ANDSTYGGILEG GIRÐING LÖGUÐ

Það er gaman að bera saman fréttirnar í Svíþjóð og á Íslandi.  Áður en lengra er haldið ber að geta þess að ég skoða DV.is og Visi.is á hverjum degi og renni í gegnum helstu bloggin á blogggáttinni.  Ég fylgist því all-vel með.

Þó að samfélagið á Íslandi og það sænska sé svona 95% eins, er mismunur sem alltaf er gaman að rýna í.  Það getur t.d birst í viðmóti fólks, sérkennum og ekki síst viðbrögðum við stjórnsýslunni.

Ég man að fyrir nokkrum mánuðum voru tíðar fréttir af einhverri stórhættulegri girðingu i Hafnarfirði.  Börn og fullorðnir stórslösuðu sig á því að príla yfir girðinguna. Girðingin var úr járni en andstyggilegir nabbar sköguðu upp úr gerðinu.   Einn kall beinlínis sleit af sér baugfingur þegar hann stökk yfir gerðið.  Krakki reif á sig djúpan og langan skurð sem náði frá olnboga að úlnlið.  Það var kvartað, málið kom í blöðin (DV auðvitað) en lítið varð úr viðbrögðum frá sveitarfélaginu(síðast þegar ég vissi).

Sennilega hefur fólk haldið að þar sem þetta er girðing, og hún er einmitt til þess að hindra fólk í að fara einhverja ákveðna leið, hafi það dugað til að draga slagkraftinn úr kvörtunarefninu.  En þetta er auðvitað firra. Krakkar og fullorðnir príla yfir girðingar, þótt það eigi ekki að gera.  Það liggur í eðli málsins.

Um svipað leiti tendraði ég á íslenska útvarpinu og heyrði bálreiða konu í hverfinu þar sem hættulega griðingin er, skammast í hvívetna yfir þessari slysagildru ( sem er fullkomið orð yfir fyrirbærið).  Hún endaði símtalið á því að segja að „það liggur við að maður fari bara sjálf og sagi niður þessa nabba sem eru svo hættulegir“.  Ég væri reyndar fyrir löngu búin að gera akkúrat þetta ef ég byggi i þessu hverfi.  Fólk ber ábyrgð á umhverfi sínu og ekki alltaf hægt að benda á einhvern annan þegar eitthvað bjátar ár.

Þetta er ekki sér-íslenskt vandamál.  Sama týpa af grindverkum eru algeng hér í Gautaborg.  Í gær  birtist á forsíðu GP mynd af Valentínó 5 ára, ásamt foreldrum sínum.  Valentínó litli hafði skorist illa á hálsi við að príla á svona grindverki.  Þetta varð sem sagt forsíðufrétt og heil opna tileinkuð þessari slysagildru.

Semsagt:  Sama vandamál í Gautaborg og á höfuðborgarsvæðinu.

Í morgun þegar GP kom inn um lúguna var fjallað um slysagildruna á blaðsíðu 7.  Málinu var ekki lokið þótt að það sæist sannarlega fyrir endann á því.

Fyrirsögin: Hér eru 2000 hættulegir nabbar sagaðir niður

 

Nú verð ég að slá varnagla.  Mér er ekki kunnugt um að slysagildran í Hafnarfirði hafi verið löguð.  Ef svo er, þá á þetta blogg ekkert endilega við, nema þá svona baksýnis-spegils mál.  Það sem ég veit er að þarna urðu alvarleg slys og það var kvartað án þess að nokkuð gerðist.  Kannski er búið að laga þetta og því ber þá að sjálfsögðu að fagna.

Punkturinn í þessu bloggi hjá mér er ekki að skammast í sveitarfélögin á höfðuðborgarsvæðinu, heldur að mæra samspil fjölmiðla, almennings og stjórnsýslunnar.  GP birti frétt af slysagildru og það var strax brugðist við.  það var ekkert verið að spá í lögfræði. Ekkert verið að spá í móralíseringu um að fólk ætti ekkert að príla yfir girðingar og ekkert horft í kostnað eða tímatöflu verktaka og óunnayfirvinnu sem væri að klárast.

-Það var bara gengið í málið.

Site Footer