Bjarni Harðasson leikur tveimur skjöldum.

Bjarni Harðarson þingmaður leikur tveimur skjöldum. Ungur Eyrbekkingur, Gylfi Ingvarsson, 17 ára birti í kvöld sláandi niðurstöður sem stefna þingmannsferli Bjarna Harðarsonar í tvísýnu. Gyfi birti slædsmyndir og hljóðupptökur af samskiptum sínum við Bjarna sem leiða í ljós að Bjarni er marbendill. Samkvæmt gamalli þjóðtrú villtu marbendlar oft á sér heimildir og snigluðu sér inn fyrir dyrastaf á sveitabæjum í fyrndninni. Stríddu heimilisfólki með vafasömum fullyrðingum og hæpnum kveðskap. Til að koma upp um marbendil var oft gripið til þess ráðs að ota sleif eða þyrli í áttina að marbendlinum og hafa yfir í þrígang þessa setningu. ”Far í mar, hafbúi”. Við það hvarf marbendill. Gylfi Ingarsson hafði Bjarna grunaðan um að vera hafmaður lengi og prufaði að hafa yfir þessa setningu í þrígang yfir Bjarna í vetur. Við það hvarf Bjarni og birtist ekki fyrr en í góulok. Var þá brugðið mjög af Bjarna. Gylfi prófaði aftur að hafa yfir setninguna í síðustu viku og nú með aðstoð félaga sinna sem tóku ljósmyndir og hljóð frá atvikinu. Við skoðun á ljósmyndunum sést vel að Bjarni hverfur um leið og Gylfi hefur yfir setninguna. Þegar hljóðið er spilað af bandi, heyrist lágt hvissandi hljóð um leið og Gylfi hefur yfir setninguna í þriðja sinnið. Ekkert hefur spurst til Bjarna Harðarsonar frá því að hann hvarf. Ætla má að andstæðingar hans á þingi sem og meðlimir Vantrúar muni hafa yfir setninguna í hvert skipti er þeir sjá Bjarna á gangi.
Meðfylgjandi ljósmynd sýnir marbendil í hýði sínu. Myndin er tekin á Ísafirði 1954.

Site Footer