BRUNARÚSTIRNAR INNRA

Viðbrögðin við úrskurði Landsdóms koma í sjálfu sér ekki á óvart.  Flokkurinn bítur frá sér.  Það sem er óvenjulegt í þessu samhengi er að ekkert er að bíta í sem tönn á festir.  Ótrúverðugt er að kenna dómurunum um eins og Geir gerði í ræðu sinn eftir úrskurðinn.  Hann sjálfur valdi flesta dómarana eða vinir hans úr Sjálfstæðinu.  Sama gildir um önnur rök.

-Þau duga skammt.

Það sem er merkilegt í þessari stöðu er að núna fyrst er Sjálfstæðisflokkurinn neyddur til þess að horfast í augu við afglöp sín og illvirki.  Það er ekkert gaman að sitja uppi með hneysu á borð við Landsdóm innan um myndirnar af formönnunum á norðurveggnum í Valhöll.  Þessi dómur er kjaftshögg á stjórnunarmóralinn sem grasserað síðustu 20 til 30 ár.  Stjórnunarstíl sem er samanofinn við heimsmynd flokksins og lífsýn.

Þið vitið…

-Reykfylltu bakherbergin.  Gæjaleg símtöl og augnagotur.  „Ég skal redda þessu“ og 30 miljónir komnar inn á reikninginn nokkrum mínútum seinna.  Já og allir hinir styrkirnir.

-Maður minn góður.

Það dugar ekki að kenna öðrum um eða benda í á einhvern annan.  Þetta tímabil er búið og það er sárt að uppgötva að „andstæðingurinn“ hafði rétt fyrir sér.

Það er svo skelfilega sárt.

Það er ekkert auðvelt að horfast í augu við mistök sín.  Það er ekkert auðvelt að horfast í augu við að stefnan var vitlaus. Stefnan sem var mærð og talað um á trúarlegum nótum sem hina eðlilegu skikkan.  Það er ekkert auðvelt að horfast í augu við brunarústirnar innra og ytra.

Héðan í frá duga engar smjörklípur til færa til óþægilega umfjöllun.

Site Footer