11 DAGAR

Nú eru 11 dagar síðan ljóst varð að Gunnlaugur M. Sigmundsson myndi stefna mér fyrir meiðyrði.  Eins og ég hef sagt áður þá vissi ég af stefnunni, dómtökunni og allt það, en trúði því barasta ekki að hann myndi fara alla leið með þetta.

Vísir frétti einhvernvegin af þessu og boltinn fór af stað.

Ekkert við því að segja.  -Fréttablaðið er bara að standa sig.

Nú verður bara ekki aftur snúið, svo einfalt er það.  Ég hef nú ritað 4 greinar um Kögunarmálið.  Upphaf málsins árið 1995.  Þegar svo Morgunblaðið fær nýjar upplýsingar um málið árið 1998.  Þriðja greinin fjallar um viðbrögðin dagana eftir grein Agnesar.  Fjórða greini fjallar um endalok málsins sem fólust í leynisamningi milli Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar.

Viðbrögðin við þessum greinum hafa verið sterk og greinilegt að máið er ekkert dautt.  Ég hef fengið ótal símtöl vegna málsins, enn fleiri tölvupósta og aðrir bloggarar hafa tekið málið upp.  DV hefur fjallað um málið bæði í grein og í leiðara.  Hér er svo Svarthöfði frá því í gær.  Eyjan hefur minnst þá málið.  (ef einhver veit um fleiri linka, þá endilega látið mig vita)

Það sem mér finnst einkenna þessi sterku viðbrögð er að fólk af kynslóðinni á undan mér svíður þetta mál.  Fólk sem var milli þrítugs og fimmtugs þegar þessir atburðir áttu sér stað.  Það er eins og þetta mál hafi skilið eftir óbragð munni heillar kynslóðar.

Nú verð ég að taka fram að með þessum 4 greinum sem ég hef birt á blogginu mínu, er ég ekki að gera neitt skúbb.  Þetta er allt þarna.  Þetta var hitamál og það var skrifað fullt af efni um málið.  Það eina sem ég gerði var að raða saman púsluspilinu.  Ég viðurkenni þó að ég sökkti mér í allt það sem hefur verið skrifað um málið.  Prentaði það út og hengdi upp á vegg í einhverri tímaröð.  Ég spáði endalaust í þessum atburðum og það var svo þegar einn félagi minn sendi mér hlekk af timarit.is, sem allt small saman.  Þá var myndin alveg skýr í huga mínum.

Ég fann grein sem mér hafði yfirsést í upphafi og bætti henni inn á réttan stað í umfjölluninni.  Greinin fjallar um starfslok Gunnlaugs M Sigmundssonar hjá Þróunarfélaginu 1995.  Þá var búið að reka hann, en í frásögn Gunnlaugs verður þetta að einhverju allt öðru og eitthvað ónefnt stórt alþjóðlegt fyrirtæki nefnt til sögunnar.  Hér er greinin sem ég fann og hér er samhengið sem ég læt hana í.  Hér er linkurinn á alla bloggfærsluna

Núna líður mér bara þokkalega á sálinni og málið orðið meiri áskorun frekar en ógn.  Ég get í raun ekki breytt neinu héðan í frá, nema að undirbúa vörn mína í málinu af kostgæfni og verja mig af hörku.  Sem betur fer er ég komin í sumarfrí og á leiðinni heim hvort sem er.  Ég kem þann 27, til Íslands og málið verður dómtekið daginn eftir.

-o-o-o-

Í gær vorum við hjónin að taka til.  Engin „dagskrá“ í gangi og veðrið hálf leiðinlegt.  Þá er akkúrat lag að setja Fugies á fóninn og taka fram skúringa-moppuna.  Þegar ég var svo að spekúlera í að slá garðinn, sá ég að nágranni minn hafði fengið lánaðan „stigann“.  Afar mikil samstaða er hér í raðhúsunum sem ég bý í.  Hverfið á forláta stiga sem hægt er að fá lánaðan.  Ég hafði nefnilega alltaf haft í huga að búa til rólu handa strákunum milli tveggja gríðarhárra trjáa sem eru í þessum litla garði mínum.

Nú var lag.

Þetta er gríðarlegur álstigi sem hægt er að lengja upp í 8 metra.  Ég slöngvaði stiganum í efstu stöðu og kleif eins hátt upp og ég þorði með taug sem var inn í skúr.  Ég verð að viðurkenna að ég var skíthræddur og þurfti að beita mig einhverskonar zen-búddískri ihugun til þess að taka efstu þrepin. Þegar ég var í svona 6-7 metra hæð batt ég taugina utan um trjábolina.

Afraksturinn er frábærasta róla í Gautaborg.

Ég tók nokkrar myndir.


Rólan er svo há að annað bandið dugði ekki til og ég þurfti að hnýta reipin saman.  Hugmyndin af rólunni er fengin úr æsku minni en þegar ég var í sveit, þá var inn í hlöðu forláta „hlöðuróla“.  Óskaplega skemmtileg.


Hér sést hin ógnvænlega hæð á rólunni.


Bessa fannst ekki leiðinlegt að róla sér.


Nærmynd.


Leó gaf ekkert eftir.


Fastur fyrir en glaðlyndur að sama skapi


Stundum er tími það besta sem maður gefur börnunum sínum.


Leó
missti af sér annað stígvélið í hasarnum.  Á myndinni sést Bessi koma með stígvélið.  Takið eftir að það sést BARA í stígvélið.


Bessi rólar litla bróður.

-Rólur eru frábærar.

 

Site Footer