Afstaðan til ESB.

Ég hef mikið velt því fyrir mér hversvegna sumir styðja inngöngu inn í ESB og sumir eru algerlega á móti því. Ég hef ekki heyrt nein alvöru* rök fyrir því að standa fyrir utan ESB en rök þeirra sem vilja inngöngu eru góð og sterk.

Nú ætla ég að gefa mér það að andstæðingar ESB (á þingi) séu meðalsnotur og engir fábjánar. Þau hjóta því að sjá að við málstað þeirra blasa við veik rök. -En samt, ég endurtek: En samt, eru þau á móti ESB.

Hvað er það sem veldur þesssari afstöðu? Er það popúlismi? -Varla. Er það þjóðernishyggja. -Gæti verið. Er það ótti við útlendinga sem mögulega á rætur í nýfengnu sjálfstæði þjóðarinnar? -Sennilega.

Afstaðan gegn ESB er s.s byggð á ótta ef þessi aðleiðsla hjá mér er rétt.

Takið eftir ágætu lesendur, að rökin gegn ESB eru óttarök. „Við verðum gleypt“ og þvaðrið um „fullveldisafsal“ eru greinar af þessum (ótta)meiði.

Bara svona til að minna fullveldis-afsals-galarana á staðreyndir málsins þá er fullveldi Íslands í dag í skúffu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Svo er þetta hugtak meira og minna gallað. Hugsanlega átti það við einhverntíman á 19. öld en alls ekki í dag. Þegar Svíar stóðu fyrir utan ESB á síðarihluta liðinnar aldar, var gerð einhverskonar árás á sænsku krónuna frá risastórum vogunarsjóðum. Afleiðingin var að sænska krónan hrundi. Hvar var fullveldi Svíþjóðar þá? Þeir réðu ekkert um framvinduna sem felldi krónuna þeirra. Það var meir og segja ekki neitt ríki sem „réðst“ á það heldur alþjóðleg fyriræki.

Þó að mér þyki rök ESB andstæðinga vera veik og málstaðurinn slakur, þá er það eitt í málflutningi þeirra sem veldur þvi að ég fæ svima og roða á bringu og innanverð lærin af eitómri undrun. Það er sú staðreynd að þessir nei-arar vilja heldur ekki einusinni að talað sé við ESB ti að fá úr því skorið hvað sé í boði. Hvað þá að þjóðin, meirihlutinn fái að hafa eitthvað að segja í því máli.

-Þetta er freklegur yfirgangur og á ekki að líðast.

Það hinsvegar, varpar ljósi á hve alvarlegum augum nei-arar líta á ESB. innganga eða viðræður ESB er í þeirra augum álíka og að Ísland fari aftur undir Danakonung. Þetta ættu þeir sem eru hlynntir inngöngu eða viðræðum við ESB að hafa í huga. Nei-arar líta á samstarf við ESB, hvað þá inngöngu sem samning við andskotann. -Og ömmu hans.

Ég er þess fullviss (og ætla í raun að rannsaka það) að nei-arar í röðum þingmanna eru fólk sem ekki hefur dvalið erlendis að neinu marki og að já-arar séu þvert á móti fólk sem búið hefur í útlöndum og á þá á ég við löndum ESB.

Ég er búsettur í ESB landi og fullyrði að Svíar eru ekkert með hugann við ESB þegar þeir vakna á morgnana. Þetta er bara SAMNINGUR sem landið gerði við önnur lönd. SAMNINGUR sem Svíar telja sig hag sínum betur borgið en að standa utan hans. Fullveldis-afsals-kórinn litur á þennan samning einhverjum öðrum augum. Sumir vita reyndar betur en ástunda hagsmunagæslu fyrir LÍÚ (Sjálfstæðisflokkur) meðan aðrir (VG) beita fyrst og fremst fyrir sig tilfinningarökum. Rökum sem ekki eru reist á neinu nema ótta við útlönd og reynslu- og samskiptaleysi við fólk af erlendu bergi

-o-o-o-

*Sjálfur menntamálaráðherra landsins, Katrín Jakobsdóttir nefnir dýraníð og það að jafnréttisbarátta ESB landa (fyrir utan Norðurlöndin) gangi hægt og „lýðræðishalla“ sem ég veit ekki hvað þýðir. Meira um það hér og hér og hér.

