Bjarna Karlssyni svarað


Í gær birtist í Fréttalblaðinu grein eftir séra Bjarna Karlsson sóknarprest. Grein hans er svargrein við grein minni sem hét Trúlausi guðfræðingurinn. Nú er það svo að ég veit að Bjarni er vænn maður og þar af leiðandi frjálslyndur í sinni guðfræðilegu nálgun. Grein hans (bls 34) er því miður full af þversögnum og óskiljanlegum hugtökum og útskýringum. Ég ætla ekki að svara grein Bjarna lið fyrir lið, hún stendur alveg sjálf. Ég ætla hinsvegar að benda á nokkur atriði sem mér þykja ámælisverð ef svo má að orði komast.

Í þeim fjölda tölvupósta og sem mér hefur borist í kjölfar greinarinnar um trúlausa guðfræðinginn hefur mér verið hrósað fyrir að tala skýrt og án vífilengja um trúarlegar útskýringar. Það þykir mér afar vænt um. Þetta er nefnilega atriði sem hefur alltaf vantað í útskýringum prestanna. þeir detta alltaf í einhvern heilagleika gír og tala uppskrúfað og upphafið tungumál sem sumir kalla helgislepju. Því miður rennur Bjarni í sleipum polli hinnar upphöfnu trúálaorðræðu. Í svari sínu um túlkunarmöguleika biblíunnar (bókstaflega eða táknræna) segir hann að hugleiðingin sé ósanngjörn því að „Biblían er alltaf að túlka sjálfa sig“. -Hvað þýðir þetta eiginlega?

Ofanritað er fyrirmyndardæmi um þá orðræðu sem einkennir guðfærðilegar hugleiðingar ríkiskirjuprestanna. Á dauða mínum átti ég von en ekki að fara að gefa ríkiskirjunni heilræði en ég ætla nú samt að gera það. Hættið að tala eins og maddaman á Útrauðsmýri. Talið eins og Stjáni meik eða Benedikt Eyjólfsson í Bílabúð Benna. Siggi kantur eða Halli pípari. Rebekka Rán afgreiðslustúlka í Bjössabakaríi. Natalie sem er á kassanum í Krónunni, Maggi síði í Daníelsslipp, Stálmúsin, Gúndi verðbréfasali. -Dísa í World Class.

Í grein minni um trúlausa guðfræðinginn notaði ég ekki upphafin kanselístíl. Ég reyndi að tala skýrt og án vífilengja. Bjarni kallar það að hæðast að fórnardauðanum. Ég hvet ykkur lesendur góðir að lesa grein mína og sjá hvort þið eruð sammála hæðnisbríkslum séra Bjarna.

Það er þversagnakennt í skrifum Bjarna að hann vitnar jafn auðveldlega í Gt og Nt. Fer fram og aftur til þess að leggja grunn undir skoðanir sínar og fullyrðingar. Gott og vel. Þá kem ég að atriði sem ég ympraði á í grein minni. hvaða kerfi notar Bjarni til þess að skera úr um hvaða ritnigastaði skuli notast við og hverju á að sleppa? Í Gt eru skýrt kveðið á um hvað gera skuli við konu sem er ekki hrein mey á brúðkaupsnóttinni. -það á að drepa hana og draga lík hennar að dyrastaf föður hennar. Af hverju eru þessar reglur ekki brúklegar en sagan um Adam og Evu er það! Ég skil alveg boðskap sögunnar um Adam og Evu en mér þykir fráleitt að notast við þennan boðskap til að fá botn í samtíma minn. Þar greinir okkar Bjarna sennilega á. Hann kristinn en ég trúlaus. Sama má segja um útskýringar Bjarna á erfðasyndinni. En það guðfræðilega hugtak gerir ráð fyrir því að allir séu syndugir. Börn jafnt sem fullorðnir. Gamalt fólk, fatlað fólk, unglingar, Stjáni meik. -Dísa i Worldclass.

Ég hafna þessu með miklum innileik og fullyrði að ég er ekkert syndugur. Ekki synir minir ómálga né foreldrar mínir. Afar og ömmur. Bróðir minn er ekki syndugur og heldur ekki systir mín. Dísa í World Class og Stjáni meik eru ekki syndug. Við erum ekkert syndug Bjarni. Við erum bara ágæt og ættum ekki að skammast okkar fyrir það.

Þarna kem ég að mikilvægum punkti í krisinni guðfræði en það er mannskilningur kristins hugmyndakerfis. Í stuttu máli eru allir syndugir (vegna þess að Eva beit af skilngstrénu) og við gerum allt vitlaust ef við treystum á „manninn“. Við eigum að treysta guðinum en ekki manninum. Þar hafið þið það lesendur góðir. Þetta er mannskilningur kristinna.

