BÓNUS FÆR PLÚS OG MÍNUS

Bónus hefur um árabil verið vinsælasta fyrirtæki landsins.  Þeirri stöðu hefur Bónus náð með býsna skýrri verðstefnu sem gengur út á að vera sú búð sem býður bestu kjörin hverju sinni.  Neytendur eru greinilega ánægðir með þetta og það er að skila sér.

Hún var því óvænt fréttin um að afgreiðsluvigtin í einni búðinni var vitlaust stillt og snuðaði viðskiptavini Bónus um sem nam 140 grömmum í hvert skipti sem hún var notuð. Þetta varð að blaðamáli sem nokkrir fjölmiðlar fjölluðu um.

Þetta er auðvitað skammarlegt fyrir Bónus því mistök við vigtun er alltaf hálfgert sprengiefni og í sögulegu samhengi hafa ófáir hausarnir fokið vegna gruns um vigtunarsvindl.  Allskonar trixum hefur verið beitt við vigtunarsvindli.  Lóð voru létt eða þyngd,  Rúmmálsmælar voru grynntir eða dýpkaðir og ótrúlegri hugkvæmni beitt til þess að fá „rétta niðurstöðu“.  Það má því segja að vigtunarmálið í Bónus sé því alvarlegra en sýnist í fljótu bragði.

Á sama tíma og upp komst um vigtunarmálið í Bónus átti ég leið í Bónus út á Granda.  Ég er vanur að fara í Krónuna því búðin þar er stór, björt og vöruúrval gott.  En í þetta skiptið fór ég í Bónus.  Við innganginn blasti við mér upplýsingaspjald.

Upplýsingaspjald blasir við innganginn í Bónus út á Granda
Upplýsingaspjald blasir við innganginn í Bónus út á Granda

Þetta var athyglisvert.  Ég hafði a.m.k ekki tekið eftir þessu í auglýsingum frá Bónus áður.  Nú kann auðvitað að vera að þetta hafi einfaldlega farið framhjá mér.  Það er ekki á hverjum degi sem matvara lækkar í verði og í mínum huga er svona lagað stórfrétt.  Ég man hreinlega ekki eftir því að matvöru verslun tilkynnir vörulækkun.  Ikea lækkaði verð á sínum vörum um daginn og ég bloggaði um það af því tilefni.   Mér þykja svona lækkanir merkilegar og sýna vel að virkur og góður markaður, snýst um gagnvirkni og hóflegar arðsemiskröfur.  Það er ekki lögmál að vöruverð skuli alltaf hækka.  Það getur allt eins lækkað.  Því miður er það svo að langfest fyrirtæki lækka ekki vörur þegar vel gengur heldur bíða bara með að hækka.  Ég held að slíkt fara í taugarnar á neytendum og svona háttalag muni að lokum koma þeim um koll.  Neytendur eru ekki fífl eins og dæmin sanna.

Hérna er stór upplausn af spjaldinu góða.

IMG_20151026_143141

Ég hringdi í skrifstofuna hjá Bónus og fékk þær upplýsingar að þessi lækkun hafi tekið gildi þann 8. október og verið auglýst á Facebooksíðu Bónuss.  Manneskjan á skrifstofunni gaf mér samband við framkvæmdastjórann og við ræddum þetta mál aðeins. Eins og gefur að skilja þá kom vigtunarmálið upp og það mun vera leyst því skrúfa í vigtinni hafði losnað og skekkt þannig alla vigtun. Skrúfan fannst meir að segja á gólfinu.  Fréttatilkynning mun hafa verið send á alla fjölmiðla vegna þessa.

Ég hvet alla til að vera á verði. Hvet alla til að tékka af strimilinn og passa upp á að auglýstur afsláttur skili sér þegar vöru er rennt yfir strikamerkislesarann á afreiðslukassanum. það er grunsamlega algengt að auglýstur afsláttur skili sér ekki inn þegar vöru er rennt yfir skannann.   Pössum okkur. Verum á verði.

Góður markaður einkennist af virðingu, gegnsæi og þeirri óbilandi forsendu að við séum öll í sama báti.

 

Site Footer