Ali Ismaeel Abbas

Ég var spurður að því í gær hvort ég væri með Framsóknarflokkinn á heilanum. Tilefnið var bloggfærsla þar sem ég benti á að Framsóknarflokkurinn telur sig eiga rétt á einhverju herbergi í Alþingishúsinu umfram aðra flokka.

Ég velti vöngum yfir þessari athugasemd í nokkurn tíma og komst að því að ég er með Framsóknarflokkinn á heilanum. Ástæðurnar hefði ég geta dregið saman í heila bók því af nógu er að taka hvað varðar spillingu, kjördæmapot og einkavinavæðingu þessa stjórnmálaflokks en það var ljósmynd sem er þess valdandi að ég er með Framsóknarflokkinn á heilanum.

Myndin af Ali Ismaeel Abbas.

Þegar Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þá lýstu þeir kumpánar, Halldór og Davíð yfir stuðningi við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Stuðningur sem var allt í senn ólöglegur, huglaus og gegn vilja stórs meirihluta þjóðarinnar. Stuðningurinn var grundvallaður á því að með honum væir kannski möguleiki til að fá Bandaríkjamenn til þess að hætta við að fara frá Keflavík. Þessi ólöglegi stuðiningur Íslands við stríðið í Írak er samkvæmt nýlegri könnun sem forsætisráðuneytið lét gera sá atburður sem í huga Íslendinga framakallar mesta skömm fyrir þjóðerni okkar. En nóg um það.

Þegar svo sprengjurnar byrjuðuð að falla og flugskeytin skutust inn um eldhúsgluggana í Bagdad birtust myndir af uppskerunni. Myndir af ávöxtum „frelsisins“. Þar á meðal var myndin af Ali. Mynd sem greypt er í huga mér og verður það þar til ég dey. Mynd sem öskrar á mig og dregur mig sem Íslending til ábyrgðar. Þetta var jú gert í nafni „hinna staðföstu“. Okkar Íslendinga. Takk Halldór Ásgrímsson. -Takk Framsóknarflokkur.

Þessi hræðilega mynd fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina og vakti hvarvetna upp reiðibylgju og hneykslan. Eitthvað virðist þessi mynd hafa hreyft við „klettinum“ Halldóri Ásgrímssyni því fréttir bárust af því í fjölmiðlum á Íslandi að hann væri að kanna hvort ekki væri hægt að íslenska ríkið keypti handa honum Ali nýjar hendur. Fjölmiðlar tóku ekki eftir þeim hræðilega tvískinnungi sem fólust í þessari tillögu, að drepa fjölskyldu 12 ára drengs og limlesta hann fyrir lífstíð en reyna svo að sópa yfir syndirnar með því að kaupa handa honum gerfihendur frá Össuri (og fá fína landkynningu fyrir vikið). Ég var pistlahöfundur á DV á þessum tíma og skrifaði grein um Ali. Grein sem vakti ekki upp nein viðbrögð. Ég hefði átt að gera eitthvað meira.

Ég sé mikið eftir því.

Það var í eldhúsinu hjá mömmu sem sagan um Ali umhverfði mig einhvernvegin. Ég stóð við eldhúsborðið, hélt á kafffibolla og við mamma ræddum þessa mynd. Rómur okkar hækkaði eftir því sem reiðin jókst uns mamma leit í gaupnir sér og byrjaði að gráta. Hún stóð síðan skjálfandi upp og tók utan um mig, faðmaði mig og sagði brostinni röddu; „heimurinn er svo ljótur -Svo ljótur“.

Hún helt utan um mig og ég utan um hana með kaffibollann í annari hendi. það hefði verið svolítið skrýtið að leggja frá mér bollann við þessar aðstæður. Ég grét líka en ekki með tárum. Það komu högl í stað tára.

Ali Ismaeel Abbas er sem sagt aðal ástæðan fyrir því að ég er með Framsóknarflokkinn á heilanum. Ástæðan er hugleysi, heimska og smekkleysi Halldórs Ásgrímssonar og sú ógeðslega hugmynd að kaupa handa honum nýjar hendur eftir að hafa stutt stríð sem myrti foreldra hans, systkin og skildi hann eftir limlestan fyrir lífstíð.

Já svei mér þá. Ég er með Framsóknarflokkinn á heilanum og get ekki annað.

4 comments On Ali Ismaeel Abbas

  • Teitur er besti bloggari landsins!

    Afköstin, heiðarleikinn, hispursleysið og breiddin (allt frá skopsögum, persónulegum smásögum, umfjöllunum um Beyonce, hárbeittri þjóðfélagsrýni, stjórnmálagreiningu, spillingarvaktinni, innblásinni orðræðugreiningu, fróðleiksmolum og glensi að tilfinningaþrungnum upphrópunum og svona þörfum áminningum) gera hann, að mínu mati, að besta bloggara landsins um þessar mundir.

  • Skemmtilegt hvernig Davíð sleppur algjörlega rétt eins og hann hafi hvergi komið nálægt þessari skelfilegu ákvörðun. Annar reyndi að bæta fyrir mistök sín hinn ekki en Teitur fær bara side-kickið á heilann.

  • Ágæti Nafnlaus. Ég ritaði þessa færslu vegna þess að ég fékk spurningu um hvort ég væri með Framsókn á heilanum. Þetta var svarið við þeirri spurningu.

    Auðvitað á Davíð meiri þátt í þessum hroða en Halldór. En Halldór sýndi fram á hugleysi sem er allt að því takmarkalaust með því að spila með Davíð í þessu máli.

    Ég vona að þetta mál verði gert upp áður en þessir tveir gefa upp öndina svo hægt sé að yfirheyra þá og reyna að fá púslin til að passa saman. Svo vil ég líka að það verði smíðað opinbert minnismerki um þessa ákvörðun Davíðs og Halldórs þarsem skömm þeirra verður í opinber fyrir komandi kynlslóðir Íslendinga og áminnning fyrir stjórnmálamenn landsins í framtíð og fortíð.

Comments are closed.

Site Footer