Þegar Bjarni ritar um fórnina þá hætti ég að skilja. Hann segir:

„Mér þykir gott að skilja fórnardauða Jesú með þeirri hugsun að hann hafi breytt fórnaraltarinu í eldhúsborð. Kristindómur er í mínum huga samfélag um eldhúsborðið þar sem fjölskyldan deilir kjörum. Í stað þess að hringa sig um fórnaraltarið sem á öllum öldum stendur í mannfélaginu miðju, þar sem við erum í sífellu að færa fórnir hvort sem þær birtast í kynþáttahatri, kynjamisrétti, barnaþrælkun, samkynhneigðarhatri, andúð á náttúrunni o.s.frv.“

Mér sýnist Bjarni ekki nota sama fórnarskilning og ég. Hinn almenni skilningur á fórn er eins og ég benti á í greininni um trúlausa guðfræðinginn, einhverskonar gjöf til þess að friða guðinn. Hafa guðinn góðann. Sami skilningur er til staðar í venjulegu talmáli en stundum er sagt að einhver hafi fórnað sér fyrir liðið. Hann sem sagt lét sína hagsmuni fyrir róða til þess að hagsmunir hinna mörgu væru tryggðir. Bjarni virðist notast við allt annan skilning og segir að

„við erum í sífellu að færa fórnir hvort sem þær birtast í kynþáttahatri, kynjamisretti, barnaþrælkun, samkynheiðgarhatri, andúð á náttúrunni osfr.“

Ég bara skil ekki hverskonar fórn þetta er! Er fórn falinn í kynjamisrétti? Er hatur á nátturinni fórn? Eru hagsmunir hinna mörgu tryggðir með hatri á náttúrunni? Eru túlkunarfræðin ekki komin í heiljarstökk og hálfhring í þessari pælingu? -Liggur hið augljósa ekki í augum uppi? Er fórn ekki bara fórn?

Eins og ég sagði í upphafi þá ætla ég ekki að rífa grein Bjarna í sundur og gagnrýna hana lið fyrir lið. Ég hef þó tekið upp nokkur atriðið sem mér þykja ámælisverð. mér þykir undarlegt að Bjarni segji mig hæðast að fórnardauðanum og erfðasyndinni. -Það geri ég ekki! þessi ásökun Bjarna á sér sennilega þá útskýringu að mörgum þykir gagnrýni á trúarbrögð vera særandi og hæðandi. Þessu er ég barasta ósammála. Gagnrýni á trúarbrögð á að vera jafn sjálfsögð og gagnrýni á nýjustu plötuna með WHAM!. það gæti líka verið að Bjarni trommi í sama takti og aðrir ríkiskirkjuprestar í samba-takti við lagið „Trúleysingjar eru dónar“. En sá smellur heyrist eiginlega alltaf þegar vantrúaða ber á góma í trúarlegri umræðu. Við erum dónar og ruddar.

Ég hvet lesendur að skera sjálfa úr um það og lesa greinina mína og vantrúarvefinn.

3 comments On Bjarna Karlssyni svarað

 • Blessaður Atli. Hér koma einhver svö frá mér. Ég set þinn texta innan gæsalappa:

  I
  “Í svari sínu um túlkunarmöguleika biblíunnar (bókstaflega eða táknræna) segir hann að hugleiðingin sé ósanngjörn því að „Biblían er alltaf að túlka sjálfa sig“. -Hvað þýðir þetta eiginlega?”