28 comments On Afstaðan til ESB.

 • Ég er sammála því að lang flestir þeir sem eru gagngert gegn ESB eða jafnvel því að sækja um aðild til að sjá hvað málið snýst raunverulega um eru einstaklingar sem aldrei hafa unnið, lifað, brauðfætt sig, elskað, grátið eða upplifað nokkuð slíkt á meginlandi Evrópu.

  Í stuttu máli, fólk sem aldrei hefur LIFAÐ í Evrópu.

  Sumir nei-ara hafa sótt nám þangað í skemri tíma, sumir hafa djúsað þar í sólarlandaferðum.

  Fæstir, ef nokkur þeirra, hefur lifað þar. Þá fyrst þegar það er gert rennur upp fyrir hverjum sem er að hagsmunir okkar eru sameiginlegir. Virðing er áunninn, henni ekki úthlutað.

  Það er ekkert að óttast. Það er líklega rétt að ekki sé hægt að segja að þjóðir séu vinir og síst af öllu Evrópuþjóðirnar með sínum árþúsunda erjum.

  En ég tel það vera góð nálgun að segja að þjóðir Evrópu séu systkin.

  Það er ekkert að óttast.

 • Sæll Teitur.

  Strax í fyrstu setningu gefur þú tóninn: „Engin alvöru rök fyrir því að standa fyrir utan ESB en rök þeirra sem eru með inngöngu eru góð og sterk“

  Skoðun þín er kvitt og klár. Segir að menn sem eru á móti ESB hafi ekki annað en óttarök, þó þeir séu ekki fábjánar, andstaðan skýrist af þjóðernishyggju eða ótta við útlendinga og talar um þvaðrið umfullveldisafsal. Lýsir síðan svima og roða á bringu og lærum af undrun einni.

  Hversu miklar líkur eru á að maður sem þannig skrifar sé tilbúinn að íhuga rök þeirra sem ekki eru honum sammála? Ekki bara slá þau útaf borðinu sem hræðsluáróður, heldur hlusta, skoða og íhuga. Dæma svo.

  Hversu vel eru menn yfir höfuð tilbúnir að skoða málin? Kafa dýpra.

  Það er t.d. þreytandi hvernig aftur og aftur er snúið útúr ef talað er um að missa „formleg yfirráð“ eða „rétt til löggjafar“ í auðlindamálum. Þá er látið eins og maður haldi því fram að hingað komi vondir útlendingar og hirði af okkur auðlindirnar. Hrópi; við verðum gleypt! Þegar menn vilja ekki sjá muninn á þessu tvennu þjónar litlum tilgangi að reyna að halda uppi málefnalegri umræðu. Sér í lagi þegar hún tengist fullveldinu, þá verða sumir rauðir á lærunum. Innanverðum.

  Evrópusambandið er fínt að mörgu leyti. Framlag þess til friðar í Evrópu er mikilsvert og ýmsum málum verið breytt til bóta. En það er ekki þar með sagt að Ísland passi þarna inn.

  Þar er svo sannarlega tilefni til að menn fari í málefnaleg og æsingalaus skoðanaskipti (ekki hanaslag) um málið. Við lestur færslu þinnar fæ ég á tilfinninguna að þú sér ekki tilbúinn að gefa kost á því.

 • Síðast þegar þú skrifaðir efnislega þessa sömu færslu, þá benti ég á það atriði sem mér persónulega hugnast verst við ESB. Það eru þau atriði Lissabonsáttmálans sem snúa að sameiginlegu utanríkis- og hermálastefnunni.

  Lissabonsáttmálinn gerir klárlega ráð fyrir því að yfirstjórn ESB geti gert bandalagið að stríðsaðila á sama hátt og Íslendingar urðu með stuðningnum við innrásina í Írak 2003.

  Mér fannst það ömurlegt þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra gátu gert Ísland að stuðningsaðila stríðsreksturs án þess að hafa einu sinni fyrir því að spyrja þingið. Á sama hátt þætti mér það ömurlegt ef Solana, Blair eða hverjir það verða sem gegna munu leiðtogaembættum ESB geta gert okkur að stuðningsaðilum stríðs á sama hátt.

