BANNAÐ BLOGG

Nokkur umræða hefur farið fram í fjölmiðlum í kringum skrif DoktorsE um sóknarprestinn á Akureyri. Presturinn er sár yfir skrifum Doktorsins eins og gefur að skilja enda skrifin æði persónuleg og rætin. Í sjónvarpinu var svo viðtal í Íslandi í dag við tvo bloggara sem tjáðu sig um málefnið. Ólafur Sindri / Mengella og Sóley ofurbloggari. Viðtalið við þau var frekar slappt en ég hallaðist miklu fremur að málflutningi Ólafs Sindra. Sóley sagðist ekki skilja þá sem skrifa undir dulnefni og taldi að skoðanir sem ekki þora undirskrift ættu ekki vera þess verðar að séu færðar í letur. -Þessu er ég ósammála.

Kosturinn við bloggið er einmitt að allar skoðanir fái rými. Nafnleysi getur verið bráðnauðsynlegt og gott fyrir samfélagið. Sem dæmi má nefna að blaðamenn virða nafnleysi heimildamanna sinna út fyrir gröf og dauða. Afhjúpun nafnleysingjans „Deep Throat“ hratt af stað mesta hneykslismáli á síðari tímum. Annað dæmi, úr íslenskum veruleika er „Litli Landssímamaðurinn“ sem reyndar var afhjúpaður og rekinn úr starfi. Hans gæpur var sá að tilkynna að forstjóri almenningsfyrirtækis lét planta trjám víð sumarbústað sinn á kostnað skattgreiðenda. Nafnlaust blogg er órjúfanlegur hluti af bloggheiminum og algerlega nauðsynlegur. Það má vel hugsa sér einhvern sem fyrir starf sitt eða stöðu í samfélaginu getur ekki komið fram undir nafni en vill endilega blogga um reynsluheiminn sinn. Þarna má fá innsýn inn í afar einlægar færslur og gagnlegar þótt þær séu undir dulu nafnleysis. Á spjallrásum er iðulega notast við dulnefni. Þar skiptist fólk á sögum og reynslu og niðurstaðan er að með blogginu (undir flaggi nafleysis) hefur fólk brotist úr einangrun og tjáð sig við aðra nafnleysingja sem eru í sömu stöðu. Gott dæmi um þetta er afar virk og gagnleg spjallrás fyrir þá sem klást við ófrjósemi. Vefurinn heitir tilvera.is og hefur hjálpað hundruðum Íslendinga ef ekki þúsundum. Flestar færslunar eru undir dulnefni enda er ófrjósemi talin til lasta og þykir hin mesta skömm.

Ég held að Sóley ofurbloggari hafi ekki hugsað máliið til enda því skoðanir hennar eru eins og oft er títt með okkur Íslendinga, að þær fara bara af stað án eins og trukkur sem veit ekkert hvert hann stefnir. Ökumaðurinn er meira upptekinn af því að komast af stað heldur en hvert hann sé að fara.

Hvað varðar nafnlausar árásir eins og Svavar Alfreð varð fyrir barðinu á þá er ég sammála þeim sem halda því fram að svona árásir skaða fyrst og fremst nafnleysingjann. Það er bara vorkunkennanlegt að ausa úr skálum gremju sinnar yfir persónur sem maður þekkir kannski ekki neitt. Listin að vera beittur penni er vandmeðfarinn og sumir hafa hreinlega ekki þá íslenskukunnáttu eða gáfur til að feta það einstigi svo vel sé.

Ég hef samúð með Svavari enda hef ég reynslu af árásum á blogginu. Það var reyndar ekki nafnleysingi sem reyndi að ata mig auri heldur moggabloggari sem skrifaði undir nafni. Ég hafði samband við Árvakur og reyndi að fá þá til að loka blogginu en hafði ekki erindi sem erfiði. Eftir á að hyggja tel ég þá niðurstöðu góða. Ef loka ætti fyrir allar færslur sem teljast móðgandi á einhvern hátt þá væri kjötið farið af beinunum á blogglærinu og lítið eftir nema seiga sinar, feitur mergur og fituslumma á hvítum platta.

Hinu er ekki að neita að á meðan árásum þessa bloggara stóð tók það verulega á taugarnar. Ef ég ætti heilræði til handa Svavari þá segði ég honum bara að fara í sund og gleyma þessu. Eftir þennan hasar mun Svavar standa uppi sem sigurvegari og Doktorinn eins og fávís E-pillu æta, ráðviltur og leitandi að næsta partíi til þess að eyðileggja.

Site Footer