„ÉG GERÐI ÖLL MÁL TORGRYGGILEG“

Styrkur Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið samstaðan.  Ég man bara eftir einum klofningi úr Sjálfstæðisflokknum þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður.  Sjálfstæðismenn hafa skilið mátt samstöðunnar og hafa leyst deilur sín í milli, eða jafnvel búið við þær um langa hríð, án þess að kvarnist upp úr samstöðunni.  Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði meir að segja ekki þegar Gunnar Thoroddsen, sneri á Engeyinga og gerðist forsætisráðherra.

Þetta hafa vinstri menn aldrei skilið almennilega og þetta er það sem vinstri menn óttast við Sjálfstæðisflokkinn.  Samstaðan hefur nefnilega skilað þessum flokki öllu því sem hann hefur  viljað og 18 ára samfeld stjórnarseta er ekki tilviljun sé litið til hversu skipulagður Sjálfstæðisflokkurinn er.  Þess utan hefur  Sjálfstæðisflokkurinn alltaf getað treyst á sundrungu vinstri manna og óhætt er að segja að villta vinstrið sé besti og ábyggilegasti bandamaður hægripólitíkur á Íslandi.

Það sagði mér spéfugl einn að lag Rihönnu um Risarúmið í Kalíforníu fjallaði einmitt um þetta innilega samband villta vinstrisins og Sjálfstæðisflokksins.  Hérna er textinn skrifaður á pappír og hérna er myndband við lagið.

Uppskera þessarar samstöðu var í raun skelfileg fyrir Íslenskt samfélag.  Hroki Sjálfstæðisflokksins var orðin að einkenni hans þrátt fyrir að vinstrið hafi valið honum önnur orð á borð við “valdníðsla” og svoleiðis.  Hrokinn var slíkur að ekki þótti tiltökumál að spilla hæstarétti með ónýtum mannaráðningum og grafa þannig undan réttarkerfinu, nokkuð sem átti eftir að koma sér vel þótt síðar yrði.  Öll stjórnsýslan var undirlögð undir pólitíska spillingu og samkvæmt nýlegri könnum var ráðið í helming allra opinberra starfa samkvæmt ógeðslegu spillingarkerfi.  Helmingur allra starfa hjá hinu opinbera. –Helmingur.

Auðmýktina, andstöðu hrokans var hvergi að finna.

Ég hef fylgst með stjórnmálum í bráðum 25 ár og man sitt hvað þegar kemur að hæðum og lægðum í stjórnmálum á Íslandi.  En ég man ekki eftir harðari andstöðu við neina stjórn eins og þá stjórn sem tók við brunarústunum eftir 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.  Mér er til efs að þótt lengra sé seilst aftur í söguna að dæmi séu um trylltari stjórnarandstöðu en þá sem nú er starfandi.  Það er alveg klárt að stefnan er skýr hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.  Stefnan er að hrekja vinstri stjórnina frá völdum.  Hvað sem það kostar.  Formaður Framsóknarflokksins var ekkert að fara í grafgötur með þetta markmið sitt í ræðu í hálftómu Háskólabíói í setningarræðu fyrir 31. flokksþings Framsóknarflokksins.  Hann sagði beint úr að Framsóknarflokkurinn myndi fella ríkisstjórnina á kjörtímabilinu.  Núna er erfiðasti hjallinn að baki og uppbyggingin blasir við.  Allar hagtölur eru samhljóða um að botninum hafi verið náð og leiðin er upp á við.  Skítverkunum er lokið. Þau lentu á Samfylkingunni og starfhæfum hluta VG.

Og núna er tækifærið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Allt er notað gegn stjórninni.  Árangur hennar er hæddur og gert lítið úr honum, vandamál eru blásin upp.  Jafnvel þau sem klárlega eru rekjanleg í beinan legg til Flokksins.  Allt er notað.  -Allt.  Ekkert mál er svo aumt að það er ekki öskrað um það í sölum alþingis og allir spottarnir eru togaðir til þess að láta blaðamenn gjamma eins og gauka í klukku.  Útlit forsætisráðherra er gert að aðalatriði í sumum óþverraskrifunum sem og þeirri staðreynd að forsætisráðherra er ekki úr MR.  -Ekki Heimdellingur,     -Ekki úr einhverri valdaætt.  -Ekki lögfræðingur úr HÍ, heldur fyrrverandi flugfreyja og starfsmaður í Kassagerðinni.

