BANKARÁN Í LANDSBANKANUM?

Í byrjun nóvember sameinuðust risafyrirtækin Visa Europe og Visa Inc þar sem síðarnefnda fyrirtækið keypti upp Visa Europe.   Þetta voru sannkölluð risaviðskipti en þau námu 23,4 miljörðum dollara. Þessi viðskipti höfðu mikil áhrif á Íslandi þar sem tvö fyrirtæki áttu í Visa Europe.

Valitor og Borgun.

Vissulega áttu þessi litlu íslensku greiðslumiðlunarfyrirtæki ekki stóran hlut í Visa Europe en þegar tölurnar eru eins rosalegar og 23,4 miljarðar dollara er jafnvel minnsta flís út þessum sauð þúsunda miljóna króna virði.  Það er ekki vitað nákvæmlega hvað Valitor og Borgun áttu stóran hlut í Visa Europe en í krónum talið hleypur upphæðin á tugum miljarða.

Víkur nú sögunnu til banka allra landsmanna, Landsbankans sem er í 97,9% ríkiseigu.  Landsbankinn sat uppi með allskonar eignir eftir hrunið og við endurræsingu bankakerfisins má segja að „nýi“ Landsbankinn hafi fengið þessar eignir í forgjöf frá ríkinu.  Ríkið átti jú allt heila klabbið, allar eignir og allar skuldir Landsbankans.  Í þessu bloggi verður sjónum beint að eignarhlut Landsbankans í greiðslumiðlunarfyrirtækjunum tveimur sem áður var minnst á, Valitor og Borgun.

LANDSBANKINN1

Hérna sést að LB á í Valitor og Borgun. Þau fyrirtæki eiga síðan ótilgreindan hlut í Visa Europe.  Svo gerist það að Landsbankinn selur þessa hluti.   Fyrst Borgun (21.nóv 2014) og svo Valitor (18.des 2014)  Kaupandi af Valitor hlutnum var Arion-banki og kaupandinn af Borgunarhlutanum voru hópur fjárfesta sem leiddir voru saman af fyrrverandi stjórnendum Borgunar. Þessir fjárfestar hétu Eignarhaldsfélag Borgunar.

LANDSBANKINN2

Svo gerast þau undur að Visa Europe er keypt af Visa Inc fyrir 23,4 miljarða dollara.  Þetta þýðir að nýju eigendurnir hafa heldur betur dottið í lukkupottinn.  Þar sem bæði fyrirtækin áttu smávegis brot í Visa Europe fá þau greitt fyrir eignarhluti sína.

Eða hvað…?

Nei.  Landsbankinn setti klásúlu inn í sölusamninginn við Valitor, þar sem kveðið er á um að ef að Visa Europe verði selt, muni ágóðinn af sölunni EKKI fylgja með í kaupunum. Sem sagt Landsbankinn er að tryggja sig fyrir því að þessi happadrættisvinningur fylgi ekki með í kaupunum.  Hér koma svo undrin og stórmerkin.  Þetta var ekki upp á teningnum hvað varðar hlutinn í Borgun.  þar fylgdi happdrættisvinningurinn með í kaupunum því Landsbankinn tryggði sig EKKI gegn sölunni á Visa Europe.

LANDSBANKINN3

Hérna má sjá að peningarnir frá Visa Inc fara til Borgunar og Valitor en vegna klásúlu í Valitor-samningnum rennur hagnaðurinn af sölunni, ekki til kaupendanna.  Hið gagnstæða er uppi á teningnum í Borgunarviðskiptunum. Í þeim renna miljarðarnir til Borgunar og hinir splunkunýju eigendur 30% hlutarins í því fyrirtæki fá því sannkallaðan happadrættisvinning.

Það er mjög sérkennilegt að það er fyrirvari á Valitor-samningnum um hagnað af hinum yfirvofandi Visa-viðskiptum en EKKI í Borgunarsamningunum.  Sé haft í huga að báðir hlutirnir voru seldir á með 3 vikna millibili, eftir samhliða samningalotur, er eiginlega óskiljanlegt að þessi fyrirvari hafi ekki verið í báðum samningunum.  Samningamenn Landsbankans hafa varla skipt liði og annað séð um Valitor hlutinn og hinn Borgunarhlutinn – og ekki borið saman bækur sínar!

Samkvæmt frétt í Kjarnanum vissu samningamenn Landsbankans af fyrirhuguðum risaviðskiptum milli stóru Visa fyritækjanna.  Þeir vörðu sig gagnvart tapi í Valitor-samningunum en ekki í Borgunarsamningunum.

Í fréttum á RÚV í dag kom undarleg frétt þar sem forsvarsmenn Borgunar segjast sjálfir ekki hafa vitað af fyrirhuguðum risaviðskiptum milli Visa Europe og Visa Inc og til að ljá sögu sína trúverðugleika segist Haukur Oddson (forsvarsmaður Eignarhaldsfélags Borgunar) hafa selt hlut úr Borgun án þess að hafa fyrirvara á mögulegum hagnaði af risaviðskiptunum.  Þetta sannar ekki neitt og segir ekki neitt.  Í raun kemur engum við hvað eignendur Borgunar gefa við hlutina sína eftir að þeir keyptu 30% hlutinn úr Landsbankanum.  Þetta kemur málinu ekkert við en í framhjáhlaupi má geta þess að Haukur Oddson og aðrir fyrrverandi stjórnendur í Borgun (meðan það var í eigu Landsbankans) vissu alveg örugglega af yfirvofandi viðskiptum með Visa Europe. Annað er nánat útilokað enda höfðu þessi viðskipti verið lengi í deiglunni og nokkar tilkynningar farið frá Visa Inc um áhuga fyritækisins á að kaupa Visa Europe.

Moðreykur um hvað gerðist eftir að Landsbankinn seldi hlutinn sinn í Borgun, er ekki „relevant“ eins og stundum er sagt.   Fókusinn ætti að vera á þeirri furðulegu ráðstöfun Landsbankans að selja Borgunarhlutinn án þess að  hafa fyrirvara á mögulegum söluhagnaði af Visa Europe.

Þar liggur hnífurinn í kúnni.

Þessi „viðskipti“ með hlutafé í Borgun eru mjög ámælisverð.  Í fyrsta lagi átti ríkisjóður þennan verðmæta hlut og alls ekkert óeðlilegt að gera þá kröfu til stjórnenda Landsbankans að huga að hagsmunum eigenda sinna.  það virðist ekki hafa verið gert og óþægilegar spuringar vakna upp um hvaða hagsmuni stjórnendur Landsbankans hafi verið að verja í þessum viðskiptum.  Sé höfð í huga sú ofuráhersla Landsbankans að selja hlutinn í Borgun einum tilteknum aðila ætti öllum sæmilega skiljandi að vera ljóst að þessi gjörningur á meira skylt við bankarán en bankastarfsemi.

1 comments On BANKARÁN Í LANDSBANKANUM?

  • Í gegnum þessi tvö fyrirtæki átti Landsbankinn síðan 100% eignarhlut í Visa Europe (70+30). Ekki veit ég hvert sameiginlegt verðmæti þessara hluta er en það hleypur örugglega á tugum milljarða íslenskra króna (nokkura milljóna evra).

Comments are closed.

Site Footer