BARÁTTAN UM BESSASTAÐI – ÞAÐ SEM MÉR FANNST

Ég horfið á kosningasjónvarpið vegna forsetakosninganna í gær. Það var ágætt. Það er reyndar ansi langt síðan ég kíkti á „íslenska“. Þetta var mjög upplýsandi og góður þáttur. Sigurvegari þáttarins voru spyrlarnir. Þau voru alveg með þetta. Staðreyndir á hreinu, fína rökstuddar upptalningar og pressuðu á svör við spurningunum sem þau lögðu fyrir frambjóðendurna. Ef frambjóðandi reyndi að komast undan því að svara, var spurningin endurtekin.

Ef þetta verður línan héðan í frá, mun ýmislegt batna get ég sagt ykkur. Stjórnmálafólk hefur komist upp með að svara út í hött svo áratugum skipti. Þetta hefur tryggt það að skrumið er orðin hluti af inntaki stjórnmálaumræðunnar. Ég man eftir að Guðni Ágústsson var spurður út í risa-niðurgreiðslur til landbúnaðarins og svaraði því til að mæra bragðgæði íslensku paprikkunnar.

Þetta er því miður veruleiki sem ég og mín kynslóð erum alin upp við og höfum þurft að kyngja. Eðlilegar spurningum er svarað út í hött. Afleiðingin er að heilu kynslóðirnar eru aldar upp við þá hugmynd að eitthvað svar – sé gilt svar. Sér svarið „snappí“ eða sniðugt, er það álitið frábært svar. Klúður stöðar 2 í kringum sinn forseta-umræðu-þátt ber fullkomin merki þessa ruglings. Þessi fundur hjá RÚV var aftur á móti vel heppnaður. Ég veit betur hvar hver frambjóðandi stendur. Þessi þáttur hefur stoðað mig í því að ákveða mig hvern ég kýs.

Ólafur Ragnar var langorður eins og venjulega. Virkaði frekar óöruggur og var í vörn mest allan tímann. Var greinilega hissa á því að vera krafin um svör (eins og reyndar allir stjórnmálamenn af hans kynslóð). Ég er orðin þreyttur á Ólafi Ragnari. Hann er sundrungartákn í minum huga. Sjálfhverfur og með tilburði sem mér líst barasta ekkert á. Svör hans við útrásar-dekrinu voru aumkunarverð. Það verður aldrei nein sátt um forsetaembættið með Ólaf á Bessastöðum. Hann þrífst best í illindum og hnútukasti. Nokkuð sem verður trauðla túlkað sem ómissandi eiginleiki forseta Íslands. Ólafur mun fá mörg atkvæði fyrir að vera ekki ríkisstjórnin.

… sem þarf að taka til eftir útrásarpartíið hans Ólafs Ragnars….

Ég ætla heldur ekki að kjósa Andreu Ólafsdóttur. Ég vil samt hrósa henni fyrir að varpa fram alveg skýrri mynd af hugmyndum sínum um forsetaembættið. Það er alveg á hreinu fyrir hvað hún stendur. Sú mynd samræmist ekki hugmyndum mínum um æskilega skikkan forsetaembættisins. Ég vil ekki tvöfalt kerfi þegar kemur að löggjafarvaldinu. það veikir þingið til muna, eykur átök og þyngir á öllum málum. Þetta mun ekki verða til þess að þingið vandi sig meira. Þetta verður til þess að það verða 2 bílstjórar á farartækinu.

Mér fannst Hannes Bjarnason glettilega góður. Hannes stekkur eiginlega fram sem fullskapaður stjórnmálamaður (eða hvað á að kalla það) Rökfastur, stuttorður og laus við orðhengilshátt. Akkúrat manngerðin sem ísland skortir svo sárlega þegar kemur að opinberum afskiptum á samfélagsmálum.

Ari Trausti Guðmundsson var skýr í svörum sínum og greindi frá vandamáli sem ég hef verið drjúgur að benda á. Ef að Ólafi Ragnari tekst að sveigja embættið eftir sinni túlkun á stjórnarskránni, mun það þýða sterkan forseta og veikt þing. Stöðug afskipti hans af viðkvæmum stjórnmálum myndu klúðra og eyðileggja þau í meðförum þingsins. Ágætis dæmi um það eru t.d ummæli hans varðandi að setja kvótafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau ummæli hafa nú þegar skemmt málið og sett í uppnám. Ari kom mér fyrir sjónir sem sympatískur maður. Hreinn, beinn og vel máli farinn.

Herdís Þorgeirsdóttir kom vel út á þessum „panel“. Ég stökk upp úr sófanum af eintómri ánægju þegar hún sagði að notkun dómgreindar væri ekki það sama og geðþóttaákvörðun. Margir sjá engan mun á þessu tvennu.

Þóra Arnórsdóttir kom vel fyrir. Hennar mynd á embætti var skýr eins og hjá Andreu. Litur á embættið sem sameiningartákn. Forseta sem lítur á málsskotsréttinn sem neyðarbremsu. Forseta í sama skiliningi og Eldjárn og Finnbogadóttir. Ég tók þátt í spurningapanel á netinu þegar Þóra sat fyrir svörum. það var gaman. Ég spurði tveggja spurninga sem hún svaraði. Sá fundur var allur hinn heimilislegasti. Öðru hvoru sá maður einhvern ganga framhjá, önnum kafin við að hugga smábarn. Svo kom einhver krakki inn og sturtaði úr LEGO kassa og byrjaði að leika sér. Ég tengdi alveg við þetta enda ég tvo „verktaka“ sem halda manni við efnið allan sólarhringinn.

Stundum hefur verið sagt að þessar kosningar séu ómerkilegar og snúist ekki um neitt. Ég er þessu ósammála. Ég held að nýr forseti á Bessastöðum marki alveg ný tímamót fyrir Ísland.

Lokatónninn í hrun-sinfóníunni þarf að fara að heyrast.

Site Footer