FIMM FYRIRTÆKI EN ENGIN SAMKEPPNI

Þrátt fyrir allar strauma og allar stefnur í stjórnmálunum og þrátt fyrir allar efnahagstilraunir sem gerðar hafa verið og þrátt fyrir allar deilur og línur og fylkingar er meira og minna almenn samstaða um ágæti hins frjálsa markaðar.

Ágreiningurinn liggur fyrst og fremst í því hversu frjáls markaðurinn á að vera.

Þeir sem eru til hægri vilja sem fæstar kvaðir og reglur og segja að markaðurinn „regúleri“ sjálfan sig. Þeir sem eru vinstra megin á ásnum telja að reglur sem lúta að frelsi markaðarins tryggi virkni hans sem verði öllum til hagsbóta. Svo má bæta við þriðja vinklinum sem er gegnsæis-krafan sem Píratar halda mikið frammi.  Sú hefð myndi segja að gegnsæi-kröfuna og eftirfylgni hennar, tryggi best virkni markaðarins.

Allt þetta eru ágætis fletir og segja má að allar þessar þrjár tegundir skoðana togist á og stuðli að einhverskonar dýnamík eða hvað á að kalla það.

Allt er þetta gott og blessað.  Þetta er að minnsta kosti kerfið sem við sitjum uppi með ef svo má að orði komast.

Við skulum hafa þennan inngang í huga áður en lengra er haldið.  Allir eru sammála um ágæti samkeppninnar og frelsi markaðarins er líka talin ágætis þótt deilt sé um hversu mikið frelsið eigi að vera og hvort upplýsingar sem varða rekstur, verð o.s.fr. skuli vera almenningi eru aðgengilegar.

Neytendasamtökin stóðu fyrir ágætri tilraun í nóvember á síðasta ári.  Ákveðið var að biðla til allra raforkusala á Íslandi og fá þá til að gera félagsmönnum Neytendasamtakanna tilboð sem gæti sparað þeim einhvern kostnað.  Þetta yrði einskonar hóp-kaup og hugmyndin sú að í krafti fjöldans, ætti að vera mögulegt að pressa niður verðið á rafmagni til félagsmanna Neytendasamtakanna.

Í raun er þetta ósköp einfaldur kapítalismi og ekkert skrýtið að einhver sem kaupir 1000 stykki af sápu, fái hvert sápustykki á góðum afslætti miðað við þann sem kaupir bara eitt sápustykki.  Málið verður enn einfaldara þegar haft er í huga að rafmagn er bara rafmagn. Það skiptir engu frá hverjum er keypt, eðli vörunnar er alltaf hið sama.

Í Danmörku hafa neytendasamtökin þar í landi náð virkilega góðum kjörum með svona útboðum og náð að pressa niður rafmangsverð niður um sem nemur 15%.  Það munar um minna sér í lagi í Danmörku þar sem rafmagn er dýrt.

Því er reyndar ekki fyrir að fara hérlendis, en það skiptir nákvæmlega engu máli.  Það ætti að vera hægt að ná niður verði á rafmagni í krafti margra kaupenda sem næmi um það bil 10-15%. Þetta var að minnsta kosti mat færustu markaðssérfræðinga sem stoðuðu Neytendasamtökin í þessum efnum.  Meðlimum Neytendasamtakanna voru sendar ýtarlegar upplýsingar um væntanlegt útboð.

Málið fór af stað.

Ég fylgdist með því allan tímann því ég er varaformaður Neytendasamtakanna og leyni því ekki að það var töluverð stemning í stjórninni þegar útboðsgögnin voru send til raforkusalanna.  Fyrirtækin sem fengu útboðsgögnin voru 5.

HS orka

Fallorka

OV

ON 

Orkusalan

Þegar svörin voru innkölluð þá má segja að stemningin hafi hrunið.  Af fimm fyrirtækjum sem fengu útboðið svöruðu aðeins tvö. Eitt fyrirtæki sagðist ekki vilja taka þátt í útboðinu og sagði pass.  Eina tilboðið sem mark var takandi á var frá Orkusölunni en tilboð þess fyrirtækis hljóðaði upp á 0,65% lækkun frá gildandi verðskrá.

…0,65% lækkun gott fólk.

Neytendasamtökin vöktu athygli á málinu en fjölmiðlar sýndu þessu lítinn áhuga enda má segja að mál sem þetta er hafið yfir dægurþras sem er langvinsælasta efni fréttastofanna.  Þetta er hinsvegar risastórt mál sem snertir ekki bara heimilin í landinu sem kaupa rafmagn, heldur líka þá staðreynd að rafmagnsmarkaðurinn einkennist af fákeppni þrátt fyrir að 5 aðilar séu þátttakendur í honum..

og síðast en ekki síst…

..Svona var þetta ekki hugsað þegar rafmagnsmarkaðinum var skipt upp  árið 2003.  Grunnforsendan var nefnilega sú að með frjálsum markaði, myndi fyrirtækin berjast um viðskiptavinina. Bæta þjónustu, bæta vöruna og lækka verðið.

 

 

Á næstu dögum mun ég fjalla ítarlegar um rafmagnsmarkaðinn og þá furðulegu stöðnum sem einkennir hann öðru fremur.

 

Site Footer