Bununa Burt!


Núna sem endranær eru skipulagsmál í Reykjavík í brennidepli. Mikið er rifist um byggingu listaskóla við Laugaveg. Mér stendur slétt á sama um þann kofa því önnur bygging stendur hjarta mínu nær en það er Sundlaug Vesturbæjar. Í Vesturbæjarlauginni eiga sér stað árleg hryðjuverk því að sundlaugastjórinni virðist vera ofvirkur skemmdarverkamaður. Á hverju ári fær Vesturbæjarlaugin fé til framkvæmda eða til viðahalds sem eru notaðir til þess að eyðileggja þessa ágætu laug. -Allt undir gunnfána framfara.

Allt byrjaði þetta á bannsettri nuddbununni sem sett var í einn heitapottinn. Síðan þá hefur ekki verið unnt að ræða landsins gagn og nauðsynjar fyrir hávaða frá bunu-ræksninu. Svo ekki sé minnst á þá fáu bununotendur sem nota vatnsaflið til þess að fræsa af sér fótsveppina með tilheyrandi óþrifnaði og smithættu. Enginn bað um þessa bunu svo mér sé kunnugt um. Svo var sett upp einhvert sjálvirkt hurða-opnunar-kerfi (sem enginn bað um) . Síðan var vigtin færð úr stað. Fyrir skömmu var komin einskonar „kragi“ á allta heitu pottana, sennilega til að auðvelda þrifin á húðflyksum sem bunan hafði tætt af sundgestum (enginn bað um kragann). Einu sinni var fiskabúr í anddyri Vesturbæjarlaugar sem glæddi ímyndunarafl ungra sundgesta. það er farið og gamla afgreiðsluborðið. Nú er komið ljótt og illa smíðað afgreiðsluborð sem er verra en það gamla. Ömurlegt upplýsingaskilti með óþarfa upplýsingum gín yfir fólki. Mesta slysið var þó þegar skiltin sem kváðu á um að konur ættu að fara upp en karlar niður (konu og kalla skiltin) voru fjarlægð og ómerkileg plast-skilti komu í stað þeirra gömlu. Þess verður að geta að gömlu skiltin voru alveg ágæt og fóru ekki í taugarnar á neinum. Þessi gömlu skilti voru um margt merkileg því að Sigurjón Ólafsson myndhöggvari tálgaði þau út og þau þóttu prýði allt frá opnum Vesturbæjarlaugarinnar. Þessum skiltum er víst búið að henda. -Sennilega er búið að brenna þau.

Í Vesturbæjarlaug endurspeglast skipulagsvandi Reykjavíkur. Hlutir og hús FÁ EKKI AÐ ELDAST. Allt verður að vera e ftir nýjstutízku og hipp og kúl. Ef að Vesturbæjarlaugin hefið verið látin í friði og sinnt sínu hlutverki af hógværð og ást hefðum við ekki setið uppi með þennan hroða sem endurspeglast í núverandi ástandi. Sundhöll Reykjavíkur er hinsvegar dæmið á hinum enda eyðileggingarlitrófsins. Þar hefur allt verið látið í friði og afleiðingin er sú að Sundhöllin er ein frábærasta bygging Reykjavíkur þótt víðar væri leitað. Gæti einhver ímyndað sér að hipp og kúl afgreiðsluborð væri sett upp með tilheyrandi raski í Sundhöllina? Marmari og burstað stál, allt eftir dutlungum tískumeistara? Þá væri Sundhöllin ljót og leiðinleg. Rétt eins og Vesturbæjarlaugin er núna.

Ég hvet fólk til að bindast samtökunum „Bununa Burt“ og blása lífinu í þau ágætu samtök. Við ættum að krefjast þess að Vesturbæjarlaugin verði færð aftur til síns fyrra horfs og fiskabúrið sett á sinn stað, að slökkt verði á bununni og skiltin hans Sigurjóns verði sett upp aftur.

1 comments On Bununa Burt!

Comments are closed.

Site Footer