  Eru þetta nógu mikil „alvöru“ rök fyrir þig?

  Eða eru öll önnur rök en þau sem snúa að lægra verði á kjúklingum og breytingum á vaxtafyrirkomulagi bara bara „tilfinningarök“ og fyrirsláttur?

 • Hverja telur Teitur vera hina óumdeildu kosti ESB-aðildar fyrir Ísland? Ég man í fljótu bragði ekki eftir neinum kosti sem stenst skoðun.

 • Mín skoðun er að Ísland eigi heima meðal þjóða Evrópu. Félagslega, menningarlega, sögulega eigum við þar heima. Þess vegna eigum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef góður samningur næst.

  ESB er samstarfsvettvangur þjóða Evrópu. Við eigum, að mínum dómi, að verða þar fullgildir aðilar.

  Í gangi er heimskulegur hræðsluáróður, mestan part frá sama fólki sem barðist með oddi og egg gegn þáttöku okkar í EFTA og Evrópska Efnahagssvæðinu. Það eina sem gerist við inngöngu í ESB og upptöku Evru er að kjör alls almennings taka hægt og sígandi að batna og verða stöðugri og réttindi neytenda og launafólks aukast. Auk þess fáum við betra verð fyrir útflutningsafurðir okkar. Yfir 70% af útflutningi okkar er til ESB landa.

  Með umsókn horfum við til framtíðar. Efnahagslega séð er upptaka € ásamt inngöngu í ESB eina raunhæfa lausnin. Engin önnur lausn hefur staðist umræðu eða nánari skoðun, ENGIN.

  AH

 • Ágæti Nafnlaus. Af hverju ætti ekki að „passa“ fyrir Ísland að ganga í ESB?

  Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir aðildarviðræður sem LÍÚ og VG berjast svo hatramlega gegn!

  Það er ekki fyrr en eftir að inngöngutillaga hefur komið fram að unnt sé að sjá hvort aðild „passi“ okkur.

  Það er þetta sem er svo óþolandi við umræðuna. Hún fær ekki að klárast.

  -Viss öfl og voldug hafa séð fyrir því.

 • Öfgafólk til hægri og vinstri hamast mjög gegn Evrópusambandinu. Einangrunar- og forsjárhyggjan sameinar það, einnig svipuð viðhorf til efnahags- og gjaldmiðilsmála.

  Reynir K.

 • Enn og aftur heldur þú áfram og gerir þeim sem eru ósammála þér upp skoðanir.
  Fyrir það fyrsta og ég held að þetta hljóti að hafa einhvers staðar komið fram á blogginu hjá þér þá var Katrín ekki spurð hver hún taldi vera sterkustu rökin gegn ESB aðild heldur hvað hún meinti með því þegar hún segði að margir innan flokks teldu að ýmislegt innan ESB væri andstætt stefnu flokksins.

  Hún nefndi meðal annars lýðræðismál, eitt og annað sem tengist félagslegum réttindum og sjálfbæra þróun (og taktu eftir, hún minntist á illa meðferð á dýrum sem dæmi um eitthvað sem viðgengst í alltof stórum mæli innan ESB og er dæmi um eitthvað sem er andstætt stefnu græningja um sjálfbæra þróun. Ólíkt fáránlegum útúrsnúningi þínum talaði hún ekki um dýraníð sem sterk rök gegn aðild að ESB heldur illa meðferð sem dæmi um eitthvað sem er andstætt sjálfbærri þróun. Þú getur snúið út úr eins og þú vilt en það verður ekki réttara fyrir þær sakir ).

  Hvernig væri nú einu sinni að hætta að láta eins og þeir sem eru ósammála manni séu fávitar og reyna að takast á við rök þeirra.

  Annars nennir maður vart að eiga í orðastað við mann eins og þig sem virðir hugmyndir rökfræðinnar og hugmyndir um heiðarlega rökræður að vettugi.

  Þú snýrð út úr, gerir aukaatriði að aðalatriðum og virðist hafa enga sómatilfinningu til að vera sanngjarn gagnvart þeim sem eru ósammála þér.

