kdkdkdkdkdkkdkdkdkdkd

BÖGG ER BJÚGVERPILL

Flestir vita að orðið jarðepli er íslenskt og þýðir kartafla.  Færri vita að íslenska orðið yfir “boomerang” er bjúgverpill, en það áhald kemur alltaf upp þegar ég les um nýjustu afrek Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er formaður Framsóknarflokksins.

Bjúgverpillinn er þeirrar náttúru að sé honum kastað, beygir hann rangsælis uns hann lendir á nánast sama stað og honum var kastað frá.  Eðli bjúgverpilsins er því að hitta þann fyrir sem kastaði honum í upphafi. Þetta er akkúrat að gerast með Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Hann hefur gjarnan brigslað andstæðingum sínum um spuna hverskonar.  En hafandi lesið þessa Hólaræðu sem á að vera svo merkileg, sé ég ekki betur en að Sigmundur Davíð sé komin á kaf í sama moðdýkið, sem hann þó sjálfur þreytist ekki á að væna aðra um að vera ofan í.

Þessi partur er alveg með eindæmum.

„Í stað uppbyggilegrar umræðu um hvernig megi leysa vandamál, lágmarka
viðbótartjón og bæta það tjón sem þegar hefur orðið eins og kostur er
hafa sumir séð sér hag í því að kynda undir hinn hættulega tíðaranda til
að réttlæta eigin stöðu og gjörðir. Það hefur meðal annars verið ýtt
undir þekkt fyrirbæri sem á íslensku má kalla fórnarlambsmenningu. Hún
byggist ekki á því að bæta stöðu þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni eða
standa höllum fæti heldur að nýta sér stöðu þeirra til að réttlæta
árásir á aðra“

Ég held að það sé vandfundin þingmaður sem farið hefur fram með öðru eins offorsi og Sigmundur Davíð og skeytir þá engu um hvort rétt sé farið með staðreyndir eður ei.  Maður skyldi t.d alltaf passa sig á því þegar Sigmundur hefur í frammi talnakúnstir því hann fer eiginlega alltaf með rangt mál.

Sigmundur stýrist því af nákvæmlega því sem hann gagnrýndi um “uppbyggilega umræðu”  Sigmundur telur að betra sé að veifa röngu tré en öngvu eins og dæmin sanna

Varðandi þessa mjög svo merkilegu Hólaræðu, þá er ég sannfærður að fjölmiðlar hafa misskilið hana sundur og saman.  Maður þarf ekkert BA próf í guðfræði til að fatta að ekki þýðir að rýna í texta þar sem hann stendur svartur á hvítum grunni.  Það verður að skoða aðstæðurnar sem textinn er settur fram í.  Sigmundur er þarna að halda ræðu á Hólum og áheyrendur eru trúaríhald og eftirsjáendur þeirra tíma þegar “skikkan skaparans” var einhvernvegin ljósari.  Þetta er akkúrat hópurinn sem Sigmundur Davíð vill höfða til og því er þessi merkilega Hólaræða brennd því marki frá upphafi til enda.  Hann er í raun að segja áheyrendum að gamlir tímar muni renna upp hafi hann eitthvað um það að segja.

Þegar Sigmundur Davíð var svo að kalla eftir því að tillögum um stjórnarskrá yrði ýtt út af borðinu, var það fyrst og fremst vegna þess að hann taldi að það væri eitthvað sem félli í kramið hjá hinum trúaða og íhaldssama áheyrendahóp.  Það voru ekki nein pólitísk stórtíðindi á ferðinni.  Sigmundur var einfaldlega að selja sig sem kristinn íhaldsmann sem engu vildi breyta.  Síst af öllu stjórnarskránni sem hefur verið haldbærasta afsökunin fyrir tilvist ríkiskirkjunnar og öllu því forréttindakerfi sem henni fylgir.

Sigmundur kallar eftir gömlum tímum.  Tímum þar sem stéttirnar stóðu saman, þar sem þeir sem minna bera út bítum, studdu þétt við bakið á þeim sem meira hafa. Tímum þar sem láglaunastéttirnar sættu sig við hlutverk sitt, fundu sig jafnvel í starfinu og fyrst og fremst:  -Sætti sig við hlutskipti sitt.

Gagnrýni á spillinguna sem þreifst á gráa svæðinu milli stjórnmála og viðskipta má ekki fjalla um. Sigmundur afgreiðir það með þessum orðum:

„Annar tíðarandi hefur tekið völdin og hann er ekki góður stjórnandi. Hann er óvæginn og hættulegur. Hann stuðlar að, og þrífst á, tortryggni, andúð, heift, rógburði og gremju og hann vegur að grunnstoðum samfélagsins“.

Og

„Sumir virðast telja að sér sé leyfilegt að segja hvað sem er óháð sannleiksgildi og án tillits til almenns velsæmis og réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum með vísan til efnahagsþróunar.“

Fólk sem ég þekki segir mér að þarna sé Sigmundur Davíð að vísa í mál sem tengist mér pínulítið.  Ef það er raunin, auðmýkist ég.  Ég er nefnilega sannfærður um að andskoti Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé á góðum stað á pólitískum skilningi.  Greining Vigdísar Hauksdóttur ástjórnmálalífinu hafa öll einkenni hatursorðræðu  (hate-speech) og furðu sætir að stjórmálafræðingar hafi ekki spurt hana  frekar út í kenninguna um að hægri og vinstri séu ekki lengur valid hugtök, heldur bara krati og ekki-krati.  Ég bloggaði um þessa stórmerkilegu greiningu Vigdísar Haukdsdóttur.

