BLEIKI POSTULÍNSHUNDURINN FRÁ PORTÚGAL

Ég hef engan sérstakan áhuga á húsgagna-drasli.  Engan áhuga á stólum eða hnífaparasettum.  Mér er slétta sama hvaðan pottaleppar heimilisins koma og ég hef ekki hugmynd um tegundina á sófanum sem ég ligg í á kvöldin er.  Fyrir mér er þetta bara „sófinn“ og stóll er bara stóll í mínum ófágaða huga.Hjá fólki með smekk, er stóll ekki stóll, heldur „maurinn“ eða „jeppesen„.

Borð er ekki borð, heldur „Yakahichi“ eða þvíumlíkt.  Því miður er ég ekki með svona góðan smekk að ég ávarpi húsgögnin mín með eiginnafni.  Ég er ekki einu sinni með smekklaus, heldur hef ég sérstakan áhuga og yndi af ljótum hlutum.

Þetta eru mikil ósköp að burðast með.  Ég sanka að mér ljótum hlutum.  Ég á orðið gott safn af ósmekklegum myndum og dýrgripurinn er mynd af Lindu P, nýkrýndum heimsmeistara í fegurð.  Þessi andskotans árátta hefur legið niðri um skeið en því miður þá tók hún sig upp fyrir viku síðan.Við hjónin vorum að róla með drengina  og eiginlega væfluðumst inn á einhvern bansettann flóamarkað.  Þar úði og grúði af allskonar drasli.  Gamlar Singer saumavélar, vigtar, lampaskratti, brennivínsstaup í laginu eins og stígvél, gamlar símasnúrur, hleðslutæki fyrir GSM síma, taustrangar, hauslausar  dúkkur,skyrtur með ofboðslegum axlapúðum, Smyrnað veggteppi af prinsessu vera svæfa lítinn dreng, rafmagnsapar, vídeóspólur, klámblöð og tappatogarar, gamlir hárblásarar frá Braun, svo eitthvað sé nefnt.

Þarna sá ég hann.

Þarna sá ég hann bansettan.  -Helvítis hundinn.

Hann stóð þarna á borðinu, nokkuð árvakur og íhugull.  Bleiki postulínshundurinn frá Portúgal.  Ég varð að fá hann.  Þetta er ljótasti hlutur sem ég hef séð.  Hann var æðislegur. Hámark tilgangsleysis tilverunnar og án nokkurs vafa sá hlutur í mannkynssögunni sem olli vatnaskilum í heimssögunni.  Eftir þennan hlut hata guðirnir okkur.  Þetta er dropnn sem fyllti mælinn.  Ljóti bikarinn fylltist.  Eftir þennan hund,verður ekki snúið.  Tortíming mannkyns er óumflýjanleg.  Bleikur Fenrisúlfur sem mun renna, éta og maka emalerað yfirborð sitt með blóði hinna sakausu og baka það í ofni ragnarraka.

Karlinn sem var að selja hann sá að ég hafði fallið fyrir honum og sveif á mig og sagði smeðjulega „fyrtio kronor“.  Því miður kom Ingunn kona mín askvaðandi og horfði ákveðið á mig og sagði hátt.  „Þetta ógeð fer ekki inn á heimilið okkar“ og dró mig út.

Það var ekki fyrr en um kvöldið að ég fattaði að ég yrði að fá hundinn.  Annað væri útilokað.  Ég fixeraðist gersamlega á þetta grey.  Ég var eins og nevrótísk kona sem fær einhvern ódám á heilan og vill „bjarga honum“. Gersamlega laus við skynsemina og hið eðlilega flæði lífsins.

-Fokk.

Þessi markaður er bara opin um helgar og ég fór í dag og keypti bansettan hundinn.  Hann hafði lækkað úr fjörtíukalli og niður í tuttugu kall sem verður að teljast nokkuð góður afsláttur.  Kallinn sem seldi mér hundinn var bara nokkuð keikur, og konan hans var eitt spurningamerki í framan þegar húns á að ég ætlaði virkilega að kaupa þennan hund.  Nokkur orð fór á mili þeirra sem ég held að sé einhver kúrdíska.  Því þetta var tungumál sem ég hef bara heyrt í kvikmyndinni „Team America“.

Hakkalakka… “ sagði kallinn og kerla svaraði „….Hakkalakka …..Jihad“.

Svo borgaði ég honum og hélt heim á leið.  Þegar ég svo kom heim með nýja heimilismeðliminn mætti mér kaldur andvari konu minnar.  Áður en hún gat sagt nokkuð sagði ég ákveðið „Hann verður inn í tölvuherberginu“  -Og þar við sat.

Ég dobblaði samt Ingunni að taka mynd af mér og bleika postulínshundinum frá Portúgal.


Þegar Ingunn smellti af þessari mynd sagði hún; „Djöfull ertu klikkaður Teitur“.  -Nokkuð til í því.  Takið eftir því að eitrið er ofan á arinhillunni.  Ég hef fullkomna skömm á áfengi, en samt er þar í öndvegi á heimili mínu.  -Sætir furðu.  -Ég er sennilega á fallbrautinni.


Er hann ekki sætur.


Baksvipur bleika postulínshundsins.


Ekki er því að neita að hann er krútt.


Hérna sést eitthvað um tegund og svoleiðs.  Made in Portúgal.

Site Footer