þetta er skelfilegt ástand og alveg kristaltært að Flokkurinn er byrjaður að marsera í takt.  Samstaðan er komin sem og hefðbundin klofningur á vinstrivægnum.  Það er svolítið skrýtið að segja það svona í bloggi, en mér var flökurt þegar ég sá ánægjusvipinn á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hlakka yfir örlögum ríkisstjórnarinnar þegar vantraustsumræðan var á Alþingi.  Þau glottu eins og pakkasaddir kettir og gátu vart leynt hamingju sinni yfir svikráðum Ásmundar Einars Daðasonar.

Það er unnið samkvæmt fyrirfram ákveðnu kerfi og það er búið að ákveða daginn sem að ríkisstjórnin fellur.

Árið 2000 kom út bók eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur sem hét “Í hlutverki leiðtogans”.  Í bókinni er rætt við allskonar “leiðtoga” en svona pælingar voru í deiglunni um aldamótin síðustu.  Rætt er við Kára Stefánsson sem mun vera mikill leiðtogi, Hörð Sigurgestsson sem var leiðtogi í Kolkrabbanum.  Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var borgarstjóri á þessum tíma, Vigdísi Finnbogadóttur og síðast en ekki síst Davíð Oddson.

Í viðtalinu við leiðtogann Davíð Oddson kemur barasta fram uppdrátturinn af stjórnstíl og hugsunarhætti Davíðs Oddsonar og þarna er að finna hluta af árangursríkri valdastefnu Sjálfstæðisflokksins.  Davíð segir:


hérna er efnisgreinin í samhengi

Þetta er sá brunnur sem Sjálfstæðisflokkurinn leitar til og sækir sér allt í senn, næringu og innblástur.  Það er ráðist á allt og ég meina allt.  Árangur ríkisstjórnarinnar þessi tvö ár er dregin í efa á öllum sviðum allt frá tölum um atvinnuleysi niður í niðurskurð til skólabókasafna.  Niðurrifskórinn (sem kom landinu á hausinn sælla minninga) galaði svo  fagurlega með útpældri og innbyggðir spennu óperunnar að í kontrapunkti hins hundraðradda kór, stökk sjálfur Björn Bjarnason upp, baðaður kastljósinu, hangandi í vírum fyrir ofan sviðið og söng í óvæntri barítónrödd, að “aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru verri en hrunið”.

-Björn Bjarnason sagði þetta.  -Björn Bjarnason af öllum mönnum!

Það sem mér þykir verst í þessu öllu saman er ekki endilega gagnrýnin á aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessum erfiðum tímum, heldur þá augljósu staðreynd að Sjálfstæðisflokknum, er augljóslega, algerlega og innilega skít-sama um Ísland, framtíð þess og hagsæld

Þau hugsa bara um að koma sér fyrir í stólunum, og að „jump-starta“ kerfinu sem FLokkurinn hefur byggt upp síðustu áratugina.  -Þið vitið.  Mannaráðningarósómanum, auðlindamálunum, kvótakerfinu, spillingu hæstaréttar og annarra dómsstiga.  Já og kerfisbundinni stækkun “báknsins”, því auðvitað þarf að skapa dúsur fyrir duglegt fólk.  Og meðan ég man. Opna allar gáttir fyrir mútum hverskonar eins og frægt dæmi frá Landsbankanum og FL Group sannar.  Það mál endaði aldrei fyrir dómi einhverra hluta vegna.  Nokkuð sem sætir undrum.  Höfum einnig í huga að allir fjármálagerningar Sjálfstæðisflokksins eru óuppgerðir og hafa einfaldlega verið sópað undir teppi.  Sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins er vafinn inn í svo ljót mál að í öllum löndum öðum en Íslandi, væri ferill hans sem stjórnmálamanns á enda runninn.  Styrkjamál Guðlaugs Þórs eru óuppgerð. Sömuleiðis styrkjamál Sigurðar Kára Kristjánssonar.  Já og Þorgerður Katrín er ennþá að gjamma um „frelsið“.  Tryggvi Þór Herbertsson, hrunkvöðull og skaðræðismaður sömuleiðis.

Það er ráðist á allt.  Meir að segja hörmung eins tölur um atvinnuleysi er togaðar í sundur, skældar og viðsnúið til að villa fyrir fólki.  Skelfilegt er til þess að vita að margir VG liðar taka virkan þátt í þessum hringdansi ömurðarinnar.  Því þetta er blekking.  það er ljótt að tala um svona mál af léttúð eða í annarlegum tilgangi. Hefur t.d komið fram að þrátt fyrir allt, eru atvinnuleysistölur á Íslandi eru tiltölulega lágar?  Hefur einhverstaðar komið fram að 0% atvinnuleysi er afar óeðlilegt ástand?  Hefur einhver talað um að atvinnuleysi á bilinu 4-5% er “eðlilegt” ef svo má að orði komast?  Þetta er reyndar ekki nýtt af nálinni því ég man eftir mannkynsfrelsara frá ysta vinstrinu öskra með kreppta hnefana um að “allt atvinnuleysi væri óásættanlegt!”.