Því miður þá greindu fjölmiðlar ekki  Hólaræðu Sigmundar Davíðs.  Það er miður því ræðan er afhjúpandi og greinilega sniðin að  umhverfinu þar sem ræðan var flutt.  Sá eini sem skrifaði um Hólaræðuna var Agnar Kr. Þorsteinsson. það var að vanda fínhugleiðing hjá Agnari.  Takið eftir þessu.  Lesið ræðuna.  Sigmundur Davíð er að selja sig sem mann gærdagsins sem saknar hinna  gömlu gilda. Hann er að selja sig sem kristinn íhaldsmann.

Áhrif ræðunnar urðu alveg örugglega miklu sterkari en Sigmund hefði órað  fyrir.  Flokkurinn barasta klofnaði í tvennt.  Eða þrennt.  Ég veit það  ekki.  Ekki bætti úr skák aðsend grein í Morgunblaðið þar sem Sigmundur  Davíð kallaði eftir því að viðræðum um ESB yrði hætt.  Það er varla  tilviljun að Sigmundur velji Moggann sem farveg fyrir gærdaginn sinn.   Hann sagði nefnilega þetta um fjölmiðla:

„Fjölmiðlareigi að veita aðhald. Eitt mikilvægasta hlutverk þeirra er að veita tíðarandanum aðhald. En því miður sýnir sagan að fjölmiðlar eru oft uppteknari af  því að elta tíðarandann eða að magna hann upp en að halda aftur af  honum. Hér er þó mjög mikilvægt að taka fram að allir fjölmiðlar og  fjölmiðlamenn eru ekki undir sömu sök seldir. Á þeim er mikill munur“.

Sumir myndu kalla þetta að mála sig út í horn.  Það gæti verið en það er  alveg eins víst að þetta sé úthugsuð flétta.  Hver veit nema að „nótt geldingartanganna“ sé nýliðinn og enginn hafi tekið eftir því.  -Kannski  var þetta bara svona “úbbs” móment hjá Sigmundi.  Það er hinsvegar  svolítið nörurlegt að ímynda sér Íslandið þeirra kumpána.  Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.  Þar eru saman komnir skuggaprinsarnir á svæðinu milli stjórnmálalífsins og viðskiptalífsins að leiða saman hesta sína, horfa yfir völlinn sem er „for the taking“.

Þokkalegt Ísland eða hitt þó heldur en gærdagurinn verður ekki betur klæddur í hold nema með þessum tveimur.

Eftir hina misskildu Hólaræðu og greinina í Mogganum gerðist svolítið  stór-fyndið.  Sérstaklega þegar tekið er tillit til umbrotanna í  Framsókn eftir þessar bombu Sigmundar Davíðs.  Hann byrjar að blogga um  að hann sé byrjaður í megrun! Það var eins og Sigmundur vildi að fólk færi að hugsa um bumbuna á sér frekar en bombuna sem hann sprengdi nokkrum dögum áður.

Dæmigert PR trikk af verri sortinni.

Allt í steik, og þá er reynt að beina athyglinni að einhverju allt öðru.  Þá er reynt að afvegaleiða umræðuna á hinn ómerkilegasta hátt.  Þá er  reynt að koma því til skila að “Ég fer líka í megrun eins og þið”.   En í þessu samhengi var reynt að troða þjóðrembu inn í jöfnuna.  Íslenski  kúrinn þakka ykkur fyrir.  Ekkert útlent rusl  Bara gærdagurinn í öllu  sínu veldi með ýsulykt og klukknaóminn úr sjöfréttum Ríkisútvarpsins.   Davíð Oddson að plotta við herra Ásgrímsson  hvernig best sé að koma  ríkiseigum yfir í “réttar hendur”.

Til að skilja þetta PR stunt eru þetta lykilatriðin:  Eitthvað mannlegt,  Eitthvað sniðugt, eitthvað  þjóðlegt en fyrst og fremst eitthvað sem beinir sjónunum frá  átakasenunni.  Útkoman af þessu er Íslenski kúrinn.  Þetta PR stunt  minnir mjög á þegar Halldór Ásgrímsson ætlaði að redda slöppu orðspori  sínu með því að hæðarmæla Hvannadalshnjúk upp á nýtt.  Án þess að stökkva neitt á ályktanir, gæti ég alveg trúað  því að sami PR gaurinn hefði kokkað upp báðar þessar misheppnuðu  tilraunnir til andlitsbjörgunar.

Bjúgverpillinn sem fólgin er i  þessu ömurlega PR-stunti mun hitta Sigmund Davíð beint í hausinn aftur.  Það er deginum ljósara.  Moð-baggi á stofugólfinu mun ekki hverfa þótt  sjónum sé beint frá honum þótt langspil sé tekið fram og það strokið, plokkað og slegið. Moðbagginn hverfur ekkert frekar þótt muldraðar séu  rímur undir þessu glammi.

Hann hverfur ekki neitt.

Sigmundur Davið er hefur klofið Framsóknarflokkinn í sundur og teygt stefnuna inn á svið þjóðrembunnar og sjálfsupphafningarinnar. Þessum systrum fylgir  alltaf sú þriðja.  Tortryggnin gagnvart útlendingum.

Leave a reply:

Your email address will not be published.

Site Footer