  Ég styð ESB-samningaviðræður en Nei-samtök þurfa ekki að halda úti neinni baráttu en stuðningsmenn eru með málflutning á borð við þinn.
  Bestu kveðjur,
  Gunnar
  P.S. Heimspeki er skrifað með einu s-i.

 • Góð greining hjá þér Teitur. Ég hef einmitt verið að velta þessu fyrir þessu ofstæki sem birtist hjá mörgum anti-ESB sinnum. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á rök þeirra.

  Stefán

  Þú ferð svolítið frjálslega með staðreyndir hvað varðar sameiginlega utanríkis- og varnarstefnu ESB.

 • „2009-05-22
  Forstokkuð þjóð
  Barátta landvarnarmanna harðnar gegn Evrópu. Við erum vöruð við væntanlegri herskyldu í Evrópusambandinu. Við erum vöruð við eitraðri búvöru frá Evrópu. Froðufellandi fullyrðingar verða stórkarlalegri með hverjum degi. Framsókn og Sjálfstæðið hafa boðað, að flokksaga verði beitt á þingmenn. Þeir fái ekki að styðja þingsályktun um viðræður við bandalagið. Þetta er fyrirboði þess, sem verður, ef viðræður leiða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Öll verstu einkenni Íslendinga munu rísa til vegs í þeim bardaga. Íslendingar eru svo forstokkaðir, að þeir munu aldrei samþykkja aðild. Rök skipta þar engu máli.
  jonas.is“

  Því miður held ég að þetta sé rétt hjá Jónasi.

  AH

 • Ég er sammála Jónasi.
  http://www.jonas.is/leidarar/greininp.lasso?id=11748

  Það er ekki hægt að eiga vitræna samræður um ESB. Umræðan verður svo svakalega þvælin.

 • Fer ég frjálslega með utanríkis- og hermálastefnuna eins og hún birtist í Lissabonsáttmálanum?

  Hver sem er getur lesið 27. greinina og 31. greinina.

  Einna mestu deilurnar um sáttmálann sem leiddu að lokum til þess að hann var felldur í Írlandi snerust einmitt um þessar klausur.

 • Rökin gegn ESB aðild eru að hætta er á að atvinnuleysi verði varanlegt eins og í flestum ESB-ríkjum:

  Fyrir mér er þetta svona:

  1. 8-12% stýrivextir og 1-2% avinnuleyis í venjulegi árferði (eins var hér á landi fyrir hrun)

  eða

  2. 8-12% atvinnuleysi og 1-2% stýrivextir (eins og er í ESB-löndunum í venjulegi árferði).

  Þá myndi ég velja leið nr. 1 hér að ofan.

  Það er alltaf klæmst á því að kostnaður við að halda í krónuna sé svo mikill.
  En hver er kostnaðurinn að vera með Evru? Hefur einhver hagfræðingur reiknað það út?

  Og hvað eru lönd eins og Spánn, Írland, Grikkland og fleiri Evru-lönd að greiða fyrir hið mikla atvinnuleysi vegna þess að þessi lönd eru með Evru?

  Ég spyr bara; Hvort er verra, hátt atvinnuleysi, eða háir stýrivextir?

  Háa stýrivexti er hægt að lækka með einu pennastriki, en ekki hátt atvinnuleysi.

  Hvers vegna eru stýrivextir svona lágir í ESB-löndunum? Er það vegna "yfirburða" efnahagskerfis ESB? Nei, aldeilis ekki. Það er út af þessari einfalda orsakasamhengi hér:

  Mikið atvinnuleysi => Minni eftirspurn => Minni hagvöxt => Lága stýrivextir (til að reyna að örva eftirspurn og þar með atvinnu).

  Ástandið hér á landi hefur verið öfugt við formúluna hér að ofan.

 • Stefán

  Ef þú lest grein 27 í Lisabon sáttmálanum þá kemur skýrt fram að þetta eru friðarsveitir og þær starfa eingöngu það næst sameinginleg afstaða ALLRA ríkja.

