BITTER MOON

Stjörnubíó árið 1992.  Fígúrur á vegg, umluktar rauðu ullarefni. Þær voru þar og horfðu frá hlið með engum augum frá hvítu andlitinu. Órjúfanlegur hluti af salnum. Salnum sem var allt í senn dimmur, þungur og mettaður af lykt af poppkorni og blautum dúnúlpum.

Herra og frú Kópral með hamraðari áferð. Munstruð til þessara örlaga sem hefðu alveg getað verið verri.

Bíómyndin var Bitter Moon

Eftirminnileg bíómynd.  Fjallar um par sem lendir í algerum ógöngum í tilfinningalífinu og kynlífinu og lífinu bara eins og það leggur sig.  Ferleg mynd sem margir „tengja“ við á þennan eða annan hátt.  Mynd um ógöngur.  Mynd um vonir, þrár, losta og eftirmála sem er eins tómur og svartur og olíuborið latex.

Sagan af Oscari og Mimi endar ekki vel.

Í lok myndarinnar hefur Oscar myrt Mimi.  Hjólfastur í stól með ráðið jafn rjúkandi og byssuhlauppið sem hann sat með í kjöltunni.   Kjökrandi yfir ástinni sinni, hatrinu sínu og örlögum þeirra beggja.   Það var þá sem setningin kom sem rifjast svo oft fyrir mér þessum tæpu 30 árum síðar.

We were just too greedy   –   baby, that was all

Þau voru bara of gráðug.

Græðgin gott fólk.

Græðgin.

That was all.

Núna eru þessi orð að sönnu.  Græðgin og endirinn í nánd.  Mér verður hugsað til Peter Coyote og Emmanuelle Seigener og blóðrautt tungið fyrir ofan.   Eftir hrun þá hefur leiðin sem betur fer ferið greið.  Landið reis og í bland við fórnir og einhverja heppni þá höfum við náð einhverju jafnvægi.

Þá komi Kjararáð til sögunnar.  þau slógu tóninn svo um munaði.  40% hækkun á dómara.  Rosahækkun á bankastjóra ríkisbankanna.  Þau launahæstu þurfa mestu hækkanirnar eins og gefur að skilja.  Þetta var árið 2015 og ASÍ ályktaði

Ályktaði í hundraðogníuþúsundastaskiptið. Eins og róbot.  Eins og biluð grammófónplata. Eins og blúsaður saxafónn.

Svo hélt þetta áfram og alltaf eins og alltaf þá er hægt að bíða svona af sér.  Það þarf í raun bara að halla sér aftur og bíða.  Bíða smá.  Bíða uns næsta mál kemur upp.  Stríð? Friður?  Umskurður sveinbarna og bingó.

-Málinu reddað.

En svo er það græðgin baby.

Meira.  Meira og meira.  Fyrst dómarar fengu 40%. Hversvegna ekki forstjórar?  Forstjórar í fyrirtækjum sem eru í eigu þeirra sem njóta sko ekki eldanna af góðærinu?  Og svo annar forstjóri í fyrirtæki sem Reykvíkingar eiga að langstærstum hluta.  7% hækkun á rosalaunin hans.  Svo var það útvarpsstjórinn.  250.000 hækkun á mánuði.

-Bíngó.

Ekkert hægt að gera. Ekkert hægt að segja. Engum að kenna.   „Skotheldur andskoti“ heyrist sagt um leið og hendin er teygði í átt að ostafatinu. . .

. . . eða hvað?

„We were just too greedy   –   baby, that was all“   heyri ég Peter Coyote kjökra undir silfruðum mána.

Er þetta ekki of seint kæra yfirsétt?  Er hægt að redda þessu?  Voruð þið ekki bara of gráðug?

Ég veit nefnilega hvað gerist.

-Upp á hár.

Verkalýðshreyfingin mun loksins, loksins, loksins . . . . . . . . grípa til aðgerða.

Ekki bara VR og Efling og KÍ sem sjá hvað er að gerast, heldur líka hin félögin og ASÍ sem horfir á hina taka frumkvæðið.  Eins og barn í veislu sem veit ekkert hvernig það á að haga sér.  -Á að standa upp núna?

Það verður krafist sömu hækkana.  Sömu gilda og sömu réttinda.  Ekki minna og ekki meira.  Bara þess sama.

Ég veit að allt tal um „kollsteypu“ mun ekki verða tekið trúanlega. Ekki vegna þess að það er eitthvað rangt. Það verður kollsteypa.  Fólki er bara sama.

Það vill réttlæti og ef það kostar kollsteypu þá er kollsteypa verðmiðinn.

Svo er það væntanlega verkefni næstu áratuga að reyna að brúa bilið þar sem traustið var einhverntíman.

„We were just too greedy   –   baby, that was all“

Site Footer