BANKASÝSLUMÁLIÐ TRAPPAÐ UPP

Fyrir viku þá var nýbúið að ráða Pál Magnússon sem forstjóra bankasýslu ríkisins.  Þá var ég búin að skrifa 3 blogg um málið, 3. okt, 4, okt og 5. okt.  Nú veit ég ósköp vel hvernig svona má ganga fyrir sig.  Það verður stormur í smá stund og svo lægir hann.  Síðan birtist mynd í blöðunum af Páli Magnússyni brosandi með einhvern lykil í skráargatinu á Bankasýslu ríkisins.

Ég hef séð þetta hundrað sinnum.

Vitandi þetta sem ég veit um hvernig umræðan hættir til að fjara út í stað þess að blása út, tók ég bara af skarið og hringdi í MMR og keypti af þeim spurningu í næsta „vagn“. Svo heppilega vildi til að vagninn fór af stað daginn eftir.  Spurningin var þessi

„Telur þú að eðlilega hafi verið staðið að ráðningu Páls Magnússonar, bæjarritara Kópavogsbæjar, sem forstjóra Bankasýslu ríkisins?“

Starfmaður MMR orðaði spurninguna fyrir mig og ég passaði mig á að segja engum frá þessu til að spilla ekki niðurstöðunum

Þetta var ekkert ódýrt. Kostar 73.455.-.  Ég borga þetta bara.  Ég nenni ekki lengur að vonast til þess að einhver annar en ég, „fórni sér“ í því að móta samfélagið eftir þeim hugmyndum um eitthvað sem kalla má verðleikasamfélag.  Ef enginn gerir það, þá verður maður bara að gera það sjálfur.  Í rauninni er þetta álíka og að taka upp rusl sem maður sér á götunni.  Það kostar að tilheyra almennilegu samfélagi.

-Svo einfalt er það.

Þetta er smávegis högg á fjárhaginn.  Þetta er svona þriðjungur af því sem ég fæ útborgað í laun.  En ég hefði bara eytt þessu í eitthvað annað.  Svona spurning er alveg eins góð og einhver kaffivél sem ég var að safna mér fyrir en þarf eiginlega ekki neitt.

Hérna eru staðreyndir málsins.

-Ráðinn er sem forstjóri Bankasýslunnar náungi sem uppfyllir ekki skilyrði um menntun og reynslu.  Sú reynsla sem hann hefur öðlaðist hann þegar hann vann í ráðuneyti Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverrisdóttur.  Reynsla sem formaður stjórnar Bankasýslunnar sagðist „horfa framhjá“ einhverra hluta vegna.

-Ráðinn er sem forstjóri Bankasýslunnar náungi sem er innmúraður inn í peningaarm Framsóknarflokksins.

-Ráðinn er sem forstjóri Bankasýslunnar náungi sem beinlínis vann við að koma ríkiseigum í hendurnar á litlu ljótu klíkunum í Framsókn og Sjálfstæðisflokki.

-Í plaggi sem nefnist „eigendastefna ríkisins“ sem varðar fjármálafyrirtæki, er það morgunljóst að ekki skuli blanda saman stjórnmálahagsmunum og peningahagsmunum í fyrirtækjum sem ríkið á hlut í.  Þetta er margoft tekið fram og það er deginum ljósara að stjórn Bankasýslu ríkisins brýtur freklega á þessari eigendastefnu með að ráða sem forstjóra mann sem róttengdur er stjórnamálaflokki. Bauð sig m.a fram fyrir hann árið 2008.

Eigendastefnu ríkisins er beinlínis ætlað að halda úti pólitík frá Bankasýslunni.  Nokkuð sem er í hróplegu ósamræmi við ráðningu Páls Magnússonar.

Fyrsta bloggið mitt vegna þessa máls, skírði ég „Ögurstund ósómans“ og átti við mannaráðningarósómann sem plagað hefur íslenska samfélagið allt frá lýðveldisstofnun.  Ég upplifið þetta mál sem örvæntingarfulla tilraun gömlu valdaklíkunnar til þess að ná aftur vopnum sínum.   Tilraun sem ég ætla að gera mitt besta og ýtrasta til að stöðva þótt með veikum mætti sé.

-Ég ætla allvega að reyna og ég ætla ekki að gleyma.

Nú höfum við séð hvernig peningaarmar stjórnmálaflokkanna starfa.  Það er ágætlega skráð og við vitum hvernig þetta fólk starfar.  Það fara af stað símtöl, það fara af stað fundir og það er kippt í spotta.  Þetta getur ekki hafa farið fram hjá þeim sem unnu í ráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur.  Ég hef heimildir fyrir því að töluvert hafi verið flissað þegar upp var kokkuð, fléttan um að Búnaðarbanki lánaði Landsbankanum fyrir kaupverðinu í Landsbankanum og Landsbanki lánaði Búnaðarbankanum á móti fyrir kaupverðinu í Búnaðarbankanum.

ha ha ha…. Skál strákar.

Já ég er ekki hrifin af þessum hópi.  Ég vildi óska þess að hann sæi sóma sinn í því að hætta að skipta sér að íslensku viðskiptalífi og sér í lagi íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálalífi.  En þar þrýtur bjartsýni mín og hrifnæmi.  Þess hópur kann nefnilega ekki að græða peninga (sem er kjarni og inntak hugmyndafræðinnar) nema undir  verndarvæng ríkisins. Eða með því að sölsa undir sig ríkiseigur og ástunda einokun.

Eftir því sem ég skoða þetta mál nánar verð ég sannfærðari um að pottur sé brotin í Bankasýslunni og að stjórn hennar sé í raun ekki stætt lengur.  Skoðið eigendastefnu ríkisins sem varðar fjármálafyrirtæki.  Bankasýslan virðist hunsa þetta plagg þegar kemur að ráðingu Páls Magnússonar, en beita því fyrir sig þegar Kristján Jóhannson var rekinn.  Ég skrifaði þetta blogg um málið.  Ég tel að þessar upplýsingar sem ég bendi á þarna, eru svo merkilegar að málið hljóti að blása út en ekki fjara út.

-Annað væri stórundarlegt.

En ég keypti sem sagt spurningu í vagni hja MMR og niðurstöðurnar voru að koma rétt í þessu.  Þær eru hér.

-Niðurstaðan er frekar afgerandi.

Site Footer