  Eins og þú veist þá voru Frakkar og Þjóðverjar á móti innrásinni í Írak. Þannig voru mjög skiptar skoðanir meðal ESB ríkja um innrásina. Það þurfti ekki ESB aðild til að fá Ísland í þennan leiðangur eins sorglega og það er.

 • Já! -Heyrir þú það Stefán.

  Í þessu Íraksstíði þá studdi Ísland það og ýmis ríki ESB. EN EKKI ESB.

  Í því tilfelli var ESB einskonar stuðari á hundingjana sem studdu stríðið. Það þarf ekki ESB til að Íslands styðji eitthvað stíð. Íslendingar eru einfærir um það eins og dæmin sorglega sanna.

  Enn og aftur kemur fram málefnafátækt nei-ara.

  Sem sagt. Þessi frábæru rök sem þú notar, þessi „alvöru“ rök -eru því ónýt. Segir ekki unga fólkið „Face“ í svona aðstæðum?

  Face! Stefán. 🙂

  Komdu nú með alvöru „alvöru“ rök ellegar haltu þig fyrir utan umræðuna. Nóg er nú af þvæluni þó að þú bætir ekki við hana.

  En fyrst ég er byrjaður þá er það mér til efs að Finnar eða Svíar, Belgar eða Þjóðverjar láta teyma sig út í eitthvað stríð vegna þess að félagið sem þeir eru í, langar í stríð. Stríðsrekstur er beinlínis bannaður í stjórnarskrá Þýskalands ef þú vissir það ekki.

  Gott og vel, Það eru skiptar skoðanir um ESB. Sú staðreynd að nei-arar standa í vegi fyrir að málið sé útkljáð er hneykli. Klárum þetta mál! Förum í aðildarviðræður og látum þjóðina ráða för. Ég skal vera fyrsti maðurinn sem sættir sig við þá (lýðræðislegu) niðurstöðu.

  Hvi eru VG á móti því? -Að meirihlutinn ráði. Hverju sætir það? Hvaða hagsmunir eru þar að baki? Svaraðu því Stefán og notaðu almennileg rök en ekki þvaður.

 • Teitur:

  ESB fyrir og eftir Lissabon-sáttmálann er ekki sami hluturinn í utanríkismálum. Þetta áttu að vita.

  Bein aðild ESB að stríðsátökum var óhugsandi 2003. Lissabonsáttmálinn bætir hins vegar nýrri vídd inní starfsemi bandalagsins. Um þetta snerust deilurnar á Írlandi ekki hvað síst – en þar hefur hlutleysisstefnan verið lengi í miklum metum.

  Nema að Írarnir hafi bara verið svona vitlausir (báðar fylkingar). Það synd að þetta blogg sé ekki á ensku og gelísku – þá hefði þessi leiðinlegi misskilningur verið leiðréttur allsnarlega…

  Annars ætla ég að vona að lesskilningur þinn sé betri þegar kemur að Lissabonsáttmálanum en þýsku stjórnarskránni.

  Hvaðan kemur þér sú speki að stríðsrekstur sé bannaður í þýsku stjórnarskránni? Nú inniheldur hún t.d. sérstaka klausu sem felur það í sér að á stríðstímum færist yfirstjórn hersins frá varnarmálaráðherra til kanslara.

  Þjóðverjar komu að stríðsrekstri sem beinn þátttakandi og Nató-þjóð í Júgóslavíu árið 1999 og hafa tekið þátt í hernaðinum í Afganistan.

  Hvað myndu unglingarnir segja við þessu?

 • ég held þú hittir naglann á höfuðið með það að fólk sem hefur ekki búið erlendis og hefur ferðast minna erlendis sé líklegra til að ala á hræðsluáróðri fyrir ESB.

  Maður þarf ekki bara að hafa búið í löndum ESB til að vera fylgjandi aðild, heldur erlendis yfirhöfuð.

  Því miður hefur víðsýni ekki þótt líkleg til árangurs í pólitík á Íslandi hingað til, sérstaklega ekki út á landi.

 • Þetta var klaufalega orða hjá mér varðandi Þýsku stjórnarskránna. Árásarstríð er bannað. Bara minnst á varnarstríð og landamæravörslu.

