VARIST SKRUMIÐ

Ég hef að undanförnu fjallað um forsetakosningarnar.  Ég hef ýmislegt að athuga við hugmyndir Ólafs Ragnars um forsetaembættið, gildi þess og tilgang.  Ég er sannfærður um að einhversstaðar í þessari 16 ára vegferð Ólafs sem forseta hefur eitthvað skolast til og persónulegur metnaður hans „overlappað“ við inntak embættisins.

Mér líst óskaplega illa á þetta tvöfalda kerfi sem hann hefur að einhverju leiti komið á, og vill styrkja í sessi.  Það er fullkomin oftúlkun á 26. grein stjórnarskrárinnar.  Þessi túlkun hans – hvort sem hún er rétt eða röng – er heldur ekki hans prívatmál að koma í framkvæmd.  Við erum nefnilega að tala um grundvallarbreytingu á þrískiptingu ríkisvaldsins ( Checks and Balances).

Mér líst ekkert á það og alveg burt séð frá því hvað við Íslendingar erum spes.  Þá eru fordæmi fyrir svona kerfi ekki að finna í löndum sem við berum okkur saman við.  Áþekkt kerfi er við lýði í Hvítarússlandi og ég er viss um að Hvítrússar líti trauðla á sitt kerfi til eftirbreytni.

Annað sem mér líst ekkert á, er skrumsprengjusvæðið sem þessi kosningabarátta óhjákvæmilega fer yfir.

Forsetakosningar eru fullkomin vettvangur fyrir skrum og þjóðrembu. Það skiptir ótrúlega miklu máli að halda úti þjóðrembu, yfirburðakenningum á borð við þær sem haldið var á lofti þegar ágæti íslenskra bankamanna voru áréttuð. það var nefilega sá skilningur í gangi að yfirburðir íslenskra bankamanna væru genetískir.

-Hugsið ykkur !

Skrum er ekkert nýtt fyrirbæri og alls ekkert sér-íslenskt.  Eitt frægasta dæmi um lýðskrum er komið frá Nixon og er að finna í frægri ræðu sem kallast „The Checkers speech“. Ræðuna hélt Nixon vegna ásakanna um að hafa þegið gjafir að upphæð $18.000 (núvirði um $140.000.) Þar varði Nixon sig gagnvart ásökunum um spillingu líkt  og notaði til þess ræðutrikk sem hefur síðan orðið alræmt.

Nixon sagðist að vísu hafa þegir eina gjöf á ferlinum. Maður í Texas hafi lesið um að dætrum Nixons langaði í hund og sendi fjölskyldunni svartan og hvitan Cocker Spaniel hund. Nixon sagðist ekki ætla að skila þessari gjöf hvað sem andstæðingar hans héldu fram, enda elskuðu dætur hans hundinn.  Þetta makalausa skrum-trikk er að finna í vídeóinu hér fyrir neðan og byrjar 00:32 og endar 01:30

Þegar Nixon hélt þessa ræðu var það í árdaga sjónvarpsins og eins kröftugur miðill og það er, virkaði skrumið.  Bandaríkjamenn keyptu þetta og í stað þess að krefjast svara við spurningum um mútur, brosti þjóðin yfir lítilli sætri sögu af hundinum Checkers og dætrum Nixons og hristi hausinn yfir frekju eftirlitsstofnanna sem voga sér að fetta fingur út í hvolp sem leikur sér með tveimur prinsessum með slaufur í hárinu.

Svona trikk eru vonandi hætt að virka.

Brjóstvörn samfélagsins gegn skrumi og spuna, eru blaða og fréttafólk.  Spyrlar í sjónvarpi verða að vera á tánum yfir því hvort það sé verið að spila með þau eins og  harmóníkku á góðum degi í húsnæði þjóðdansafélagsins.

Ef þetta tekst, gæti farið svo að komandi forsetakosningar yrðu um eitthvað.

.

Site Footer