Upplýsingar um bætta stöðu ríkissjóðs, lækkun verðbólgu, sterkara gengi og lofsömum orðum færustu hagfræðinga eru togaðar í sundur, afskræmdar og öskraðar út á blaðsíðum Morgunblaðsins.  Eins og flestir vita þá stýrir þar penna hrunkvöðull númer eitt og er sannur herfræðinni sem afhjúpaðist í bók Ásdísar Höllu.  Mér er sagt að Davíð Oddson þurfi að klípa sig á hverjum morgni yfir því að hafa ekki aðeins sloppið frá hruninu sem hann varð valdur að, heldur einnig því að hann hefur heilan fjölmiðil til þess að þyrla upp ryki til að gera uppgjörið erfiðara.

Takið eftir að enn er ekki komið að stóra málinu í efnahagshruninu.

Tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans, sem er langstærsta áfall efnahagskerfisins.  Það mál er allt eftir og eins furðulega eins og það hljómar, þá dugar fyrir Davíð Oddson að öskra nógu mikið um allskonar mál til þess að halda seðlabankaárunum sínum fyrir utan deigluna.  Þetta er svipað og með bókhaldssvikara.  Þeir verða alltaf að vera við bækurnar til þess að ekki komist upp um þá.  Sama á við um Davíð Oddson.  Hann verður alltaf að öskra í allar áttir svo að ekki myndist þögn sem gefur tóm til þess að átta sig á raunverulegri stöðu hrunsins, -og ekki síst:

-Ábyrgð hans sjálfs.

Ágætis dæmi um herfræðitaktík Davíðs Oddsonar sem minnihlutinn hefur tekið upp (að ráðast á öll mál) var að finna í frumvarpi um upplýsingalög.   Þá var spilað á fjölmiðla eins og harmónikku.  Enginn blaðamaður hafði lesið lögin eða athugasemdir við þau.  Ekki nokkur, og sviðið var gefið eftir handa lögfræðingnum Sigurði Kára Kristjánssyni sem er líka alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og helsti aðdáandi Davíðs Oddsonar.  Það má segja Sigurði til hróss að hann nýtti sviðið vel.  Sá plöggaði sig í viðtal og fór með ósannindavaðal.  Snéri út úr málinu, afskræmdi og lék hlutverk hins áhyggjufulla lögfræðings bara nokkuð vel.  Hann sagði beint úr að með nýju upplýsingalögunum væri opnað fyrir að stinga allskonar skjölum um Icesave-málið ofan í dýblissu og geyma í 110 ár.  Ekkert er fjarri veruleikanum og þetta veit Sigurður Kári, nema hann hafi ekki lesið frumvarpið sem hann var að gagnrýna (sem verður að teljast líklegt)

Hér má sjá Sigurð Kára fara vísvitandi með ósannindi og hér má heyra hann gera það.

Aðalatriðið sem ég er að benda á er að Sigurður Kári, lögfræðingur og alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn er vísvitandi að snúa upp á staðreyndir málsins.  Hann er að fara eftir herfræði Davíðs Oddsonar um að ráðast á öll mál, jafnvel þótt að hann sé í hjarta sínu samþykkur þeim eins og Davíð Oddson sagði orðrétt.

Svo undra sumir síg á því að virðing fyrir Alþingismönnum fari þverrandi.

En það eru ekki bara Alþingismenn Sjálfstæðisflokksins sem vaða um súðir blóðbragð í kjaftinum.  Það eru allir virkjaðir í þessu.  Allar stofnanir flokksins eru virkjaðar  Samtök Atvinnulífsins, LÍU og Viðskiptaráð.  Þessum stofnunum, sem hafa komið hlutunum þannig fyrir að þau ein sem eru þeim þóknanleg, hafa aðgang af auðlindum þjóðarinnar.  Þó að þetta hljómi svolítið „wild“ er þetta einfaldlega staðan í málinu.  Ólöf Nordal sagði bara beint út að ekki mætti hrófla við kvótakerfinu.  Sigurður Kári sem er vanur að snúa út úr veruleikanum, missti út úr sér sannleikskorn þegar hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ætti fiskauðlindina í kringum landið.  Ég hvet alla til að berja þetta vídeó augum því það er ekkert of oft sem hann skorar í sannleiks-bandí.