  Aðgerðir í Júgóslavíu og Afganistan voru skilgreindar sem friðagæsla eða þvíumlíkt. Það var allt vitaust í Þýskalandi við þessa afsökun. Það að vera í Nató er alveg mögulegt fyrir Þýskaland og samhliða að taka ekki þátt í árásarstríði. -En nóg um það.

  Ég er ekki sammála þér að það sé synd að þetta blogg sé ekki á gelísku ellegar ensku. -Fínt að hafa það á íslensku.

  Segðu nú okkur frá því hversvegna VG eru á móti því að fá spilin á borðið varðandi ESB. Segðu okkur frá því hversvegna þið viljið ekki að meirihlutin ráði. -það væru sannarlega fróðlegar upplýsingar og sýndu rækilega fram á lýðræðisást VG og nei-ara.

  og Daði. Það tekur enga stund að taka það saman hvort samhengi sé milli aftstöðu þingmanna til ESB og heimavistar á Íslandi. Ég ætla barasta að taka þetta saman. Og birta niðurstöðurnar hér á Eimreiðinni. Jafnvel þótt þær séu ekki á pari við grunsemdir minar. 🙂

 • Lisbon sáttmálinn þýðir þett viðvíkjandi herapparötum allskyns. Allt tal um annað er þvæla:

  „Will the Treaty create a European army?

  No. Military capabilities remain in national hands. The Treaty foresees that Member States can make available civilian and military resources to the Union for the implementation of its Common Security and Defence operations. However, any Member State has the right to oppose such operations and all contributions to them will be always on a voluntary basis.

  A group of Member States who are willing and have the necessary capability will be able to undertake disarmament operations, humanitarian and rescue tasks, military advice and peace-keeping tasks. No Member State can be forced to participate in such operations.“
  http://europa.eu/lisbon_treaty/faq/index_en.htm#15

 • Sæll Teitur.

  Hressandi að lesa svona skrif um ESB.

  Nú hef ég búið í Svíþjóð í nokkurn tíma og get sagt þér að ég hef engan áhuga á að Ísland gangi í ESB. Enda eru engin rök fyrir því að íslensku þjóðinni sé betur borgið innan ESB en utan.
  Bara svona til að minna fullveldis-afsals-galarana á staðreyndir málsins þá er fullveldi aðildalanda ESB í dag og alla daga í skúffu hjá ESB í Brussels.

  Kveðja,
  Þórarinn Örn

 • Halló

 • 31. greinin:

  „Where the international situation requires operational action by the Union, the Council shall adopt the necessary decisions.“

  191. greinin tekur á því að fyrir slíku þurfi aukinn meirihluta, en einstök ríki hafa ekki neitunarvald.

  „Operational action“ er fínt tækniorð yfir stríðsrekstur.

  Niðurstaða mín er þessi: Lissabon-sáttmálinn veldur grundvallarbreytingu á eðli ESB og gerir það að mun óálitlegri kosti fyrir Ísland samaborið við bandalagið eins og það er í dag.

  Varðandi síendurteknar spurningar Teits um meinta hræðslu VG-fólks við að spyrja þjóðina – þá finnst mér verið að hafa endaskipti á hlutunum. VG stakk upp á málamiðlun sem hefði falið í sér tvöfalda atkvæðagreiðslu, en henni var hafnað af mönnum sem treystu sér til að ákveða að almenningur væri of heimskur til að honum væri treystandi til að fá að kjósa hið fyrra skiptið. Íslenskir ESB-sinnar eru þeir einu í álfunni sem telja landa sína of vitlausa til að taka afstöðu til Evrópusambandsins á grunni laga þess og grundvallarsáttmála. – Því miður.

  Við gætum því híað hvor á annan í bloggathugasemdakerfum fram í rauðan dauðann um hverjir séu lýðræðisvinirnir og hverjir ekki – en ég slíkt þref yrði nú tæplega mjög frjótt.

 • Ágæti Þórarinn Örn.

  KJÓSUM BARA UM ÞETTA!!

  Þjóðin er búin að hlusta á þessar vangaveltur í 25 ár! Hættum þessu snuddi og skerum úr um þetta mál!

  Fáum pakkann á borðið, opnum hann, metum hann og kjósum um hann.

