BLÓMSTRANDI

Fyrir tæpu ári gaf konan mín mér Aleo Vera plöntu í afmælisgjöf.  Þetta var vel til fundið því eftir sem árunum fjölgar, hef ég æ meira gaman af pottablómum og þeim furðum sem þeim fylgja. Mér þykir t.d alveg stórkostlegt að fylgjst með sítrónutrénu mínu dafna frá því að vera fræ sem ég hætti við að henda og yfir í að vera bísna efnileg og falleg viðbót við veröldina eins og hún er.

Aloe Vera plantan á að vera mikil gagnsemis-jurt og safinn úr henni er notaður í krem og allskonar áburði.   Ég er ekki „þar“ eins og maðurinn sagði og læt plöntuna alveg vera í þeim fróma tilgangi.  Ég hef hinsvegar gaman að því að fylgjast með blóminu mínu og pæli smávegis í því hvar sé best að koma henni fyrir. Aleo Vera er eins konar kaktus og þarf mikla sól eins og kaktusa er siður og þar af leiðandi þarf ekki að vökva hana mikið. Ég hef sett hana undir vaskinn 10. hvern dag.  Þá bleyti ég sæmilega í og læt vatnið renna í gegnum pottinn.  Ég umpottaði skömmu eftir að ég fékk plöntuna og setti hana í mold sem ég blandaði eftir ráðleggingum færustu blómasveina.  1/3 hrossatað og 2/3 gróðurmold.  Það var smávegis ævintýr að ná í taðið en það fékk ég í hesthúsahverfinu í Reykjavík.

En svo gerðist það í fyrra.

Plantan mín byrjaði að blómstra!  Ég spenntist allur upp og tók ljósmyndir af framganginum.  Það sem er svo magnað i þessu er að þessi rólega planta fer öll á skrið og upp úr þykkum hnausunum kemur mjó spíra sem spýtist upp á ógnarhraða.  Við enda hennar er svo blómhnappur eða blómhnappar.  Hérna eru myndir sem ég tók í fyrra.

2016-02-22

Og hér.

2016-02-221

Mér þótti þetta virkilega skemmtilegt og ekki síður vegna þess að blómálfar sögðu mér að það væri ekkert algegnt að Aleo Vera plöntur tæku upp á þessu. Einhver sagði mér að þetta gerðist á 20 ára fresti. Synir mínir tóku fullan þátt í þessu ævintýri með mér og við fylgdumst náið með framvindunni.  Svo leið og beið og blómið fölnaði.  Stilkurinn varð þurr og ég braut hann af þegar ég sá fram á að hann hefði ekkert að gera með framvinduna.

Plöntunni sinnti ég eins og alltaf.  Smá slurkur af vatni á 10 daga fresti.  Plantan í suðurglugga og rás 1 á lagum styrk.

 

En haldið ykkur fast góðu lesendur. . . .   Hvað haldið þið?. . .  Plantan er aftur byrjuð að blómstra!

 

Um daginn sá ég eitthvað að milli grænblöðunganna og það leyndi sér ekki.  Nýr stilkur var að myndast.  Núna er þetta allt að gerast ég uppverðast allur aftur.  Tek myndir og verð mjög „andlegur“ og konan mín segir mér að ég tali mikið um „góða fyrirboða“ og allskonar vísidóm sem rekja má til hinstu raka neðan úr tóminu.  Vinnan hjá konunni minni var nefnilega að taka ákveðnum stakkaskiptum og þá gerist þetta.  Svo leggur maður bara saman tvo og tvo.

En hérna eru myndir sem ég hef tekið undanfarna daga af plöntunni minni.

IMG_20160220_094903

IMG_20160222_091031

IMG_20160222_091102a

 

Það er svolítið snúið að lýsa blóminu sem kemur af Aloe Vera plöntunni.  Þau eru eins og á lúpínu og raða ser niður endann á stilknum.  Þau eru fallega bleik og örsmá.  Mér finnast þau alveg stórkostleg og meyrist allur upp þegar ég skoða þau í krók og kima.

Hérna eru svo myndir sem ég tók í sumar af blómum Aloe Vera plöntunnar.

IMG_20150711_165832

IMG_20150711_165828

 

Site Footer