ENDURVINNSLAN – VONT KERFI VERÐUR VERRA

Ég er mikill áhugamaður um rusl og endurvinnslu.  Í borginni minni, Gautaborg, eru sorpmál öðruvísi en á Íslandi. Þar hefst flokkun sorps á heimilum fólks.  Ruslatunnan er eiginlega bara
notuð fyrir matarafganga og eitthvað tilfallandi. Pappír, gler, litað gler, plast og járn eru flokkað og hent í þar til gerða gáma sem eru út um allt. Fyrir stærri hluti sem þarf að henda er farið í „sorpu“. Þær stöðvar eru færri en miklu stærri. 

Þessar litlu (sem kallast återvinningsplats) eru mörg hundruð í borginni.  Í Austur-Gautaborg (mínu hverfi) eru 20 svona litlar stöðvar.  Þetta er gott kerfi og þægilegt fyrir íbúana. Ég fer svona 2x í viku í þessar stöðvar og hendi járni, plasti, glerum og pappír.

Dósum og flöskum utan af drykkjarvörur er skilað í búðum.  Það er mjög þægilegt.  Fólk fer bara með dósirnar út í búð, matar einhverja vél með dósunum, þrýstir á hnapp og út kemur innleggsnóta sem hægt er að breyta í fé.  Svona vélar eru kallaðar talningavélar

Heima á íslandi er kerfið miklu verra. Fólk dröslast með risa stóra ruslasekki, fulla af dósum, út í Sorpu til þess að breyta þeim í peninga.  Þetta var algjört rugl og virðist vera sérhannað fyrir þá sem eiga bíl. Það var því með áhuga sem ég las visi.is í morgun.  Þar var frétt um að þetta kerfi virkar ekki sem skyldi því að fólk og framleiðendur svindla á því. Hérna er fréttin.  Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar segir að núverandi kerfi skuli afleggjast og annað tekið upp.  Helgi talaði um að taka upp svona vélar eins og eru í öllum búðum hérna í Gautaborg.
Þetta leit nokkuð vel út.

En því miður þá virðist þjónustan vera að minnka því að talningavélarnar sem breyta dósum í peninga, munu verða færri en núverandi skilastöðvar.

Nokkuð sem er alveg stór-furðulegt.  Hérna er útskýringin á því hversvegna skilakerfi fyrir dósir er ekki eins og í öllum borgum og öllum þorpum í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.

Gríðarlegur kostnaður. Það er svo dýrt að hafa þetta kerfi almennilegt.  Ef maður spáir aðeins í því hvernir hafa gagn af  því að breyta dósum í peninga þá eru það (eftir því sem ég best veit) fólk sem ekki á bíla.  Það að færa þjónustuna til þeirra skiptir miklu máli fyrir það
fólk.  það skiptir auðvitað líka máli fyrir fólk sem á bíla, því maður skutlast ekkert sisvona út í sorpu með 2 troðfulla sorp-sekki í aftursætinu.  Ég er ekkert svo viss um að þessi góða þjónusta hafi í för með sér „gríðarlegan kostnað“.

Ég fór af gamni í 3 búðir sem voru „í leiðinni“. Ein út í Askim sem ég fer oft í á föstudögum eftir vinnu og 2 í göngufæri frá mér í Austur-Gautaborg.  Hérna eru myndirnar af þessum gríðarlegu fjárfestingum sem munu ugglaust sliga rekstur Endurvinnslunnar.

 

Á þessari mynd eru talningavélarnar byggðar innan í vegg.  Þetta er reyndar í einni flottustu ICA búðinni í Gautaborg.  Mjög snyrtilegt allt saman.

 

Þessi talningavél er í COOP við Trétorgið.  Við hliðina á mjólkurkælinum. Þessi talningavél er frístandandi og er ekki innbyggð heitt. Það er auglýsingaskilti við hiðina sem ruglar rímið.   Ruslapoki við hliðina fyrir tóma poka.  Þetta er sú talningavél sem ég fer oftast í.  Mjög þægileg.


Þessi talningavél er í ICA Nära við Spánartorgið. Frístandandi.  Önnur tegund en hinar og greinilega eldri.

Það var annað í þessari frétt sem er alveg frábærlega dæmigerð fyrir furðulegan tilgangsskilning sumra þjónustufyrirtækja.  Það kemur nefnilega fram í fréttinni að „lítill áhugi sé að fara sömu leið og í Skandinavíu“.

Þá langar mig að vita smávegis.

Lítill áhugi hjá hverjum?  Lítill áhugi hjá Endurvinnslunni eða lítill áhugi hjá almenningi?  Hjá hverjum er lítill áhugi á því að koma dósaskilunarmálum í almennilegt horf? Hefur áhugi borgaranna verið kannaður?  Getur verið það sé einfaldlega lítill áhugi hjá Endurvinnslunni að þjóna borgurunum?  Afhverju eru það alltaf hagsmunir apparatsins sjálfs sem eru í fyrirrúmi?  Hvernig væri að setja hagsmuni borgarana í fyrirrúmið? Er það ekki eitthvað sem er orðið löngu tímabært?

Í núverandi kerfi eru það framleiðendurnir sem borga brúsann (orðtak sem fellur eins og flís við rass).  Þeir eru viðskiptavinirnir.  Almenningur sér bara um að koma með pródúktið í hús.  Endurvinnslan hefur lítinn hag í því að vera með góða þjónustu.  Nokkuð sem er mjög annkannalegt.

Væri kannski sniðugt að sjá hvernig sænskir leysa þessi mál?  Væri sniðugt að hugsa upp leið þar sem búðareigendur eða sjoppueigendur sjái sér hag í því að taka á móti plastumbúðum?  Væri t.d. sniðugt að í stað þess að borga 14kr fyrir hverja dós, yrði sú upphæð lækkuð eitthvað smávegis og búðin fengi mismuninn til að standa undir kostnaði við talningavélina?  Ætti ríkið eða sveitarfélög að styðja aðeins við bakið á búðum og sjoppum sem bjóða upp á þessa þjónustu?  Afhverju eru ekki svona talningavélar í 10-11 eða Bónus eða á bensínstöðvum?  Hvaða lausn væri best fyrir borgarana?  það vakna 100 spurningar og allar betri en lausnin sem Endurvinnslan kom með.

En hún var eins og kom fram á forsíðu Fréttablaðsins að minnka þjónustuna og gera bíllausum aðeins erfiðara fyrir.
.

Site Footer