  VG og hinn pólitíkski armur LÍÚ eru reyndar á móti slíku en við verðum að sýna slíkum yfirgangi viðnám.

 • Teitur ég hef búið í Svíþjóð síðan 1985.
  Ég var í Svíþjóð þegar Palme var myrtur, ég var í Svíþjóð þegar árás var gerður á sænsku krónuna og vextir fóru upp í 500 % sem leiddi til fjöldagjaldþrota heimila og fyrirtækja.

  Ég var í Svíþjóð þegar þjóðarauðurinn var seldur erlendum auðhringjum og Gautaborg er að súpa seyðið af í dag.

  Ég hef verið í Svíþjóð allan þann tíma sem það tók að skrúfa sundur eitt besta velferðakerfi heims. Það var gert með því að nota ESB tilskipanir um frjálsan markað.

  Á skrifandi stundu er verið að bera út nágrannakonu mína úr íbúð sem hún hefur búið í í 30 ár.

  Af hverju? Af því að svíar töpuðu máli um leiguréttindi á móti ESB. Ég hef litið á leiguréttin sem það síðasta af sænska velferðakerfinu sem ESB hefur eyðilagt.

  Að öðru leyti býst ég við að þú sért í hópi þess þriðjungs sem hefur það betra innan ESB.

  Næst þegar þú ferð um Jarntorget taktu eftir öllu götufólkinu, eða í sporvagn ef þú notar hann eða uti við Norrstan.

  Veistu að fyrir inngöngu i ESB voru nokkur hundruð götumenn í Gautaborg. Í dag skipta þeir tugþúsundum ef börnin eru reiknuð með.

  Nu er ég búinn að sýna þér hluta af Svíþjóð sem þú hefur ekki tekið eftir í litla raðhúsinu þínu.

  Skilgreindu nú fyrir mig þann vanda sem aðild að ESB leysir fyrir Ísland. Ég gæti skipt um skoðun þrátt fyrir arfaslæma reynslu af ESB í Svíþjóð.

 • Ég mótmæli því algerlega að rök okkar sem erum andstæðingar ESB séu veik og haldlaus. Þú gerir hreinlega lítið úr fólki sem er gegn ESB og reynir að einangra það við einhverja kverúlandta úr VG og svo einhverja erki íhaldsmenn og svo LÍÚ klíkuna.
  Þetta er bara til þess að reyna að gera lítið úr andstöðunni.
  Andstaðan við ESB er geysilega sterk og hún er ekki bundinn við flokka eða stjórnmálaskoðanir eða hagsmunasamtök.
  Andstaðan við ESB hefur farið vaxandi og hefur ævinlega vaxið eftir því sem umræður eru meiri.

  Við andstæðingar ESB aðildar erum alveg tilbúnir í rökræður og okkar rök eru sterk og margvísleg og standast skoðun mun betur en rök ykkar aðildarsinna.
  Ég fer ekki frekar útí þau hér en þau eru mjög víða aðgengileg m.a. á minni bloggsíðu og bloggsíðu Heimssýnar og svo hjá fjölmörgum ESB andstæðingum sem skrifa reglulega á Mbl blogginu.
  Við andstæðingar ESB aðildar viljum að þjóðin komi að þessu máli nú þegar og spurð að því hvort leyfa eigi stjórnvöldum að sækja um ESB aðild og í framhaldi af því fara í aðildarviðræður við Sambandið.
  Við erum ekki tilbúnir að leyfa stjórnvöldum að fara í þessar viðræður öðruvísi en að þjóðin sé spurð þessarar spurningar.
  Við teljum ekki rétt að splundra þjóðinni og kljúfa hana í andstæðar fylkingar vegna þessa máls öðruvísi en þá að það sé í farvegi sem alla vegana báðir aðilar geta komið sér saman um og það er að þjóðin komi strax að málinu. Nú er þetta bara einhliða í þeim farvegi sem ESB aðildarsinnar vilja.
  Ég mótmæli síðan harðlega því að við ESB andstæðingar séum einhverjir heimóttarlegir heimalingar sem aldrei höfum farið út fyrir landsteinana. Sjálfur bý ég í ESB landinu Spáni og þar áður bjó ég í ESB landinu Bretlandi.
  Af því að hafa kynnst ESB skrifræðinu og ruglinu hérna innan Sambandsins hef ég algerlega snúist öndverður gegn ESB aðild Íslands.
  Ísland hefur ekkert að sækja í þetta ólýðræðislega skiffinnskubákn.