Þetta sem ég hef lýst er svo sem engin sérstök tíðindi.  Þetta er ekkert „leyni“-neitt.  Í raun eru þetta eðlileg viðbrögð forréttindahópa sem hafa komið sér alltof vel fyrir og óttast að þurfa að deila kjörum sínum með þjóðinni.  Tökum t.d aðal málið sem er kvótamálið.  Segja má að útgerðarmönnum hafi verið „treyst“ fyrir auðlindinni.  Segjum það.  En hvað gerðu þau?

-Þau tóku þessa áskrift af auðlindum þjóðarinnar og veðsettu hana.  Gíruðu sig upp, fjárfestu í fjármálageiranum og keyptu sér þyrlur.

Og aðeins meira að kvótakerfinu og réttlætingunni fyrir því að veðsetning auðlindarinnar sé svona bráðnauðsynleg:  Því hefur alltaf verið haldið fram að enginn vilji fjárfesta í „greininni“ ef að hún fær ekki eðlilegt starfsumhverfi (eins og önnur fyrirtæki) og þá um leið að veðsetja kvótann o.s.fr  Þetta var gert og reynslan er sú að „arðurinn“ af greininni fór í brask en ekki í viðgang og viðhald innan greinarinnar.  Fiskveiðar eru líka svolítið öðruvísi en t.d rekstur á trésmíðaverkstæði.  Fiskveiðibransanum er átómatískt settar skorður af fiskveiðistjórnun.  Greinin getur ekkert vaxið og vaxið.  Þetta er takmörkuð auðlind ef einhver vissi það ekki.  Arðurinn af greininni (með gírun = 10% kvóti og 90% lán frá banka) fór í brask og tapaðist í hruninu!

-BIG TIME !! 

Útgerðarmaðurinn Magnús Kristinsson, sem kallaður er “Þyrlu-Mangi” fékk afskrifaðar 50.000 miljónir í Landsbankanum.  FIMMTÍUÞÚSUND MILJÓNIR.  -Og nú skulið þið geta hver mun borga það á endanum.  Þetta er eiginlega tvöfalt Icesavemál. (Icesave var 27-31 miljarður.  Afskriftir Þyrlu-Manga voru 50 miljarðar)

Samt segja LÍÚ að þeim sé einum treystandi fyrir veiðum við Ísland og auðn blasi við ef það ÞEIR hætti að skipta sér að veiðiskap.  Óglöggum lesendum skal bent á að fiskurinn við Íslandsstrendur fer ekki neitt þótt að Þyrlu-Mangi hætti að fá kvóta úthlutaðan.  Eða Jakob Valgeir Flosason sem hefur farið á hausinn „ten times over“ en nýtur einhverra hluta vegna ótakmarkaðs lánstrausts í Landsbankanum.  Fiskurinn fer hvergi.  Sömuleiðis ekki veiðitækin.  Það eina sem breytist er að arðurinn af auðlindinni fer til allra íslendinga.  Ekki nokkurra feitra og frekra kalla með matarleifar á skyrtunni.

Ég hef fyrir því ágætar heimildir að fyrir Icesave kosninguna hafi verið fundað hjá innsta kjarna VI og SA og beinlínis ákveðið að fyrsta mál á dagskrá væri að koma ríkisstjórninni frá – annað yrði að koma þar á eftir, mál eins og Icesave, kjarasamningar og þ.h. Þannig er nú staðan sem verið er að glíma við og birtist í ýmsum myndum.

Það er deginum ljósara að orrustan um Ísland er hafin.  það er deginum ljósara að Sjálfstæðisflokkurinn er byrjaður að marsera í takt undir lúðraþyt úr Morgunblaðinu.  Morgunblaðinu sem er ritstýrt af helsta hrunkvöðli þjóðarinnar og er í eigu stærsta kvótaeiganda þjóðarinnar.  það er búið að virkja LÍÚ.  Samtök Atvinnulífsins og Viðskiptaráð.  Það er búið að kynda undir sundrungu á vinstri vængnum með góðum árangri og í sannleika sagt er ósköp raunhæft að segja að eftirleikurinn verði auðveldur.

Kapallinn er að ganga upp.


– –
– – –
– – – –

Nema að vinstri menn í öllum flokkum þjappi saman raðirnar, snúist til sóknar   -Ekki varnar-  og taki frumkvæðið af Sjálfstæðisflokknum.  Ég mæli með því að strax verði samið frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um auðlindamálin eða bráðbirgðalög sett á frekjurnar í LÍU.

Ég hvet til samstöðu gegn sundrungu á vinstrivængnum og skilyrðislausri kröfu um réttlátri skiptingu auðlinda landsins.  Sameinuð vinnum við þetta stríð en sundruð töpum við því.

-Gleymum því aldrei.

-Aldrei.

Site Footer