AF GAGNSEMI RANGLÆTIS

Ég er alveg í skýjunum yfir komandi stjórnlagaþingi.  Ég trúi þessu varla.  Ég trúi því varla að þetta sé að gerast og það núna.  Mér er það nánast í blóð borið að á Ísland ríki einhverskonar hálf-réttæti.  Ég hef gengið í gegnum barnæskuna, unglingsár og fullorðinsár algerlega fullviss um að ætterni og klíkuskapur skipti meira máli fyrir framgangsríkan starfsferil en próf eða einkunnir úr skóla.Þetta styður nýleg rannsókn sem leiðir í ljós að yfir 50% af öllum opinberum störfum eru mönnuð eftir klíkuskap eða ættarvenslum.

Ég er vanur frekara ranglæti en þessu.  Ég er alin upp við að fólk sem trúir ekki á yfirnáttúrulega veru í himninum, skuli borga ríkinu fé til þess að standa undir átrúnaði á þessa yfirnáttúruveru.  Já og að áréttað sé í stjórnarskrá landsins um að allir Íslendingar tilheyri vissri tilbeiðslu-týpu nema annað sé tekið fram.Ég get haldið áfram

Ég er alin upp við það að kosningakerfin innan stjórnmálaflokkanna séu gerspillt.  Ekki er langt síðan fréttir bárust af því að þingmaðurinn Sturla Böðvarsson fór með kjörgögn (atkvæðakassa og atkvæðaseðla) út úr kjörstað og fór enn nettan hring á vinnustöðum í Stykkishólmi og fylgdist með því að fólk kysi „rétt“. Annað dæmi eru fölskvalausar mútur frá stórfyrirtækjum til stjórnálaflokkanna.  Takið eftir að stjórnmálaflokkarnir vilja alls ekki afnema þessar mútur og segjast „hafa teygt sig eins langt og hægt er“ í því að uppræta þennan ósóma. Á sama tíma hafa þeir hækkað verulega ríkisstyrki til stjórnmálaflokkana.

Ég hef horft upp á það að auðlindir landsins míns eru komnar í hendurnar á u.þ.b 100 fjölskyldum (sem eins og fyrir einhverja furðu eru allar í sömu stjórnmálasamtökum og eiga meir að segja fjölmiðil)  Ég hélt lengi framan að, að réttur minn sem Íslendings væri einhverskonar eignarréttur í auðlindum Íslands.  Ég á allavega hlutfallslegan skerf af skuldum landsins, en ég á ekki hlutfallslegan skerf af auðlindum þess og eignum!

Ég er alin upp við það að atkvæðisréttur jafnaldra míns á Ísafirði gildir tvöfalt á við minn atkvæðisrétt.  Hvernig þetta er fengið út er ofvaxið mínum skilningi.  Ég hélt í fávisku minni að lýðræði snérist um „ein manneskja = eitt atkvæði“.

Oft er það svo að tapararnir í kosningum á Íslandi standa uppi sem sigurvegarar þegar til kastanna kemur.

Það sem er svo dapurlegt við þetta er að okkur Íslendingum hefur verið kennt að „svona sé lýðræðið“ og skemmt að minnast orða Björns Inga Hrafnssonar sem rétt lyppaðist inn í borgarstjórn en varð næst valdamesti maður Reykjavíkur eins og hendi væri veifað.  En þið sem eruð enn að spekúlera hvort „svona sé lýðræðið“ er því til að svara að lýðræði er EKKI svona.

Ég hef líka verið alin upp við það að sameignarhugtakið er álitið eitthvað slæmt og vont.  Að fyrirbæri eins og ríkisfyrirtæki, hvað þá ömurð eins og „ríkisstarfsmenn“ séu einhverskonar hálfdrættingar á við þá sem vinna hjá „eðlilegum“ fyrirtækjum.  Eins konar sníkjudýr.  Svo rammt kveður að þessum áróðri að meir að segja kratar í Samfylkingunni þekkja ekki sameignarhugtakið og fegurðina við að stigagangur í blokk eigi saman og reki hjólageymslu…

Eins og  lesendur sjá þá er ég alin upp við óréttlæti.  Ég er alin upp í óréttlátu samfélagi.  Ég er alin upp í ranglátu samfélagi.

– – -Og hér kemur loksins punkturinn sem ég ætlaði að koma að í þessu bloggi.

Það sem rann upp fyrir mér að það er gagnsemi af þessu ranglæti.  Það er tilgangur. það er einhver virkni.  Þetta ranglæti kemur ekki að sjálfu sér að himnum ofan eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Fólk hefur mótað þetta rangláta kerfi og haldið því við.

Því miður fyrir mig og fleiri Íslendinga, eru það mjög fáir sem hafa gagn af þessu ranglæti.  Eiginlega alger minnihluti.  En málið hefur fleiri fleti en bara þann að „ríka fólkið heldur þessu við“.  Það er líka ástæða fyrir því að ranglætið í samfélaginu spanar svo vítt svið.  Allt frá trú á yfirnáttúrulega veru í himninum og yfir í mannaráðningarósómann eða kvótakerfið í heild sinni.

Ástæðan fyrir því að það er heppilegt að hafa óréttinn svo almennann, er sá að fólk sem alið er upp við almennann órétt, á erfiðara með að mótmæla.  það hefur ekkert land undir fótunum því allstaðar eru sprungur.  -Ef að eitt svið er lagað, er allt kerfið undir.  -Þá hefur fólk eitthvað viðmið og getur staðið í lappirnar.

Ef t.d óréttur ríkiskirkjufyrirkomulagsins er lagaður, er næsti óréttur í uppnámi og svo koll af kolli.  Það er því allt undir í komandi kosningum um nýja stjórnarskrá.  Það er bókstaflega allt undir og ekki furða að stjórnmálasamtök á borð við Sjálfstæðisflokkinn vilji ekki vita af þessu né heyra og hafa jafnvel opinberað áætlun sína um að eyðileggja Stjórnlagaþingið.

Ég er samt bjartsýnn og sé bara tvo meinbugi á komandi stjórnlagaþingi.  Í fyrsta lagi má það ekki taka of langan tíma.  Ef það gerist er líklegt að stjórnarandstaðan nái vopnum sínum og felli ríkisstjórnina með það að markmiði að senda þingið heim til sín. Hitt er að Alþingi sjálft stoppi af ályktanir Stjórnlagaþingsins.  Höfum í huga að rúmir fjórðungur Alþingis er algerlega andsnúin Stjórnlagaþinginu og niðurstöðum þess.

Ég er búin að kjósa og ég kynnti mér alla frambjóðendur vel.  Ég bókstaflega lá yfir þessu.  Ég notaði atkvæðið mitt 100% og raðaði 25 manneskjum á listann minn.  Enda eru þetta mikilvægustu kosningar sem ég hef lifað og mér er það til efs að ég muni taka þátt í mikilvægari kosningum.

Mér þykir kosningabaráttan hafa farið vel fram og laus við auglýsingaskrum.  Ég hafði þrennt að leiðarljósi þegar ég kaus.  Ég kýs ekki þá sem auglýsa.  Ég kaus bara fólk sem er andsnúið ríkiskirkjufyrirkomulaginu.  Ég kaus jafnmargar konur og kalla eftir fléttukerfi.Ég hvet ykkur lesendur góðir til að nota atkvæðið ykkar.  Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur frambjóðendur vel og ítarlega.  Þetta eru mikilvægustu kosningar sem okkar kynslóð mun taka þátt í og ef vel tekst til, verður grunnurinn lagður að betra og réttlátara Íslandi.

Site Footer