  Ég mótmæli þvi

 • Ágæti Nafnaus í Gautaborg. Mér skilst að velferðarkerfið hafi verið orðið of dýrt og væri að sliga ríkiskassann. Þessvegna var skorið niður. Velferðarkerfi eru alltaf spurning um ballans. Ekki gengur að hafa kerfið „of gott“. það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem greiða til þess. Velferðarkerfi er reyndar ekki sænsk uppfinding. Það er ekkert síður sterkt í öðrum þróuðum Evrópulöndum. Varðandi götufólk þá er það líka að finna í Osló í hinum ríka Noregi sem ekki er í ESB. Ég sá það með eigin augum í vetur, varð reyndar fyrir ásókn norskra vændiskvenna í Kraft-göllum en það er önnur saga.

  -Ég sem hélt að Norðmenn væru alveg með þetta.

  Mér skilst líka að Svíar séu ekkert sértaklega mikið á móti veru sinn í ESB. Það er auðvitað togststreyta eins og gengur en þetta er ekki aðalmálið í sænskum stjórnmálum í dag. Við hjótum að vera sammála um það.

  Og varðandi persónulega hagi mína þá erum við hjónin skit-blönk. Ég atvinnulaus (stöpul vinna réttara sagt) og fjárhagurinn bágur satt best að segja. Við notum reiðhjóli mest til að ferðast milli staða en eigum bílskrjóð sem ég hata. Strætó og sporvagna notum við oft. -Fínn servis þar.

 • Ágæti Nafnlaus frá Spáni.

  Þú segir:

  Við andstæðingar ESB aðildar viljum að þjóðin komi að þessu máli nú þegar og spurð að því hvort leyfa eigi stjórnvöldum að sækja um ESB aðild og í framhaldi af því fara í aðildarviðræður við Sambandið.

  Þarna eru við bara sammála nema þið (nei-arar) viljið spyrja þjóðina tvisvar.

  Best að fá pakkann á borðið og kjósa um hann svo. Asnalegt að kjósa um að fá pakkann á borðið og kjósa svo aftur um hvort við þiggjum hann eður ei.

  En ef þetta er svona mikið hjartansmál þá er það mér að meinalausu að kjósa tvisvar um þetta. -En ég ræð nú engu um það 🙂

  Aðalatriðið er að fá pakkann á borðið og kjósa um hann. Klára þetta mál og hætta að rífast um hluti sem eru huldir móðu.

  það hugnast aðeins hinum pólitíska armi Sjálfstæðisflokks og VG -Ysta hægrinu og ysta vinstrinu.

 • Teitur.

  Ég er alveg til í að kjósa um þetta. Sagði heldur ekkert um að ég væri það ekki. Það er alveg óþarfi að vera að æpa og öskra. Ég bara sé hvernig þetta verður, ESB sinnum finnst þeir vera svo vel gefnir og einstaklega vel upplýstir (þeir hafa búið í útlöndum, gott ef þeir hafa ekki bara lesið bækur líka!) að þeir sem vilja ekki fara inn í ESB verða kallaðir þjóðernissinnar, afturhaldssinnar, fólk með hræðsluáróður og ég veit ekki hvað.

  Þannig bara er þetta ekki. Flestir sem vilja ekki fara inn í ESB vilja veg Íslands sem mestan og um leið veg íslendinga. Þeir telja að Ísland og þegnar þess muni hafa það betra utan ESB. Ég veit að það getur verið erfitt að skilja fyrir fólk sem hefur bitið það í sig að ESB sé lausin (flokkurinn með planið og allt það). Ég trúi því að við getum gert meiru úr því sem við höfum úr að spila utan ESB en innan.
  Öskur og köll breyta því ekki.
  Kveðja,
  Þórarinn Örn Andrésson.

Comments are closed.

Site Footer