TRÓPÍ OG MINUTE MAID ER SAMI DRYKKURINN

Ég er áhugamanneskja um ávaxtasafa.  Mér þykja þeir bragðgóðir og mér er sagt að þeir séu hollir ef neysla þeirra sé innan skynsemismarka.  Ég á mér engann uppáhaldssafa – þannig séð – en fátt jafnast á við nýpressaðan appelsínusafa. Slíkir fást t.d í Hagkaup út á Seltjarnarnesi og sennilega víðar.

Ég held að margar fjölskyldur kaupi reglulega inn svona safa.  Ég skrifaði einu sinni blogg um appelsínusafa og mér til undrunar kom í ljós að heimur appelsínusafans er afar áhugaverður.

Þegar Costco opnaði var hægt að kaupa allskonar djúsa á góðu verði.  Ég bragðaði nokkra þeirra og þeir voru allir ágætir. Sumir voru reyndar betri en aðrir. Þar sem ég kann að lesa innihaldslýsingar á matvörum sá ég að sumt er bara djús eins og maður blandar sjálfur.  Ávaxtaþykkni sem er búið að blanda.  Það er ekkert sérstaklega sniðug innkaup. Þá er bara betra að kaupa þykkni.

-Sparar peninga og pláss.

Bryndís mín er frekar vanaföst. Fær sér alltaf hafragraut á morgnanna og eitt glas af appelsínudjúsi. Alltaf Trópí þangað til við prófuðum eitthvað djús í Costco.  Um daginn vantaði djús og ég fór út í Iceland og þar blasti við mér heill veggur af djúsum.

Ég sveif á Trópi-hilluna og var alveg reiðubúinn að taka girnilegan safann og færa í körfuna, en sá því miður við jaðar sjónsviðsins aðra sort, Minute Maid.

Forvitni ég fór að lesa innihaldslýsinguna.  Þetta reyndist nánast alveg eins og Trópí-ið.  Ég keypti báðar fernurnar enda nennti ég ekki að fá þetta á heilann.  Þegar heim var komið bar ég þetta saman.  Það er smávegis munur á kalóríum en annars enginn.

Munurinn var fyrst og fremst í því að Trópísafinn kostaði 249 krónur  en Minute Maid kostaði 149 krónur  – Það er 40% munur.

Ég tók því skrefið til fulls og gerði einskonar Pepsi challenge á heimilisfólkinu.  Niðurstaðan var eiginlega sú að báðir safarnir fengu sömu einkunn.  Allir sammála um að bragðið væri eiginlega það sama.  Bryndís féll á prófinu og sagði Minute Maid vera aðeins betri.  Nokkuð sem er sérkennilegt því manneskjan hefur drukkið hundruð lítra af Trópí í gegnum tíðina.  Hún sagði þó vera afar lítinn mun á þessum söfum.

Gott og vel.  Nú kaupi ég Minute Maid héðan í frá. 40% verðmunur er of mikill til að afsaka hina „íslensku“ framleiðslu.

Svo fór ég að undirbúa þetta blogg. Las mér aðeins til.  Rifjaði upp gamla bloggið og googlaði Minute Maid sem bragðast eins og Trópí en er 40% ódýrara.  Það kom skemmtilega á óvart.

Minute Maid er risafyrirtæki og hluti  af Coca Cola Company síðan 1960.  Minute Maid er selt undir öðrum nöfnum í öðrum löndum.  Minute Maid heitir Cappy í Mið-Evrópu og Fruktopia í Noregi.  Það heitir De Valle í Kólumbíu og Frugos í Paraguay.

Og á Íslandi heitir Minute Maid. . .

. . . .Trópí.

 

 

Þannig að….

Sama djúsið kostar 149 krónur umbúðum frá Minute Maid en 249 krónur í umbúðum frá Trópí.

 

 

5 comments On TRÓPÍ OG MINUTE MAID ER SAMI DRYKKURINN

  • Stóri munurinn er líklega sá að það er íslenskt vatn í Trópí en margsíað erlent vatn í Minute maid ?

  • Margsíad vatn eda innflutt vatn ætti í raun ad kosta landann meiri pening thannig ad thad væri léleg afsökun fyrir verd mismun finnst mér. Thetta er business og grædgi en gott ad einhver tók eftir thessu!

  • Bara svona til ad bæta vid en thá nær Ísland ekki einusinni inn á topp 10 listan hvad vardar krana vatn. Íslendigar eru stoltir af vatninu sínu og kannski einum of thví ég aldist upp eins og margir adrir med theirri hugsun ad íslanska vatnid væri best, en thad er bara einfaldlega rangt. Sviss er med hreinasta vatnid ad mati flestra sérfrædinga og flest önnur nordurlönd eins og Noregur, Svíthjód, Danmörk, Russland, Grænland og fleiri lönd eru med hreinna vatn. VILL TAKA THAD FRAM AD NÚ ER ÉG EINUNGIS AD TALA UM KRANA VATN en ekki thad vat sem má finna í íslenskri náttúru (Sviss og nokkur önnur lönd eru samt sem ádur med betri vatn en á Íslandi bædi á krana og í náttúrunni)

  • Íslendingar eru bara svo vitlausir að halda það að ef þeir kaupa allan safa í Costco að þá sé hægt að halda áfram að framleiða íslenskan safa sem ekki selst. Ef þú kaupir erlenda vöru í miklu magni þá hættir framleiðsla á innlendri vöru þar sem hún selst ekki, óháð verði…
    En svo á fólk auðvitað að hætta þessari safadrykkju, nánast jafn óhollt og gosdrykkir.

  • Appelsína er allveg eins og á bragðið og hin appelsínan…. Auðvitað er þetta sami drykkurinn, annað er framleitt hér og hitt er framleitt þarna. Ekki helt hann að það væri önnur tegund af appelsínu í Tropí? WTF

Comments are closed.

Site Footer