  – Þegar ég segi að Biblían sé alltaf að túlka sjálfa sig þá meina ég að Biblían sem safnrit margra bóka sem skrifaðar eru við margvíslegar aðstæður af ólíkum tilefnum á ýmsum tímum birtir margvíslega þróun hugmynda. Hugmyndir um þætti eins og réttlæti, félagslega ábyrgð, góðar siðareglur, kynjahlutverk, hjónaband, mannslíkamann, útlendinga, fatlanir og sjúkdóma o.m.m. fl. eru ekki þær söum í gegnum þessi rit. Eins eru margvíslegar hugmyndir um ríkisvaldið og gildi þess, um hlutverk átrúnaðarins í lífi samfélagsins auk þess sem hugmyndir manna um það hvað guðinn vilji mönnum yfir höfuð, hvernig djöfullinn og hið illa er í sjálfu sér og hvað sé á dagskrá eftir dauðann. Gamla testamenntið er fjölskrúðugt í þessum efnum en er kemur að Jesú frá Nasaret í Nýja testamentinu þá er hann bókstaflega alltaf að túlka Gamla testamentið. “Þið hafði heyrt að sagt var við forfeðurnar, þú skalt ekki drýgja hór, en ég segi yður….” o.s.frv. o.s.frv. Hans gagnrýni var ekki síst fólgin í því að hann hafnaði bókstafstrú og regluverki samtíma síns sem í hans augum var ekki annað en valdatæki manna. Við faríseana sagði hann: “Þið gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.” (Matteus 23. kafli) Þannig túlkaði og endurskoðaði Jesús texta Gamla testamenntisins með mjög afdráttarlausum hætti, um leið og hann hélt því fram að hann væri ekki kominn til að afnema þessa texta heldur til þess að uppfylla þá. Sem sagt eins og Rebekka Rán í Bjössabakaríi myndi orða það. Jesús diggaði GT. Eða þá eins og Stjáni Meik og Stálmúsin kynnu að orða það: Hann feisaði faríseana biggtæm án þess að dömpa þá alveg fulltæm.
  Svo koma þeir Páll og Pétur og Jóhannes og fleiri með sín bréf, sem við vitum í dag að eru sum eignuð Páli án þess að hann hafi nú skrifað þau, þar sem textarannsóknir hafa leitt í ljós að þau eru yngri en Páll. Í öllum þessum bréfum er líka túlkun á Jesú í bullandi gangi. Þar er Páll t.d. alveg til búinn að skrifa upp á hjónaskilnaði að uppfylltum vissum skilyrðum á meðan Jesús er ekki á því. Eða eins og Siggi kantur segir alltaf: Life goes on. Það gildir líka um kirkjuna og um guðfræðina.

  II
  “Hvaða kerfi notar Bjarni til þess að skera úr um hvaða ritnigastaði skuli notast við og hverju á að sleppa?”
  – Um þetta má deila og um það er stöðugt deilt. Mér sýnist sú túlkunarhefð vera sanngjörn að skoða uppruna textans með menningarlegt og félagslegt samhengi hans í huga og spyrja hvað unnt sé að vita um merkingu hans í huga höfundar og þeirra sem fyrst voru viðtakendur hans. Sumir textar Biblíunnar eru ástarljóð aðrir lög, aðrir frásagnir á gömlum landamerkjadeilum, enn aðrir eru sálmar. Þar eru heimspekilegir textar og rit sem skráð eru á þrengingatímum og fjalla um endi alls og mörk hins sýnilega og ósýnilega. Við verðum að vita sem best hvað við höfum í höndum. Svo er gott að huga að því hvernig þessir textar hafa áður verið túlkaðir af þeim sem á undan gengu. Það má margt læra af sögunni. Þá vil ég líka spyrja mig um afstöðu Jesú frá Nasaret og horfa á textann í gegnum persónu hans, sem svo má að orði komast án þess að falla í kanselístílinn. – nota Jesú sem filter, sem afruglara, af því að hann er svo edrú í hugsun og ég vil hafa hann sem fyrirmynd af því að mér finnst hann flottastur og það er bara tilfinningaleg ákvörðun byggð á traustum vitsmunalegum grunni eins og svo margt í lífi okkar allra. Svo vil ég alltaf þegar ég er að túlka Biblíuna spyrja út frá aðal atriðum kristins siðar: Hvernig tengist þetta því réttlæti þeirri miskunn og þeirri trúfesti sem Jesús stendur fyrir? Þetta er siðferðislegt val, byggt á túlkunarhefð Jesú.

  III
  “Sama má segja um útskýringar Bjarna á erfðasyndinni. En það guðfræðilega hugtak gerir ráð fyrir því að allir séu syndugir. Börn jafnt sem fullorðnir. Gamalt fólk, fatlað fólk, unglingar, Stjáni meik. -Dísa i Worldclass.”

