AUGLJÓST DAÐUR

Eiríkur Bergmann dósent við Bifröst skrifaði ágætis hugleiðingar í blað sem heitir Fréttatíminn.  Þetta var ekki hefðbundin grein, heldur 4 litlar greinar sem fjölluðu allar um þjóðernisstefnu og hvernig hún birtist í stjórnmálum Evrópu og á Íslandi.  Greinina alla er hægt að sjá hérna.

Einn dálkurinn fór mikið fyrir brjóstið á Framsóknarfólki.  Hann hafði fyrirsögnina „Þjóðleg gildi og andstaða við innflytjendur“.  Þennan dálk má sjá hérna.  Það sem athygli vekur við þessa litlu grein Eiríks Bergmanns, er að lítill hluti hennar fjallar um Framsóknarflokkinn.  Mér sýnist í fljótu bragði að í þessari litlu grein, sé Framsóknarflokknum gefin gaumur sem svarar 20% af heildarefninu.

Alls er um að ræða 4 setningar.

Framsóknarflokkurinn fór af límingunum vegna þessara setninga.  Allir þingmenn flokksins skrifuðu undir einhverja yfirlýsingu.  Lengst gekk Vigdís Hauksdóttir og krafðist þess að Eiríkur Bergmann yrði rekin úr starfi sem lektor á Bifröst.

Það er alveg ferlega spélegt.

Greinin fjallaði öðru fremur um tilhneigingar til fasískra tilburða, og svarið gegn greininni, er sannarlega í anda þessara sömu fasísku tilburða.  Það er síðan alger „partí-bónus“ á þennan snúning, að Vigdís sjálf, segist hafa verið rekin úr starfi hjá ASÍ vegna stjórnmálaskoðana, og ber sig aumleg í hvert skipti. Nú vill hún að sömu meðölum verði beitt á annað fólk.

-En þetta var útúrdúr.  Þetta mál er ekkert eiginlega ekkert spaugilegt.

Ég held að enginn sem fylgist eitthvað með stjórnmálum, geti neitað hugleiðingum Eiríks um þjóðernistilburði Framsóknarflokksins.  Eiríkur fer nú eiginlega ofur-varlega í þá sálma og segir Framsóknarflokkinn, „eilítið farið að daðra við þjóðernisstefnuna“.  Ég er ósammála Eiríki þarna og tel að einfaldar staðreyndir liggi fyrir um hreina og beina þjóðernis eða þjóðrembu tilhneigingu hjá Framsóknarflokknum.

Ég held reyndar að formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð hafi brotið blað stjórnmálasögunni með því að poppa upp þjóðernisstefnuna og ljá henni einskonar hallærisgildi eins og raunin er.  Gera hana að einskonar stuðmannaprjójekti með glímusýningu og fleirum „þjóðlegum“ minnum.  Ég veit ekki til þess að kitch-þjóðernistefna hafi skotið rótum annarsstaðar.  Síðasti landsfundur Framsóknarflokksins var beinlínis ákall til gærdagsins og hinna „gömlu góðu gilda“.

En besta og skýrasta dæmi um þjóðernishyggju í Framsóknarflokknum er að finna í skrifum Vigdísar Hauksdóttur sjálfrar.  Hún ritaði á dögunum alveg makalausa grein sem varð tilefni þessa bloggs hérna sem fékk met-aðsókn.

Lesið þetta og spyrjið ykkur hvort Vigdís sé að „daðra“ við þjóðernishyggju.

Mér er til efs að skýrari texti um þjóðernishyggju sé að finna í síðari tíma stjórnmálasögu á Íslandi.  Þarna er að finna öll minni þjóðernisstefnunnar.  Hugmyndina um sameiginlegan óvin og einhverja ögurstund, blandaða saman við ranghugmyndir um eigin uppruna og sögu.  þarna er meir að segja að finna goðsöguna um rítingsstunguna.   Vigdís Hauksdóttir hefur í skrifum sínum endur-skilgreint landslag stjórnmálanna uppá nýtt og í staðin fyrir „hægri“ og „vinstri“, eru nú bara „kratar“ og „ekki-kratar“.  Þetta er líka dæmigert fyrir þjóðernislæga orðræðu.  Ofureinfaldanir, með eða á móti, svart eða hvítt.

Þjóðernisstefna Framsóknarflokksins tekur á sig mjög furðulegar myndir og eru greinilega hannaðar með það að leiðarljósi gera Framsóknarflokkinn krúttlegan, pínu sérviskulegan og sniðugan flokk fyrir þá sem finna sig í ættjarðarpælingum.  „Íslenski kúrinn“ sem formaður Framsóknarflokksins er víst í, er frábært dæmi um þetta.  Þar er gengið út frá því að íslenskur matur sé hollasti matur í heiminum.  Inntakið er svolítið sniðugt og einkennist af sérviskulegum hroka sem mörgum finnst fyndinn.  En birtingarmyndirnar eru ekki allar á þessu plani.  Sigmundur beindi sjónum sínum að glæpamönnum sem störfuðu á Íslandi, en bara þeim sem ekki voru fæddir á Íslandi.  Sem er nokkuð spéleg staðreynd.  Ég held að fórnarlömbum glæpamanna sé slétt sama um
hvers lenskir andskotar þeirra séu.  Sigmundur varaði við erlendri fjárfestingu.  Nokkuð sem stakk í stúf, því stuttu síðar skammaði hann ríkisstjórnina fyrir að hamla erlendri fjárfestingu. Einhverju Framsóknarfólki blöskraði og ályktaði gegn þessari þjóðrembu.  Reyndar má segja Sigmundi til varna að hann byrjaði ekkert á þessu.  Jón Sigurðsson reyndi að pakka þjóðernishyggjudaðrinu í eitthvað sem hann kallaði „þjóðhyggju“.

Þetta daður við þjóðernisstefnuna (sem er mjög lýsandi orðalag um fyrirbærið og vel til fundið hjá Bergmann) er staðreynd og það er enginn vandi, og í raun leikur einn, að finna dæmi um þjóðernistilhneigingar í Framsóknarflokknum.

Það er ekki rétt sem Egill Helgason segir að Bergmann hafi gengið of langt í skilgreiningu sinni á Framsóknarflokknum.   Agli förlast í þessu máli og ég bendi honum á að
lesa þessa grein Vigdísar Hauksdóttur (sem birtist líka í Mogganum) og halda því síðan fram að enga þjóðernishyggju sé að finna í Framsókn.

Það þýðir trauðla að mótmæla þessu og Framsóknarfólk, hversu góðgjarnt það er og velmeinandi. Höfðinu verður ekki stungið í steininn og ekki er hægt að afgreiða gagnrýnisraddir sem grjótkast úr grjóthúsi.

Þjóðernisdaður Framsóknarflokksins er einfaldlega staðreynd.

Site Footer