest þau góðu gildi sem byggst hafa upp á löngum tíma í þjóðfélaginu.
  Þessir siðblindu og hrokafullu stjórnmálamenn hafa svo komið sambærilega siðblindum og hrokafullum delum óbeint til valda með þvi að troða viðskiptasiðferðið í drullusvaðið.

  Út með þá menn sem ekki hafa enn skilið að nú er nóg komið og til fjandans með þá flokka sem ætla að skjóta skjólhúsi yfir þá.

  Kv, Atli

 • Árni Johnsen skilaði líka dúknum góða…

 • Og Bjarni Vafningur Ben og Thorgerdur Kúlulánadrottning o.s.f. er thetta stjórmálaflokkur eda einfaldlega GANGSTER-SAMTÖK álíka og Vítisenglar madur spyr bara? Eru engar lámarks kröfur á fólk sem er á Althingi?
  Afsadid meda ég aeli…..

 • þetta væri svo sannarlega ólíðandi hér á Norðurlöndunum, en heima þykir þetta bara fínt, ,,þetta er bara svona'' er alltaf viðkvæðið.

 • Það getur vel verið að hann sé að segja satt með "mistökin"…… það skiptir bara akkúrat engu andskotans máli.

  Maðurinn braut lög og í fullvissu sinni um að hann væri stikkfrí í boði Bjarna Ben játaði hann lögbrotið í Kastljósi og vonaðist til að koma glansandi út úr skítakamrinum

  Ef hann hunskast ekki heim til sín þá er ég tótallí reiðubúinn til að drösla honum þangað

 • "Má þetta? Er hann "off the hook"? Má ég stela og skila því síðan aftur?"

  Nei Teitur. Ekki nema það komist upp að þú hafir stolið.

 • Árni Johnsen skilaði dúknum góða…

  OG Steingrímur skilaði okkur þessari glæsilegu niðurstöðu.

 • Hvernig fór með Einar Kr. og veiðikortið hans? Ekki lenti hann nú í vandræðum blessaður.

 • Sæll Teitur.
  Vísa til athugasemda minna við "Ísland er stjórnlaust".
  Er það nema von að maður gefist upp og hætti að æsa sig yfir ruglinu!?
  Kveðja frá Køben
  IB

 • Svona lið kýs fólkiðþ

  Maður þessi hefur augljóslega ekkert að gera á þing. Til þess er hann alltof vitlaus.

  En nei – þetta kýs fólk.

  Svo á að vera einhver töfralausn að kjósa um allt ! Dreg stórkostlega í efa að það verði töfralausn að íslendingar kjósi um flesta hluti.

 • Eftir þetta kastljós viðtal og óbragðið sem ég fékk í munninn af að hlusta á réttlætingu hans ("eina sem varð fyrir skaða var fyrirtækið mitt svo það skipti ekki máli") saknaði ég virkilega að spyrillinn spyrði um skattamálin í kringum þetta. 20 miljónir í arðgreiðslu falla undir fjármagnstekjur en borgaði hann þá sér ekki mun minni laun á móti? Jafnvel engin? Þau bera nú svo mikin skatt og vilja svona pésar ekki komast hjá því að borga til samneyslunar í lengstu lög?
  Anna

 • Mjög góð nálgun á málið Teitur. Eðlilegt siðferði snúst ekki um að vera sannanlega sekur (þ.e.a.s. að kmast ekki framhjá kerfinu). Ég held að almennur skilningur á góðu siðferði sé einmitt að haga sér bara almennilega og heiðarlega án þess að fyrir liggi að annars kæmist upp um þig.

  @Hólmfríður Bjarnadóttir: Þú segir: "En svona án gríns
  Við erum komin svo út á bjargbrúnina í heiðarlegheitunum að það er skelfilegt.
  Hvað ætli margir verði eftir í þingsalnum þegar svarta skýrslan hefur verið lesin."
  Ég er ekki viss um að ég skilji þig rétt. Ber ekki að fagna því ef yrði svo almennileg tiltekt þarna að við myndum losna við þetta vafasama siðferði út af Alþingi? Telurðu að við þurfum að óttast það að missa þetta góða "siðlága" fólk út?

 • Það er minnsta mál að hafa uppi á endurskoðandanum í gegnum gagnagrunn Jón Jósefs á:
  http://www.rel-8.com.

  Ásbjörn er einn þeirra fjármagnseigenda sem sitja inni á þingi og gerast féhirðar.Þorgerður Katrín, Árni Johnsen og Birna Íslandsbankastýra eru skólabókardæmi um hversu langt fólk kemst með að vita ekki að þau hafi átt peninga á reikningum. Tapið verður fært yfir á almenning. Tapið er þjóðnýtt og gróðinn er einkavæddur. Þess vegna verður heimilum landsmanna aldrei bjargað. Skjaldborgin var slegin utan um Alþingi íslendinga.

 • Því er haldið fram að endurskoðendur skoði ekki hluti eins og arðgreiðslur og því þessi færsla 2006 farið fram hjá honum (endurskoðandanum). Það er mér til efs að svo sé, þó ég geti ekki fullyrt um það. Látum það liggja. En átti endurskoðandinn ekki að rekast á þetta árinu seinna, gera athugasemd og þetta leiðrétt þá? Annars tel ég útvegsþingmanninn vita þetta alltsaman mjög vel og hann á sér engar málsbætur. Að mínu viti braut hann lög fullu viti.
  Semper

 • Vanþekking á lögum er ekki og hefur aldrei verið vörn í sakamáli.

 • Hengjum hann, drepum hann.
  Segja siðblindir vintri menn,
  en,,,,,,,, ef þetta væri vinstri maður? ….. Hvað þá.
  Það yrði ekki hróflað við honum.

  Kominn undir skjöld stjórnarinnar
  og þíns (ekki myndir þú blogga um þetta annars).

  P.s.(N.b.) ég tel mig vera miðjumann, aðeins á hægri væng.
  en ég get samt séð tvær hliðar og á mjög auðvelt með það,
  vinur,
  annað en þú, tel ég…..

Comments are closed.

Site Footer