COSTCO Í ANNARLEGU SAMHENGI

Bókaflokkurinn Gulag eyjarnar eftir Aleksander Solzhenitsyn hefst á sögu sem tengist fangabúðakerfi Kommúnistaflokks Rússlands eiginlega ekki neitt.

En samt alveg þráðbeint og inn að kjarna.

Solzhenitsyn hefur söguna á umfjöllum um blaðagrein sem birtist sjálfsagt í Pravda, þess efnis að norður í Síberíu hafi þær spélegu furður gerst að mörg þúsund ára loðfílshræ hafi komið í ljós undan ísnum – og að fundarmenn hafi gert sér lítið fyrir og skorið hann í stykki, eldað og étið með bestu lyst.

Lesendur höfðu margir hverjir bísna gaman af þessari skrýtnu sögu enda ekki á hverjum degi sem maður bítur hund ef svo má að orði komast.

Einn hafði ekki gaman af þessar sögu. Það var Solzhenitsyn sjálfur því hann vissi hvað hafði gerst.  Mennirnir átu þetta þúsund ára sjálfdauða hræ vegna þess að þeir voru örvinglaðir af hungri og vosbúð.

Já.  Það sem átti að vera fyndið reyndist ekkert fyndið heldur frekar sorglegt, skammarlegt, grátlegt og hörmulegt.

Þó að þessi saga af sögu sé inngangurin af því sem ég er að fara að segja, þá vil ég endilega árétta að það er ósanngjarnt að bera saman örvæntingu fanga í Gúlagi Stalíns við hvað sem er, þá er vona ég að lesendur skilji punktinn sem ég er að reyna að varpa fram.

Mér dettur þessi saga um loðfílinn og fangana stundum í hug þegar heyri og sé viðbrögðin við Costco búðinni í Garðabæ.  Endalausar raðir fólks.  Slagsmál á bílastæðinu eftir innkaupakörfum. Galtómir hillurekkar af þar sem áður voru risapakkningar af uppþvottalegi eða orkudrykkjum.

Margir hafa Jesúað sig og margir hafa sagt þetta vera „‘Íslensku geðveiki“ og smellt í góm.  Sumir hafa sagt að „við séum svo nýjungagjörn“ og enn aðrir hafa sagt þetta „bólu sem mun hjaðna“.

Ég sé bara birtingarmynd af helsjúku viðskiptaástandi.

Þessi ofsafengnu viðbrögð vegna opnunar Costco er ekki nein geðveiki.  Viðbrögðin eru mjög eðilieg.  Það sem er óeðlilegt er sú staðreynd að samkeppni í smálsölu á Íslandi sé þannig háttað að fólk gleðst óskaplega þegar það kaupir óskemmt grænmeti í Costco.  Að það hafi verið „hátíðarstemning“ í Costco á opnunardaginn.  „Eins og á 17. júní“ eins og stóð einhversstaðar.

Þetta var búð að opna.  Höfum það í huga.

Ég ætla ekki að segja að Bónus og Krónan og Hinn og Þessi, hafi svindlað á okkur og selt okkur maðkað mjöl  Ég ætla ekki að fara þangað.

Ég ætla samt að fullyrða alveg keikur að þessar búðir hafa sofið á verðinum.

Það er ekki samkeppni þegar einn verslunarkeðja staðsetursig aðeins fyrir ofan þá ódýrustu. Það er ekki samkeppni þegar sömu vörurnar eru í hillum allra verslunarkeðjanna.  Það ríkir ekki samkeppni á Íslandi þegar fólk kaupir föt á börnin sín í útlöndum.

Ég held meir að segja að matvörukeðjurnar og smásölurisarnir hafi hreinlega ekki skilið eðli kapítalismans.  Ég sver það.  Ég meina það.

Tökum lítið dæmi.
Vara sem seld er með 50% framlegð er í sjálfu sér ágæt fyrir hvern kaupmann.  En lækki sami kaupmaður framlegðarkröfuna niður í 25% er alveg ljóst að kúnninn er miklu líklegri til að kaupa meira en ella.

Ef ég kaup dós af niðursoðum tómötum á 500 krónur þá geri ég það bara með fýlusvip og geðillsku.  Ef dósin kostaði hinsvegar bara 100 krónur þá er þeim mun líklegra að ég kaupi eitthvað annað fyrir 400 kallinn sem verður eftir.

Mér er til efs að kaupahéðnar átti sig á þessu.

Vonandi breytist það.  Vonandi fáum við samkeppni.   Við eigum það eiginlega skilið

 

 

 

Site Footer