  – Já í mínum huga er erfðasyndin harðpraktískt mál. Hugmyndin um erfðasynd er tjáning á þeirri vitund að allt fólk er ófullkomið. Ekkert meira og ekkert minna.
  Hugmyndin um erfðasynd skapar félagsauð og dregur úr hroka í samfélaginu því hún gerir það að verkum að allt fólk stendur jafnfætis í siðferðislegum efnum. Við vitum að tilhneigingin er í þá átt að ef þú átt mikla peninga eða hefur stóra vöðva þá hefur þú rétt fyrir þér. En erfðasyndapælingin er notuð til þess að jafna metin í mannfélaginu. Hagnýt guðsþekking er hugtakið yfir þetta í mínum huga. Teitur! Þú ert syndugur eins og páfinn og þínir synir sitja uppi með þig eins og mín börn sitja uppi með mig sem uppalanda. Og þótt það væri ekki nema vegna uppeldisins sem í öllum tilvikum er gallað, þá erfa börnin syndir feðranna. Synd er þá ekki sama og skömm. Hugtakaparið “synd og skömm” er vont hugtakapar byggt á rangri guðfræði. Það er engin skömm að syndinni. Skömmin er hins vegar synd sem við þurfum að hjálpast að við að útrýma í mannfélaginu svo að börnin okkar læri að vera upplitsdjörf og kannast við eigið gagn og gæði um leið og þau læra um erfðasyndina svo að þeim bregði ekki í brún þegar þau gera mistökin sín og haldi að nú séu þau ekki lengur með í mannlífinu. “Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð” segir postulinn, og það er til þess að lækka blóðþrýstinginn hjá okkur, að við hættum að reyna að vera fullkomin en fögnum því að vera ófullkomnar manneskjur sem eru elskuverðar í augum almættisins o.þ.a.l. elskuverðar hvað sem hver segir.
  Þegar kristin guðfræði segir að Guð muni dæma syndugt mannkyn þá er merkingin sú að við þurfum ekki að dæma okkur sjálf eða náungann, við þurfum ekki að standa undir dómi manna heldur stendur hver og einn undir dómi Guðs, og dómur Guðs er ást, eilíf ást.

  IV
  ” Við eigum að treysta guðinum en ekki manninum. Þar hafið þið það lesendur góðir. Þetta er mannskilningur kristinna.”

  – Við eigum samkv. kristinni trú að treyst guðinum sem lýsir því yfir að hann treysti manninum o.þ.a.l. eigum við einmitt að treysta manninum. Kristin siðahugsun á að vera mannmiðlæg. (Þetta er eitt af kjarnaatriðum í meistararitgerð minni um kristna kynlífssiðfræði sem ég lauk sl. haust.) Kristin siðahugsun byggir m.a. á þeirri trú að Guð hafi slíka trú á mönnum að hann hafi gerst einn af þeim. Holdtekja Guðs, það að guðinn gerist maður, er brjálæðisleg túlkunartilraun. Aðferð til þess að flytja þá góðu frétt sem kanselístíllinn kallar fagnaðarerindi að manneskjur séu marktækar. Það er í lagi að vera manneskja. Mannlegar þarfir eru á dagskrá. Það er kristinn siður.

  V
  “Mér sýnist Bjarni ekki nota sama fórnarskilning og ég. Hinn almenni skilningur á fórn er eins og ég benti á í greininni um trúlausa guðfræðinginn, einhverskonar gjöf til þess að friða guðinn. Hafa guðinn góðann. Sami skilningur er til staðar í venjulegu talmáli.”

  – Já við notum þetta hugtak með sinn hvorum hætti. Fórn Guðs sem um er rædd í Biblíunni er í mínum huga sú að hann kemur til að vera og deila kjörum með fólki og öllu lífi. Guðinn gefur sjálfan sig og samsamar sig sköpun sinni sem fæðist, lifir, þjáist og deyr. Það merkir það að þetta ferli sem við erum öll inní er ekki absúrd. Það að fæðast, lifa, þjást og deyja, og allt hitt sem við gerum, borða, vinna, elska, hugsa og tala…. allt er það marktækt og mikils virði.

  Það að einhver skuli vilja fórna sér fyrir þig segir þér að þú ert mikils virði. Puðið sem foreldrar þínir lögðu á sig til þess að þú fengir fæði, klæði og húsaskjól voru skilaboð, fórn. Svona er Guð er Biblían að segja. Guðinn er tenglsavera eins og mannfólkið og lífið snýst um tengsl og nálægð. Við finnum merkingu með lífinu í tengslum.

  Þannig er fórn Jesú ekki mannfórn heldur kærleiksfórn.

  Mannfórnir eru hins vegar stundaðar í þessum rangláta heimi og hafa alltaf verið. Jesús frá Nasaret er ekki í þeim bransa. Og þegar menn fórna mönnum í hans nafni þá er það barasta ekki í hans nafni.

  B.kv.

  Bjarni Karlsson

 • Takk fyrir svarið Bjarni. -Mikið höfum við ólíkar skoðanir á þessum málum.. 🙂

  -Fáir snertifletir.

 • Ætla nú ekki að blanda mér mikið í málin … en, Bjarni, er ekki lágmark að kalla manninn réttu nafni? Þá á ég við Teit.

  Guðmundur

Comments are closed.

Site Footer